07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í D-deild Alþingistíðinda. (3518)

121. mál, ullariðnaður

Frsm. (Björn Hallsson):

Jeg hefi fengið hálfgerð skilaboð frá hæstv. forseta (B. Sv.), að hann muni láta þessa tillögu koma til umræðu í kvöld, þótt áliðið sje, ef jeg og hv. flm. (E. E.) verðum stuttorðir, vegna þess, hvað orðið er framorðið og menn orðnir þreyttir af langri fundarsetu.

Jeg þykist ekki hafa stutt að því að teygja lopann, eins og sumir hv. þm. í dag, og þykist því ekki þurfa að biðja velvirðingar á því, þótt jeg tali í fjórðung stundar eða svo.

Nál. landbn. tekur flest fram af því, sem þörf er á að segja fyrir nefndarinnar hönd. Það, sem nefndinni og hv. flm. till. (E. E.) ber sjerstaklega á milli, er það, að nefndinni þótti hann ekki leggja mesta áherslu á það, sem hún telur meginatriðið í þessu máli.

Jeg þarf ekki að lýsa ástandi heimilisiðnaðar eða ullar hjer á landi eins og hann er nú kominn, því að flestir þekkja það mál og vita, að hann er svo að segja kominn í kaldakol. Í því sambandi get jeg bent á, að það er ekki lengra síðan heldur en t. d. þegar jeg var unglingur, að allur klæðnaður var unninn á sveitaheimilum hjer á landi, jafnvel yfirfrakkar. Nú má það kallast undantekning, að heimaunnin utanyfirföt sjáist, því jafnvel nærföt eru keypt frá útlöndum. Innlendu verksmiðjumar geta ekki nálægt því fullnægt þörfinni.

Þessu valda breyttir tímar, dýr og ónógur vinnukraftur o. fl. Fólkinu hefir fækkað að mun í sveitunum og fólkshald orðið svo dýrt, að ekki borgar sig að láta vinna tóvinnu með handafla. Það minnast margir þess gamla og góða siðar, þegar fólkið sat við vinnu á kvöldin í baðstofunum og einn skemti með sögulestri eða kvað rímur. Það er dálítið gert að þessu enn, en það er miklu minna. Þessi siður vann tvennt eða fleira í einu, fólkið vann með meiri áhuga verk sitt og það fræddist og skemti sjer við það, sem lesið var. Að þessi siður er lagður niður, er nokkuð að kenna breyttum húsakynnum. Nú er víða bygt eitt hús í stað allra bæjarhúsa, og mörg herbergi víðast komin í stað baðstofunnar. Það er ekki svo að skilja, að jeg vilji lasta þá breytingu; hún er óneitanlega til bóta í heilbrigðisáttina, þótt gölluð sje.

Karlmenn eru nú orðnir fáir á heimilunum og hafa því nóg að starfa úti, við gegningar gripa. Verða þeir því fegnir að hvíla sig á kvöldin, þegar þeir koma frá útiverkum. Dregur það úr tóvinnunni. Kvennfólkið er líka fátt og hefir nóg búsverka að vinna og getur ekki snúist við tóvinnu að miklum mun. Og ekki svarar kostnaði að kaupa fólk til þessara starfa. Niðurstaðan verður þá sú, að ullin er send utan og seld litlu verði, stundum hrakverði, en í staðinn kaupa menn frá útlöndum nærföt og utanyfirföt dýru verði. Það er líka orðin tíska, að ekki þykir nógu fínt að ganga í heimaunnum utanyfirfötum. Það þarf að fá það utanlands frá og er oft úr öðru efni en ull, sem þykir þá fylgja betur tískunni.

Nú er þó vöknuð alda í þá átt að efla heimilisiðnað. Má þar fyrst og fremst nefna stofnun heimilisiðnaðarfjelagsins. Hefir þessi hreyfing það aðallega fyrir augum að draga úr kaupum frá útlöndum og nota það, er vinna má í landinu sjálfu.

Þá vil jeg drepa á till. á þskj. 393 og brtt. nefndarinnar við hana.

Nefndinni virðist tiltækilegast að byrja með því að leggja áherslu á að útvega vjelar til hjálpar heimilisiðnaðinum. Sú undirstaða mun verða viðráðanlegust, að því er kostnað snertir. Nú eru víða komnar prjónavjelar og er þeim nokkuð að fjölga. Sömuleiðis er nýfundin upp álitleg spunavjel. Þyrfti að kosta kapps um að útvega og útbreiða þessar vjelar og koma sem víðast upp kembi- og lopavjelum, til þess að lyfta undir heimilisiðnaðinn.

