22.02.1921
Neðri deild: 6. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

37. mál, varnir gegn berklaveiki

Forsætisráðherra (J. M.):

Mál þetta á upptök sín hjá Læknafjelagi Íslands, eða læknaþingi því, sem haldið var hjer í bænum vorið 1919. Var þar samþykt áskorun til Alþingis um að skipa milliþinganefnd af læknum, til þess að rannsaka berklavarnir og koma fram með tillögur þar um. Háttv. þm. Str. (M. P.) bar málið síðan fram á Alþingi sama ár, og var þar samþykt áskorun á stjórnina að skipa 3 lækna í milliþinganefnd, til þess að rannsaka, á hvern hátt megi verjast berklaveiki hjer á landi, og skyldi nefnd þessi leggja síðan rökstuddar tillögur fyrir næsta þing. Í nefndina voru svo skipaðir sama haust læknarnir: Guðmundur Magnússon prófessor, formaður, berklahælislæknirinn á Vífilsstöðum og flutningsmaður till. á þingi, hv. þm. Str. (M. P.).

Till. nefndar þessarar eru nú komnar. Að vísu er í þingsályktunartillögunni skipun um það, að till. nefndarinnar skuli lagðar fyrir næsta þing, en jeg býst nú ekki við, að að því verði fundið, þótt það væri ekki gert. Alþingi 1919 var ekki lokið fyr en um haustið, og nefndin gat ekki orðið skipuð fyr en í október, svo að þótt hún hefði tekið til starfa þá þegar, þá var ómögulegt að ætlast til, að till. hennar væru búnar og frv. afgreitt til þess að leggja fyrir febrúarþing 1920.

1 þál. er sagt, að nefndin skuli leggja till. sínar fyrir þingið; það hefir nú auðvitað ekki verið hugsunin, heldur hitt, að stjórnin skyldi gera það, því að nefndin hefir ekki rjett á að leggja till. fyrir þingið. En það er eins og í þessari orðan hafi legið spádómur, því að till. nefndarinnar komu svo seint til stjórnarinnar, að ekki hefir unnist tími til að leggja formlega fram af stjórnarinnar hálfu nema aðalfrv., fylgifiskarnir, hin frv. 3, komu svo seint, að það hefði orðið of mikill dráttur á því að fá samþykki konungs til þess að leggja þau fram, nema þá símleiðis, en það hefði orðið býsna mikill kostnaður. Jeg vil því biðja hv. deild að taka við fylgifrv. eins og þau liggja fyrir í nál. Annars kem jeg að þeim síðar í ræðu minni.

Þá er nefndarálitið sjálft. Það sá jeg ekki fyr en eftir að Alþingi var sett, og hefi því ekki getað farið yfir það nema mjög lauslega.

En jeg þykist hafa skynjað svo mikið, við lauslega yfirferð að jeg megi ráða háttvirtum þm. að kynna sjer álit þetta mjög vandlega, svo miklar skýringar, ráð og bendingar um varnir gegn berklaveikinni sýnist mjer það hafa inni að halda, þótt það sje tiltölulega stutt. Jeg hafði að vísu beðið nefndina að hafa nefndarálitið sem styst, vegna kostnaðar við prentun, en mjer dettur ekki í hug að þakka mjer það, hve hóflegt það er að þessu leyti, eins og yfirleitt í tillögunum.

Og er það merkilegt, þar sem þrír læknar voru einir um að gera tillögur. Þá hefði maður getað búist við, að mest yrði lögð áherslan á að haga vörnunum svo, að sem kraftmestar væru, en síður um hitt, hver kostnaðurinn yrði, eða hvort hann yrði kleifur. Nú virðist mjer allar tillögurnar yfirleitt þannig, að verði þær teknar til greina, þá fáist allöflugar varnir gegn berklaveikinni, án þess að segja megi að þær sjeu fjárhagslega um megn. Kostnaðurinn við hinar fyrirhuguðu varnir kemur ekki allur þegar, heldur smátt og smátt, að sömu leyti, og mjer virðist niðurskifting kostnaðarins á almannafje einkar skynsamleg. Jeg hygg, að það sje meðal annars gott ráð að gera sýslufjelög að framfærslufjelagi í þessum efnum. Um nauðsynina á vörnunum ætla jeg ekki að tala.

Það má ekki vanþakka það, og það gerir nefndin heldur ekki, hve tiltölulega afarmikið hefir verið gert að berklaveikisvörnum hin síðustu árin, eða svo að segja frá byrjun þessarar aldar; meðal annars bygt hið tiltölulega myndarlega berklahæli á Vífilsstöðum, fyrst fyrir fullorðna, og nú síðast deild fyrir berklaveik börn. Það má ekki heldur gleyma starfsemi landlæknis, Guðmundar Björnsonar, að berklaveikisvörnunum, þegar nú er verið að tala um að gera þær enn kraftmeiri og víðtækari, og það gerir nefndin heldur ekki.

Jeg vona, að hv. deild geti fallist á frv. það, sem hjer liggur fyrir, óbreytt að mestu. Með allri virðingu fyrir hinni hv. deild, býst jeg ekki við, að hún bæti sig stórum á frv. Auðvitað verður væntanleg nefnd að athuga vandlega fjárhagshliðina.

