20.04.1921
Efri deild: 48. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í D-deild Alþingistíðinda. (3411)

106. mál, elli og líftryggingar o. fl.

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg var, því miður, ekki viðstaddur fyrri umr., svo jeg veit ekki gerla, hvað hv. flm. (G. Guðf.) hefir sagt um þetta. En ef til vill hefir hæstv. atvinnumálaráðherra (P. J.) verið hjer við og látið eitthvað uppi um undirtektir frá stjórnarinnar hálfu.

Þetta mál hefir verið mikið rannsakað og athugað á síðari árum. Fátækralaganefndin, sem starfaði rjett eftir aldamótin, athugaði þetta talsvert. Það er óhætt að segja, að bæði þing og stjórn hefir haft áhuga á þessu máli. Nokkuð hefir verið gert að lagasetningu í þessa átt, en auðvitað er sú lagasetning ein eigi fullnægjandi hjá oss. Á málinu eru margvíslegir örðugleikar, svo að stjórnin hefir ekki sjeð sjer fært að leggja út í gagngerða og víðtæka breytingu á löggjöfinni. Jeg hygg, að málið sje að mestu svo rannsakað, sem kostur er á hjá oss, svo að ekki þurfi mikið til rannsóknar þess að kosta enn. Við fáum ekki betri mann en þann, sem hefir fengist við þetta, og hefir hann rannsakað þetta mjög ítarlega.

Erlendis hefir verið farið ýmsa vegu til þess að ná því marki, sem hv. flm. (G. Guðf.) hefir fyrir augum. Í Þýskalandi voru fyrir ófriðinn lög lík því, sem till. hafði fyrir augum. Hvernig þetta er nú veit jeg ekki. í Noregi var fyrir skömmu komið langt á veg með lagasetning í svipaða átt, en jeg hefi ekki orðið var við, að lög hafi enn verið sett um þetta efni.

Jeg er viss um, að stjórnin verður fús á að rannsaka þetta nánar, og jeg ímynda mjer, að það hafi lítinn kostnað í för með sjer. Það getur vel verið, að stjórnin finni annan tryggari veg en nú er farinn. En sem sagt, mjer er óhætt að lýsa því yfir, fyrir stjórnarinnar hönd, að henni er ljúft að taka þetta til nýrrar athugunar.