Nú er lítið unnið að dúkavefnaði í vefstólum. Telur nefndin nauðsynlegt að auka þann iðnað og álítur, að námsskeið út um land hafi góð áhrif, og þarf þá líka að útvega góða vefstóla. Með því er hægt að spara kaup á ýmsu, svo sem borðdúkum, handklæðum, rúmteppum, gluggatjöldum, milliskyrtuefnum o. fl. En auðvitað þarf ef til vill að kaupa eitthvað af tvisti til þess að hafa með bandi í sumt af þessu. En það er þá samt unnið í landinu. Ekkert af þessu er svo óviðráðanlega dýrt, að ekki megi ráðast í það, þótt fjárkröggur sjeu.

Þá vill nefndin leggja áherslu á, að stofnaðar sjeu klæðaverksmiðjur, sem framleiði voðir handa landsmönnum. Þær mundu auðvitað kosta mikið. Þarf nákvæma rannsókn áður en ráðist verður í stofnun þeirra. Það verður að fara eftir aðstöðu, hvort þær verða hafðar fleiri og minni eða fáar og stórar. Er þó venjulega ódýrara að leggja í eitt stórt fyrirtæki heldur en mörg smá, sem framleiða jafnmikið. Við höfum hvorki viljað binda verksmiðjurnar við landsfjórðunga eða tölu. Verður það að fara eftir því, hvað hagkvæmast reynist við rannsóknina.

Þá leggur nefndin til, að mönnum verði veittur utanfararstyrkur til þess að kynnast meðferð vjela og þess háttar. Ætlast er til, að kostnaðurinn við það og rannsóknirnar verði veittur úr ríkissjóði, eins flm. till. (E. E.) leggur til. Álítum við rjett, að utanfararstyrkurinn sje veittur þeim hjeruðum eða tóvinnufjelögum, sem reka verksmiðjurnar, og teljum tryggara, að hann verði veittur hæfum mönnum, ef fjelögin ráða yfir honum heldur en hæstv. stjórn, sem ekki þekkir umsækjendur.

Hins vegar getum við ekki fylgt hv. flm. till. (E. E.) í því að vilja láta nú þegar fara að rannsaka eða hrinda af stað sútunarverksmiðjum til skinnasútunar eða klæðaverksmiðjum, sem framleiði dúka úr allri íslenskri ull. Við álítum, að þetta yrði svo dýrt, að rjettara sje að fresta rannsókn á því fyrst um sinn, meðan fjárhagurinn er eins erfiður og hann nú er og má búast við, að hann verði fyrst um sinn. Hins vegar kostar slík rannsókn eflaust talsvert fje, og virðist rjett að leggja ekki í hana nú þegar, þar sem fje er ekki fyrir hendi til framkvæmda, og er þá líka rjettara að spara rannsóknarkostnaðinn í bráðina. En okkur kemur ekki til hugar að neita þýðingu þessa iðnaðar; það er eflaust framtíðar- og framfaramál. En það má heita gott, eins og nú er ástatt, ef ríkið getur komið nokkru verulegu til leiðar á þeim grundvelli, sem nefndin hefir bent á í áliti sínu og tillögum.

Það má benda á það, að ekki er ólíklegt, að samvinnufjelögin og kaupmenn vilji vinna eitthvað að endurbótum á verkun húða og skinna, sem þeir hafa á boðstólum. Ætti það að vera áhugamál þeirra, að þær vörur gengju sem hæstu verði.

Ekki fanst nefndinni tiltækilegt, að ráðist sje í sameiginlegan ullarþvott að svo komnu máli. Mundi vera erfitt að koma slíkum stöðvum á víða vegna strjálbýlis, og verksmiðjumar þvo líka ullina, sem til þeirra er send. Í það minsta þarf að rannsaka vel, hvort ullin muni hækka að mun í verði á erlendum markaði við bættan þvott.

Hins vegar er líklegast eitt haldbesta ráðið til þess að bæta ullina það, að bæta fjárkynið og meðferð fjárins með því að rækta þelþykkra og ullarbetra fje.

Það er engum blöðum um það að fletta, að aukin ullarvinna að mun innanlands er eitt af allra þýðingarmestu málum vorum. Ber því að vinna að því máli með alvöru og af alefli. Nú er ullin í hrakverði, en rándýr útlend vara og verri keypt í staðinn. Sæi jeg lítið eftir eftir því, þó að silkidruslunum fækkaði dálítið í búðunum og haldgóð ullarföt kæmu í staðinn. En stúlkurnar eru líklega ekki allar þar á mínu máli.

Jeg er nú búinn að taka flest fram fyrir hönd nefndarinnar og ætla ekki að bæta meiru við fyr en hv. flm. (E. E.) hefir talað.