11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (3524)

121. mál, ullariðnaður

Eiríkur Einarsson:

Jeg þarf ekki að tala langt mál að þessu sinni, því flest hefir verið tekið fram áður um þetta efni, er máli skiftir. Er það og rjett, sem hv. frsm. (B. H.) hefir tekið fram, að nefndin og jeg erum sammála um aðalatriðin.

Hv. frsm. (B. H.) vildi ekki viðurkenna, að um misskilning væri að ræða hjá nefndinni, að því er snertir rannsókn á hinum stærri verksmiðjum. Um það má náttúrlega deila. En þó get jeg ekki frá því horfið, að í nefndinni hafi þarna gætt nokkurs misskilnings. Ef búið er að reikna út, hvað miklar vjelar þurfi til þess að vinna ákveðinn þunga af ull, þá ætti það ekki að vera nema einfalt reikningsdæmi, hversu miklum vjelum þurfi að bæta við til þess að vinna úr t. d. helmingi meiri ull. Jeg legg ekkert kapp á, að rannsakaðir sjeu nú staðir og stæði fyrir slíkar verksmiðjur, enda liggur það ekki í minni till.

Þá mintist hv. frsm. (B. H.) á tóvinnufjelögin. Jeg mun nú ekki hafa sagt, að nefndin hafi sett þetta ákvæði alveg út í bláinn, en hitt mun jeg sagt hafa, að grundvöllinn vantaði. Meinti jeg með því, að meðan slík fjelög væru ekki komin á fót, þá væri allsendis óákveðið, hvert þessi styrkur ætti að renna. Þó geri jeg ekki mikið úr þessu, því ekki er jeg í vafa um, að hvirfing bænda mundi að þessum iðnaði standa, þótt ekki mynduðu þeir sjerstök fjelög nú þegar, og gæti þá til þeirra runnið styrkurinn. Get jeg því látið mjer lynda, að í till. standi tóvinnufjelög.

Þá sný jeg mjer að brtt. mínum. Er þá fyrst, að jeg hefi bætt við 2. lið: „Skal þeim rannsóknum einkum flýtt og vandað til þeirra í hinum stærstu framleiðsluhjeruðum, er óska undirbúnings og hafa áhuga fyrir málinu.“

Er þetta sett inn í þeim tilgangi að flýta fyrir „praktiskum“ framgangi málsins.

En jeg vil geta þess, til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að það er alls ekki meiningin, að meir sje metinn undirbúningur til klæðavinnu en tóvinnu að öðru leyti. það hefir mjer ekki dottið í hug.

Önnur brtt. mín er viðbót við 3. lið, á þessa leið: „Þar á meðal hvernig fjáröflun til fyrirtækjanna og eignarfyrirkomulagi þeirra verði best hagað.“

Jeg álít, að eins og till. er nú komið, þá felist þetta ekki beint í henni, og mjer finst, að það verði aldrei of vandlega athugað, hvernig skipulagi og fjárhag slíkra stórfyrirtækja skuli hagað frá byrjun. Sýnist mjer og ekki liggja nær að leita til annara en hæstv. stjórnar í þessu efni.

Jeg skal svo ekki eyða fleiri orðum um þetta, en vona, að hv. deild samþ. brtt. mínar og hv. landbn. sjái, að þær eru í samræmi við tilgang bæði minn og hennar.