11.03.1921
Neðri deild: 20. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

35. mál, lífeyrissjóður barnakennara

Fjármálaráðherra (M. G.):

Þetta frv. hefir gengið í gegnum háttv. Ed. og að eins tekið þar örlitlum breytingum. Aðalinntak frv. er að stofna samskonar lífeyrissjóð fyrir barnakennara og ekkjur þeirra, eins og með frv. um lífeyrissjóð embættismanna og ekkna þeirra. Stofnsjóðnum verður svo viðhaldið með því að leggja ákveðna hundraðstölu af launum kennara í sjóðinn. Þeir eiga sinn eigin sjóð, sem er um 50 þús. kr., og byrja þeir því með eins háum sjóði eins og lífeyrissjóður embættismanna. Annars er frv. sniðið eftir frv. um lífeyrissjóð embættismanna og ekkna þeirra, og vildi jeg leyfa mjer að óska þess, að því verði vísað til allsherjarnefndar, því að þar var það í efri deild.