15.03.1921
Efri deild: 23. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í C-deild Alþingistíðinda. (3331)

156. mál, erfingjarenta

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Það eru aðeins örfá orð, sem jeg hefi hjer við að bæta, því háttv. 2. þm. G.-K.. (B. K.) tók það fram, sem jeg vildi sagt hafa. Það var ekki af þeim sökum, að það, sem hv. þm. Snæf. (H. St.) vildi breyta láta, hefði við engin rök að styðjast, að landbúnaðarnefnd sá sjer ekki fært að verða við till. hans, heldur af hinu, að handa slíkum fjölda kæmi svo lítið fje að sáralitlum notum. Auk þess mun þeim hjúum, sem giftast, jafnaðarlega meiri þörf á slíkum styrk en hinum ógiftu. Annars vil jeg ekki samþykkja það, að það sjeu tíðast bestu hjúin, sem giftast ekki, en þau munu venjulega vera lengur í vinnumensku en hjú, sem giftast, en hv. deild hefir nú áður sýnt, að hún metur það að engu, þótt hjú sjeu lengur en 5 ár í ársvist. Jeg skal þó geta þess, að jeg vildi gjarna, að eitthvað væri gert fyrir þau líka, en þetta fje er svo lítið, að tæplega er til að miðla milli mjög margra.