15.04.1921
Neðri deild: 44. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í D-deild Alþingistíðinda. (3381)

103. mál, mat á aðfluttum kornvörum

Jón Þorláksson:

Það hefir komið fyrir nokkrum sinnum á þessu þingi, að þegar komið hafa frv. frá hæstv. stjórn, sem hún, beint eða óbeint, hefir afgreitt samkvæmt þál. frá undanförnum þingum, þá hefir ýmsum fundist, að málið væri ótímabært og að stjórnin hafi gengið lengra en ætlast hafi verið til með till.

Jeg stend upp vegna þess, að jeg get hugsað mjer, að einhver stjórn gengi lengra í framkvæmdum eftir þessari till. heldur en æskilegt væri.

Till. fer fram á mat og skoðun á öllum korn- og mjölvörum, sem fluttar eru til landsins til manneldis. Jeg held, að ef ætti að framkvæma það, svo í nokkru lagi sje, þá myndi það verða svo umsvifamikið og kostnaðarsamt, að mönnum þætti fljótt of langt gengið. Mönnum hlýtur að verða þetta strax ljóst, þegar þeir athuga það, að matvara er flutt á allar hafnir landsins og alt árið í kring. Það þyrfti því gífurlegt starfsmannahald til þess að framkvæma mat á því öllu.

Þess vegna greiði jeg till. atkv., í trausti þess, að stjórnin fari ekki of langt út á þá leið, sem fyrri hluti till. bendir til. En tilgangi hennar, að tryggja, að landsmönnum sjeu ekki seldar skemdar eða ónýtar korn- eða mjölvörur, ætti vel að vera hægt að ná, án þess að of stórt starfslið þyrfti til að koma.