09.05.1921
Neðri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í D-deild Alþingistíðinda. (3668)

48. mál, sambandslögin

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Það var svo að skilja í fyrstu, er till. þessi var fram borin á öndverðu þingi, að henni lægi mikið á. Allsherjarnefnd var fyrir munn forseta deildarinnar ámint um að láta ekki lengi dragast að koma með nál. sitt. Nefndin hafði ekki ætlað sjer að stinga máli þessu undir stól nje tefja framgang þess að nokkru leyti, því hún áleit það vandamál mikið, er fulla rannsókn ætti skilið, svo þar þóttist nefndin nokkra afsökun hafa, þó að hún rasaði ekki mjög að athugunum sínum. En hins vegar bjóst nefndin við, að eftir að hún hafði birt álit sitt, yrði alt gert til þess að flýta málinu, í staðinn fyrir að láta það liggja í dái mestan hluta þingtímans. Má vera, að þegar þetta mál er nú seint og um síðir upp tekið aftur, þá eigi það að verða einn þáttur í leik þeim, sem leikinn hefir verið hjer í deildinni í vetur og er nú að verða þríþættur. (B. J.: Jeg er ekki forseti og ræð engu um það, hvenær mál eru tekin á dagskrá). Það er nú svona eftir því, sem á það er litið, en nefndinni, og líklega fleirum hv. þdm. er það ofkunnugt, hvað valdið hefir því, að málið hefir svo lengi legið niðri, og er því ástæðulaust að fara frekar út í það nú.

Þegar maður athugar till. þessa og tildrög hennar, verður líka að athuga, hvaða þýðingu hún geti haft.

Eftir áliti nefndarinnar voru það tvær ástæður, sem gátu verið því valdandi, að slík till. sem þessi væri fram borin.

Í fyrsta lagi, að stjórnin hefði vanrækt skyldu sína um að vera á verði fyrir rjetti Íslands og þjóðarinnar um það, sem till. ræðir um. Og þess vegna þyrfti stjórnin brýningu frá Alþingi um að gera skyldu sína.

Og í öðru lagi, að þau atriði, sem till. hefir að geyma, væru svo mikilsvarðandi fyrir rjettan skilning á 7. gr. sambandslaganna, að Alþingi yrði að grípa fram í til verndar rjettindum hins íslenska fullvalda ríkis og sem lögfest eru í sambandslögunum.

Þegar maður nú athugar fyrri ástæðuna, verður að minnast þess, er hv. flm, (B. J.) ljet í ljós, er hann bar fram till., að hann vildi ekki bera stjórninni tómlæti á brýn í framkvæmdum þessa máls, með öðrum orðum, að flm. (B. J.) vildi ekki saka stjórnina fyrir það, að hún hefði ekki gert skyldu sína, og þó að langt sje liðið síðan fyrri umr. þessa máls fór fram, hygg jeg þó, að jeg skýri rjett frá afstöðu hv. flm. (B. J.). Þess vegna virðist mjer, að þessi ástæða sje þar með fallin úr sögunni.

Þá er það viðvíkjandi síðari ástæðunni, að Alþingi beri bráð nauðsyn til þess að grípa fram í, og það að fyrra bragði, til verndar okkar unga ríki. Til þess nú að sannfærast um, hvað mikið megi upp úr þessu leggja, verður að athuga, hvað felst í till. Ef niðurstaðan verður sú, að hjer sje mikil hætta á ferðum fyrir okkar unga fullvalda ríki, þá skal jeg fúslega játa og viðurkenna, að slík orð sjeu í tíma töluð, því sóma og heiðurlands míns og þjóðar vil jeg í öllu. En ef engin rök er hægt að færa fyrir þessari miklu hættu, sem nú var minst á, þá virðist till. eiga nauðalítið erindi hjer inn á hið háa Alþingi, og er þá síst að furða, þó að mjer og öðrum alvörumönnum finnist hún vera borin fram af sjálfstæðisgorgeir og þjóðarrembingi þeim, sem gert hefir svo mikið vart við sig hjer á þingi og víðar síðan við fengum fullveldisnafnið, og ætti fremur að fylgja lítt hugsandi angurgöpum heldur en æfðum stjórnmálamönnum.

Að öðru leyti ætla jeg ekki að hafa inngang ræðu minnar lengri. Jeg læt mjer nægja, til frekari skýringa, að vísa til nál. okkar. Þó skal jeg geta þess, eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, að hv. flm. (B. J.) hefir nú sniðið aftan af till. 3 liði, og sýnir þetta meðal annars, hversu mikið alvörumál þetta er fyrir honum. Nefndin hafði, er hún samdi álit sitt, búist við, að till. kæmi til síðari umr. eins og hún upphaflega var, og miðaði við það nál. En þar sem nú eru ekki eftir nema þrír fyrstu liðirnir, sje jeg ekki ástæðu til að ræða nema um þá, og skal jeg þá taka þá alla í rjettri röð og athuga þá frekar.

