15.04.1921
Neðri deild: 44. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (3384)

103. mál, mat á aðfluttum kornvörum

Jón Baldvinsson:

Jeg er þakklátur hv. flm. (S. St.) fyrir að hafa komið fram með þessa till. Menn hafa oft á undanfarandi árum orðið fyrir þungum búsifjum af skemdum kornmat, sjerstaklega á stríðsárunum. En jeg býst við, að það yrði umfangsmikið, ef skoða ætti allar kornmatartegundir, sem flytjast til landsins. En hitt er það, að ef verslunin væri í höndum landsins sjálfs, mundi fást meiri trygging fyrir góðum vörum.

Annað er það einnig, sem jeg vil benda á og gæti verið aðhald í þessu efni, sem sje ef skip, sem hingað ganga, væru skylduð til þess að flytja út aftur vöru, sem þau hefðu flutt inn skemda, því það kemur nú of oft fyrir, að inn er fluttur mesti óþverri. Ef hægt væri að leggja þessa kvöð á skipin, væri það mikið aðhald fyrir afgreiðslur þeirra erlendis að sjá um, að þau tæki ekki skemdar vörur til flutnings hingað.

Annars vildi jeg aðeins skjóta þessu fram sem bendingu til hæstv. stjórnar, ef till. yrði samþykt.