07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í D-deild Alþingistíðinda. (3520)

121. mál, ullariðnaður

Eiríkur Einarsson:

Vegna þess, hve áliðið er dagsins og þingfundurinn orðinn langur, skal jeg flýta máli mínu, enda þótt það, sem hjer er til umræðu, verðskuldaði það, að því væri helgaður lengri tími en flest annað, er hjer verður til málalenginga.

Hv. landbúnaðarnefnd, er hefir haft till. mína til álita, reiðir hátt til höggs, en allar breytingar hennar falla að mestu í sama farið og verða endurtekning á tillögum mínum, með öðrum orðum og nokkrum úrfellum, er gera það að verkum, að till. verður veigaminni og lítilsigldari.

Þó eru nokkrar af brtt. nefndarinnar, er jeg tel fremur til bóta, svo sem það, að hún leggur til, að ungum og efnilegum mönnum verði veittur utanfararstyrkur eftir því, sem óskað kann að verða heiman úr þeim hjeruðum, þar sem um ullariðnað er að ræða, en í minni till. er þetta ekki sjerstaklega tekið fram, heldur einungis gert ráð fyrir utanfararstyrk handa efnilegum mönnum í þessu skyni, en vitanlega var þar undirskilið, að slíkt færi fram á eðlilegan hátt, í þágu og þá eftir tillögum úr þeim hjeruðum, er hefðu málið á prjónunum til framkvæmda. En það er ekki nema til bóta, að slíkt sje skýrt tekið fram.

Á hinn bóginn byggir landbn. í lausu lofti, er hún í þessu sambandi talar um tóvinnufjelög, eins og þau væru til, en gerir engar tillögur um, hvernig þau skuli stofnuð, en að mínu áliti er það höfuðatriði, er heyrir til nauðsynlegum undirbúningi málsins, sem ræðir um í 6. lið till. minnar, er nefndin vill, að falli í burtu án þess, að nokkuð komi í staðinn. þetta tel jeg misráðið af nefndinni. Ef alt á ekki að lenda í handaskolum, er einmitt nauðsynlegt, að hjeruðum, er hafa áhuga fyrir ullariðnaðarmálinu, sje sem allra best leiðbeint um fjelagsstofnanir og fyrirkomulag, eins og jeg hefi fyr bent á. Við höfum of mörg dæmi fyrir okkur til þess að sjá ekki, hvað það þýðir að flaustra til fyrirhyggjulausra fjelagsstofnana, þar sem alveg er undir hælinn lagt, hvort nokkur ber skyn á málið, þeirra, er þar eiga hlut að. Er því nauðsynlegt, að stjórnin, með þeirri aðstoð, sem henni er hagkvæmust, sje til ráðuneytis frá öndverðu um stofnun tóvinnufjelaganna, bæði að því, er snertir eignarfyrirkomulag, og að öðru leyti. Í nágrannalöndum okkar, svo sem Noregi og Danmörku, er einmitt leitað slíks ráðuneytis þegar stofnuð eru iðnaðarfyrirtæki, annaðhvort til einskonar stjórnarskrifstofu, eins og Norðmenn hafa til leiðbeiningar í Kristjaníu, eða þá að iðnfjelög beitast fyrir þvílíku, eins og á sjer stað í Danmörku. Vildi jeg því, einkum að því, er þessi undirbúningsatriði snertir, koma tillögunni aftur í það horf, er hún hafði frá minni hendi. Það brýtur ekki í bága við það, að hlutaðeigandi hjerað hugsi sjálft fyrir fjáröflun, þótt það njóti leiðbeiningar.

Nefndin vill láta sútunar- og skinnaverkunarrannsóknir falla niður. Læt jeg mig það litlu máli skifta, því þess hefi jeg áður getið, að slíkar framkvæmdir mundu eiga lengra í land en ullariðnaðurinn, þótt það mál sje einnig merkilegt og verðskuldi rannsókn fyr en síðar.

Nokkur atriði í tillögu minni hefir hv. landbúnaðarnefnd alveg misskilið. Hún vill takmarka klæðaverksmiðjurannsóknirnar við klæðaþörf landsmanna, en horfir í kostnaðinn, ef athugað væri, hve miklar vjelar og verksmiðjutæki þyrfti til að vinna úr allri ull í landinu. Nefndin gáir þess ekki, að þegar undirbúningur og rannsókn þessa tóvinnumáls er komin á rekspöl, þá skiftir minstu, hvað kostnað snertir, hvort miðað yrði við meiri eða minni ull í væntanlegri skýrslu um rannsóknirnar. Þesskonar yrði hægt að finna reikningslega, úr því grundvöllurinn er fundinn. Þessi breyting nefndarinnar gerir því svo sem hvorki til nje frá, en sýnir, að hún misskilur málið. Eða heldur hún, að í rannsóknaryfirliti felist skuldbinding eða einskonar kvöð um, að alt þetta komist strax í framkvæmd?

Nefndin er á sama máli og jeg um það, á hverju eigi að byrja. í 5. lið till. minnar er einmitt gert ráð fyrir, að rannsóknum skuli flýtt og sjeð um, að þær verði glöggar og ítarlegar í stærstu framleiðsluhjeruðum landsins, og jafnframt skuli annarsstaðar stuðla að því, að smærri vjelum til kembingar o. fl., sem eru nauðsynleg undirstaða heimilisiðnaðarins, verði komið á. Það kemur skýrt fram, að hið sama vakir fyrir nefndinni í 1. og 2. tölulið hennar till.; orðalaginu er aðeins breytt, sem einu má gilda, úr því meining málsins raskast ekki.

Jeg hefi því ekkert á móti því, að till. verði samþ. eins og þær komu frá nefndinni, en áskil mjer rjett til að bera fram nokkrar brtt. til annarar umr., svo að till. komist í það horf, er jeg tel þessu merkilega máli best borgið með.