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, byggir að vísu á þeim lögmæltu vörnum gegn berklaveikinni, sem nú eru, en breytir þeim á margan hátt og gerir þær fyllri.

Það er lögð sjerstök áhersla á það í frv. að vernda börnin. Berklaveikin er, segir nefndin, einkanlega barnasjúkdómur, og vitanlega eiga börnin miklu örðugra en fullorðnir með að verja sig, og því örðugra sem þau eru yngri.

Þá er annað atriði, sem lögð er áhersla á í frv., og það er eftirlitið. Það er sýnt fram á það í aths., hve sjálfsagt og nauðsynlegt það sje, og að það sje ekki ofætlun hjeraðslæknum að hafa það á hendi. Jeg vil leggja áherslu á ummæli nefndarinnar um þetta atriði, og er jeg sjerstaklega þakklátur fyrir þau. Hún segir svo:

„Það er víst og satt, að með frv. eru ýmsar skyldur og aukið starf lagt á hjeraðslæknana, en varla þarf að efast um, að þeim yrði ljúft að beita kröftum sínum til almenningsheilla, og svo er hitt, að kjör læknanna eru nú orðin svo sómasamleg, að ríkið á fulla rjettlætiskröfu til þess að njóta starfskrafta þeirra“.

Jeg vil vekja athygli á þessum ummælum, og býst við að fá tækifæri til að víkja að þeim í öðru sambandi.

Það yrði alt of langt mál að fara að nokkru ráði að tína einstök atriði frv. Jeg hefi minst á nýmælið um dvalarhjeraðið. Jeg skal að eins nefna ákvæði 14. gr., um hinar þrenskonar vistarverur fyrir berklasjúka: heilsuhæli, sjúkrahús og sumarhæli barna, og skal geta þess í því sambandi, að jeg held, að við megum ekki hugsa til þess fyrst um sinn að hafa nema eitt reglulegt heilsuhæli.

Þá er kostnaðaráætlunin. Eins og nefndin tekur fram, er erfitt að segja nokkuð verulega ákveðið um aukinn kostnað. Samt virðist mjer mjög sennilegt, að áætlun nefndarinnar fari nærri lagi. Ef það vinst, sem til er ætlað með fyrirhuguðum vörnum, þá eru 72 þúsund krónur árlega ekki mikil aukning gjalda, og svo mikil yrði aukningin ekki fyr en eftir nokkur ár. Að vísu er þá ekki talinn allur kostnaður til varnanna, því að gera má ráð fyrir, að smátt og smátt yrði að veita í fjárlögunum byggingarstyrk, og máske til útbúnings hjeruðunum, til sjúkrahúsa, og ef til vill til barnahæla. En það yrði þá ekki tilfinnanlegt mjög. Jeg skal benda á það, að ekki er hjer tekið upp í áætlunina neitt um tekjuhallann á rekstri Vífilsstaðahælisins, sem er um 100 þús. krónur; en það hefir eigi heldur áhrif á aukning gjalda vegna tillagna nefndarinnar, og má þar að auki búast við, að hann minki smámsaman að miklum mun.

Þá eru hin frv., sem að vísu eru nokkuð fyrir utan verkahring nefndarinnar, nefnilega frv. um læknaskipun í Reykjavík, um viðauka við lög um laun embættismanna, og um að bæta við einum prófessor í læknadeild Háskólans. En mjer finst alveg rjett af háttv. nefnd að koma fram með þessi frv., meira að segja, jeg held að háttv. þm. megi vera þakklátir nefndinni fyrir það að dylja ekki þessar afleiðingar af tillögum sínum. Frv. um nýjan prófessor er þó fjærst. Nýju embætti er samt ekki bætt við, öðru en prófessorsembættinu, og er það eflaust rjett hjá nefndinni, að hjá því verður varla komist lengi. Sóttvarnalæknir hefir starfað hjer um tíma, og þó að engin bein heimild sje í lögum til þess að hafa þennan mann, svo sem embættismann, þá er það bein afleiðing af mjög ákveðnum kröfum Alþingis um sóttvarnir.

Jeg vil leyfa mjer að beina þeim tilmælum til háttv. nefndar, sem fjallar um þetta mál, væntanlega allsherjarnefndar, að bera þessi þrjú frv. fram. Sjái hún sjer það ekki fært, mun háttv. þm. Str. (M. P.), sem jeg vænti, að nefndin beri sig saman við, flytja þessi frv.

Mjer þykir rjett að taka það fram, að meðverkamenn mínir í ráðuneytinu hafa ekki viljað binda sig við fylgi með þessum 3 frv., fylgifiskunum, svo beiðnin stendur fyrir minn reikning eins. Jeg vil ekki segja, að jeg væri mótfallinn hverri breyting á þessu frv.; get til að mynda vel hugsað mjer að finna mætti meira handa sóttvarnalækninum að gera, því að jeg er ekki sannfærður um, að sóttvarnirnar gefi honum fult starf.

Jeg veit, að háttv. deild sýnir máli þessu öllu fulla alúð, og jeg vona, að hún sjái sjer fært að stuðla að því, að það fái framgang á þessu þingi.