15.03.1921
Neðri deild: 23. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

37. mál, varnir gegn berklaveiki

Jakob Möller:

Það er merkilegt, að flest af því, sem jeg vildi sagt hafa, hefir háttv. þm. Borgf. (P. O.) tekið fram. En sá er þó munurinn, að jeg dreg af því alt aðrar ályktanir en hann, og því verður afstaða okkar til frv. gagnólík.

Þm. (P. O.) gat þess, að lítið yrði úr framkvæmdum frv. fyrst í stað. Jeg er þar alveg á sama máli. En hann gætir þess ekki, að með því er fallin burtu og að engu orðin aðalástæða nefndarinnar fyrir því að leggjast á móti frv., en það var kostnaðurinn, sem af framkvæmd frv. leiddi. Sá kostnaður kemur ekki fyrr en ráðist verður í þær framkvæmdir, sem að vísu eru ráðgerðar í frv., en ekki geta komist til framkvæmda fyrst um sinn, og ekki fyr en búið er að vinna það undirbúningsstarf, sem frv. fer fram á. Undirbúningsstarfið er kostnaðarlítið, og engin ástæða til að fresta því, vegna þess hve mikinn kostnað það hlyti að hafa í för með sjer að framkvæma það, sem að því loknu mundi koma í ljós að gera þyrfti til að hefta útbreiðslu berklaveikinnar. En hjer er verið að tefja fyrir því, að þessi undirbúningur verði hafinn, með því að spyrna á móti frv. Og þessi mótspyrna stafar af misskilningi og skammsýni allshn., eins og jeg hefi þegar sýnt fram á, þar sem hún hræðist kostnaðinn við sjúkrahæli og aðrar framkvæmdir, sem þó alls ekki koma til framkvæmda og ekki geta komið til framkvæmda að svo stöddu.

Jeg skal engum getum að því leiða, hvers vegna nefndin hefir snúist í móti frv. En ekki lægi þó fjarri að ætla, að það hefði verið af hræðslu við kjósendur. Get jeg og vel trúað því, að þessi lög verði ekki vinsæl meðal þeirra, er hafa sama eða svipaðan nirfilshugsunarhátt og allshn. hefir sýnt í þessu máli. Mun nefndin vafalaust hugsa, að þeir menn sjeu fleiri meðal kjósenda. En það hygg jeg ekki. En hvort sem það nú er meiri eða minni hluti kjósenda, sem nirfilshugann hefir, þá skiftir það ekki máli, því að þetta mál á alls ekki að leggja undir úrskurð kjósenda. Þm. eiga sjálfir að hafa hug og þrek til þess að hrinda slíkum málum í framkvæmd og bera ábyrgðina sjálfir, en ekki að vera að velta henni yfir á kjósendur. Ef þm. á annað borð eru sammála um það, að málið sje lífsspursmál, þá er það líka skylda þeirra að gera alt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að greiða fyrir því, og það hið bráðasta.

Jeg get ekki sest svo niður, að jeg láti ómótmælt samlíkingu tveggja frv. hjer í þinginu, kornvörufrv., sem felt var í Ed., og þessa frv. Jeg bjóst ekki við þeim ummælum frá stjórninni, sem hæstv. forsrh. (J. M.) ljet sjer um munn fara, að Ed. hefði farið hyggilega að ráði sínu, með því að drepa kornvörufrv. stjórnarinnar. Jeg er að vísu hæstv. forsrh. (J. M.) algerlega sammála um þetta, en jeg bjóst ekki við, að þessi skoðun kæmi af vörum stjórnarinnar. Því að ef það er hyggilegt af Ed. að drepa frv. þá hefir líka frv. verið óhyggilega samið og framborið af hæstv. stjórn. Það er og mín skoðun, að málið hefði átt að rannsakast betur, áður en það yrði lagt fyrir þingið. Dómur Ed. um kornvörufrv. var og sá, að málið væri fljótfærnislega framborið af hæstv. stjórn.

Um hitt frv., sem hjer liggur fyrir — berklaveikisfrv. — er alt öðru máli að gegna. Það er ekkert fljótfærnisverk, heldur fyrst framborið eftir langa og nákvæma rannsókn, af hæfum og sjerfróðum mönnum. Það er og ekki tekið upp af þingmönnum sjálfum, heldur af læknastjett landsins, því að fyrst er þetta mál inn í þingið komið eftir áskorun frá læknaþingi. Síðan eru nokkur ár. Alþingi skoraði á stjórnina að skipa nefnd í málið. Stjórnin varð við þeirri áskorun og skipaði milliþinganefnd þá, er málið hefir haft til meðferðar síðastliðið ár. Mun enginn geta annað sagt en að í þá nefnd hafi valist ágætir menn, er hafi leyst starf sitt mjög vel af hendi. En nú vill allshn., að þingið reki þetta frv. aftur og segi: Berum þetta undir sýslunefndirnar og hreppsnefndirnar, eins og kornvörueinokunina, og sjáum hvort þær geta ekki vísað á betri leiðir. En án þess jeg vilji á nokkurn hátt gera lítið úr hreppsnefndum eða sýslunefndum, þá get jeg þó ekki við því búist, að þær hafi betra vit á þessum málum en berklaveikisnefndin og læknarnir.