Nefndin hefir ekki talið, að þessi nafnbreyting í 1. lið till. hefði neina sjerstaka praktiska þýðingu. Hún er í alla staði meinlaus, en hefir ekkert að segja í framkvæmdunum, því þetta, sem þarna er nefnt, mun koma á einn ráðherrann, og þá að líkindum forsætisráðherrann. Hann mun að sjálfsögðu hafa á hendi þá íhlutun um utanríkismál okkar, sem leiðir af valdi voru yfir þeim málum, sem vjer höfum, þó að Danir fari með þau í umboði voru, og virðist þá ekki miklu skifta fyrir íslenska fullveldið, hvort einn ráðherrann beri titilinn utanríkisráðherra, eða ekki. Það er vitanlegt, að Danir fara með utanríkismál okkar í umboði okkar samkvæmt 7. gr. Og hefði þeim vitru mönnum, er samninginn gerðu, þótt svo miklu máli skifta, að einn ráðherrann hjeti utanríkisráðherra, þá hefðu þeir vafalaust komið ákvæði um það þegar í öndverðu inn í sambandslögin. En mjer vitanlega bar slíkt aldrei á góma á milli þeirra vitru stjórnmálamanna, er að þessum samningum unnu, svo þá hefir það eigi þótt svo þýðingarmikið eins og nú er látið í veðri vaka.

Nefndin lítur því svo á, að það hvorki skerði nje veiki fullveldi okkar, hvort þetta sje upp tekið nú eða ekki. Fari svo í framtíðinni, að reynslan sýni, að þetta geti haft praktiska þýðingu, þá getur stjórnin, og er það líka innan handar, tekið þetta upp. En sem sagt, eins og nú standa sakir, hefir það enga þýðingu. Hins vegar er nefndinni ekki kunnugt um, að vöntun á þessum titli eða heiti hafi komið að ógagni, eða verið til tálmunar nauðsynlegum framkvæmdum 7. gr. sambandslaganna. Og jeg hygg, að þessi skilningur nefndarinnar sje á rökum bygður.

Þá er það 2. liður till., og þykir mjer þá hlýða að lesa hann upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Að halda fast fram skilningi hins íslenska hluta ráðgjafarnefndarinnar eftir 16. gr. sambandslaganna, að þeir menn sjeu íslenskir embættismenn, sem sendir eru eftir 7. gr. 3. lið, þangað sem engir eru danskir sendiherrar eða sendiræðismenn, og slíkt hið sama ráðunautar, sendir eftir sömu gr. sama lið.“

Um þennan lið er það að segja, að nefndinni hefir borist til eyrna, og hefir talsverð rök fyrir, að satt muni vera frá sagt, að hjer væri um nokkum ágreining að ræða milli hins íslenska og danska hluta lögjafnaðamefndarinnar, og að íslenski hlutinn hjeldi fram þeim skilningi, sem felst í till. Að þessu leyti hefir því 2. liður till. við meiri rök að styðjast heldur en 1. liður. En lögjafnaðarnefndin í heild sinni hefir enn ekki tekið fullnaðarákvörðun um þennan ágreining, að því er nefndin best veit. Hins vegar verður nefndin að hallast á það, að skilningur íslenska hlutans sje eðlilegri frá okkar sjónarmiði sjeð, og málið í sjálfu sjer merkilegt, en þrátt fyrir það þykir nefndinni engin ástæða til þess, að Alþingi fari upp úr þuru að gera þetta að frekara deiluatriði milli Íslendinga og Dana. Enda ekki ástæða að örvænta um, að stjórnin geti ekki jafnað þetta og til lykta leitt á heppilegan hátt, svo vel megi við una, og ætti hún þar að hafa góðan stuðning í hinum íslenska hluta lögjafnaðarnefndarinnar, og ekki síst á meðan þar á sæti sjálfur flm. till., hv. þm. Dala. (B. J.). En að stjórnin hefir enn ekki látið þetta deiluefni til sín taka, mun vera af því, að þessi ágreiningur er svo nýlega upp risinn, að stjórnin mun tæplega hafa haft færi á að jafna hann. En færi nú svo um þennan ágreining, að Íslendingar þættust ekki mega við una og Danir vildu í engu vægja nje sveigja til fyrir okkar skilning, — jeg segi, ef svo færi, án þess þó, að jeg sje nokkru um það að spá, — þá er hægt að grípa til heimildar þeirrar, sem er í 7. gr. sambandslaganna og nota gerðardóminn, sem þar er settur, til að leggja úrskurð á þann ágreining, sem rísa kann um skilning á sambandslögunum.

