18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

38. mál, verslun með tilbúinn áburð og kjarnfóður

Sveinn Ólafsson:

Jeg verð að kannast við það, eins og háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), að jeg hefi ekki getað gefið mjer tíma til að athuga þetta frv. fyr en nú á meðan á umræðum hefir staðið. En út af þeim athugunum og orðum hv. þm. Ísaf. (J. A. J.) og hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hefir mjer blandast hugur um, að tímabært sje að afgreiða þetta frumv. nú þegar. Jeg vil þess vegna lýsa því yfir, að þótt jeg greiði því atkvæði til 3. umræðu, þá er ekki sagt að jeg greiði því atkvæði út úr deildinni. Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) benti rjettilega á það, að í frv. er óeðlilega blandað saman sölu innlendra sjávarafurða til fóðurs við útlendan fóðurbæti.

Jafnvel fyrirsögn frv. virðist mjer athugaverð, ef í því á að standa alt, sem nú er þar. Fyrirsögnin um sölu á tilbúnum áburði og fóðurbæti gefur í skyn, að hjer sje um tvent ólíkt að ræða: Áburðinn annarsvegar og fóðurbæti hins vegar.

En svo er í 2. gr. talið til fóðurbætis lýsi, lifur og síld, sem eftir mati því, sem þar er nefnt, virðist geta verið á öllum stigum skemdar. Slíkar vörur geta fremur heitið fóðurspillir en fóðurbœtir. Að vísu er grýtt síld, lifur og ljelegt lýsi stundum notað til fóðurs í harðæri og fóðurskorti, en er þá neyðarúrræði og skepnum hættulegt, nema mesta varhygð sje á höfð. Alkunnugt er líka, að gripir drepast af þess kyns fóðri, eða veikjast mjög, ef skamtur af því er stór.

Annað eins fóður og þetta mætti nefna fóðurauka, en engri átt nær að nefna það fóðurbœti, og yfirleitt virðist mjer að þessum fóðuraukategundum ætti að útrýma úr frv., og eigi að telja þær með kjarnfóðri, innlendu eða útlendu, sem meta ætti, nema um ætilega og ógrýtta síld væri að ræða.

Annars er jeg ekki undir það búinn að koma með brtt. við frv. þetta. Ef til vill geri jeg það við 3. umr. En frv., eins og það nú liggur fyrir, hefir, að mínu áliti, ekki fengið nægilegan undirbúning til þess að verða að lögum, óbreytt.