18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

38. mál, verslun með tilbúinn áburð og kjarnfóður

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg vildi segja nokkur orð út af athugasemd háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), um það, hvort frv. þetta hefði verið borið undir þá menn. er versla með fóðurbæti. Jeg get skýrt frá því, að stjórnin hefir ekki borið þetta mál undir slíka menn. Henni var ekki ljóst, hvert helst væri að snúa sjer í því efni. Þetta frv. er sniðið eftir samskonar lögum í Danmörku, og með hliðsjón af lögum í Svíþjóð. En þau lög eru vafalaust gerð með aðstoð fagmanna og bygð á margra ára reynslu. Þeir, sem versla með fóðurbæti þann útlendan, sem talinn er upp í 2. gr., og sömuleiðis með áburð þann, sem talinn er upp í 1. gr., hafa oft efnagreiningarskýrslur. Svo var um kaupmenn þá, er einkum höfðu kjarnfóður útlent á boðstólum í fyrra. Þess vegna rekst hjer ekkert á, en annars er auðvitað ekkert á móti því, að nefndin beri sig saman við fagmenn í þessu efni, heldur þvert á móti. En til hins finst mjer engin ástæða, að bera það undir kaupmenn sjerstaklega, enda eru hjer þeir menn á þingi, sem hafa nóga kaupmannsþekkingu í þessu máli, eins og t. d. háttv. þm. Ak. (M. K.) og háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.), sem t. d. eru báðir vel kunnugir öllu því, er lýtur að sölu á síld.

Jeg geri ráð fyrir, að þar sem er um fóðurbæti að ræða, þá verði það ekki eingöngu löggiltar verslanir, sem þar koma til greina, heldur einnig einstakir framleiðendur. Menn þurfa ekki að kaupa borgarabrjef til þess að selja sína eigin framleiðslu.

En þegar verslað er með tilbúinn áburð (útlendan), þá verður hjer víst að eins að ræða um kaupmenn, stærri verslunarfyrirtæki og verksmiðjur. Frv. nær þá fyrst og fremst til kaupmanna og verksmiðja.

Jeg er annars þakklátur, að þetta frv. verður lagað sem best í hendi hjer í deildinni, því að jeg kannast við það, að það er gagnslítið að setja það í lög, sem ekki verður framfylgt. En þess ber að minnast, að þetta eru að eins tryggingarlög, en ekki bönd á frjálsri, svikalausri verslun.