Nefndin lítur því svo á, að enn sje málinu ekki svo langt komið, að ástæða sje fyrir þingið að grípa hjer fram í og skora á stjórnina að kippa þessu í lag. Enn sem komið er hefir ekkert það komið fram, er bendi til þess, að stjórnin eða íslenska hluta löggjafarnefndarinnar skorti vilja og djörfung til þess að halda fram rjetti hins íslenska fullvalda ríkis, og á meðan ekki liggur neitt slíkt fyrir, sem ásaka þurfi, er ástæðulaust að örvænta um góðan framgang þessa máls.

Þá er 3. liðurinn um að láta þá menn hafa embættisheitið sendiherra um stundarsakir, sem stjórnin sendir til sjerstakra samninga eftir 7. gr. sambl. 3. lið.“

Eins víst og það er, að þau atvik geti komið fyrir, að íslenska stjórnin þurfi að senda menn í þarfir ríkisins til annara landa, eins álítur nefndin, að engin brýn nauðsyn sje á því að titla slíka menn þessu heiti, „sendiherrar um stundarsakir“. Nefndin getur því ekki hugsað sjer þetta annað en sjálfstæðistildur, svo jeg viðhafi ekki stærri orð, t. d. ef stjórnin sendir mann til útlanda til þess að semja um hrossasölu, annaðhvort í Danmörku eða Englandi; ætli mönnum þætti það ekki hálftildurskent, að slíkur hrossasölumaður ætti að bera titilinn „sendiherra um stundarsakir“, hvort sem nafn hans væri Guðmundur Hávarðsson, Pjetur Pjetursson eða bara Páll? (B. J.: Eða Sigurður Stefánsson). Jeg geri nú ekki ráð fyrir því, að hann myndi verða fyrir slíku vali, en yrði hann sendur, er mjer þó óhætt að fullyrða, að hann myndi frábiðja sjer þennan sendiherratitil. Aftur á móti þykir mjer mjög sennilegt, að þm. Dala. (B. J.), yrði hann sendur, myndi vilja halda slíkum titli, enda hefir hann áður, sem viðskiftaráðunautur, getið sjer mikinn heiður, og myndi því einkar vel fallinn til þess að heita „hrossasölusendiherra um stundarsakir“.

Annars var nú þetta útúrdúr, sem hv. þm. Dala. (B. J.) gaf tilefni til, en ekki jeg. (B. J.: Ekki gaf jeg tilefni til þess, þó að jeg nefndi eitt nafn).

Nefndin vill í þessu máli, á meðan stjórnin hefir ekki sýnt nein mistök, að hún hafi sem óbundnastar hendur um þessi atriði. Það skiftir minstu, hvað sendimenn stjórnarinnar eru nefndir; hitt er aðalatriðið, og á því verður að byggja, hvort sem um hrossasölu er að ræða eða annað, að mennirnir sjeu hæfir og leysi starf sitt vel af hendi. Auk þess getur komið fyrir, að gott sje fyrir oss að njóta aðstoðar við samninga erlendis hjá sambandsþjóðinni. Og þó að við sjeum miklir menn og stjórnkænir „diplomatar“, tel jeg okkur það enga minkun að nota þá góðu krafta, sem við eigum völ á hjá sambandsþjóðinni. þessi stimpill, eða sendiherratitill, er ekki svo mikils virði í þessu efni, að Alþingi eigi nú að rísa upp og skora á stjórnina að hrinda þessu þegar í framkvæmd. Enda man jeg ekki betur en að forsætisráðherra mælti eitthvað á þá leið við fyrri umræðu þessa máls, að hann hefði góðar vonir um, að þetta gæti lagast með tíð og tíma, án allra áskorana frá Alþingi, ef það þætti miklu máli skifta, og þess vegna sýnist nefndinni ástæðulaust að fara að skipa um þetta nú með sjerstakri þingsályktun. En þá nauðsyn hefir nefndin ekki getað komið auga á, að því, er til till. hv. þm. Dala. (B. J.) kemur.

Auðvitað gerir bæði nefndin og þingið ráð fyrir, að stjórnin sje jafnan á verði að því er rjettindi Íslands snertir, og láti ekki ganga þar á gerða samninga. Að því lýtur og dagskrá nefndarinnar.

Skal jeg svo ekki fara frekari orðum um afstöðu nefndarinnar til þessarar till., heldur bíða átekta og svara síðar fyrir nefndarinnar hönd, ef mótmæli koma fram.