27.04.1921
Efri deild: 53. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

21. mál, afstaða foreldra til óskilgetinna barna

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get verið háttv. nefnd þakklátur fyrir meðferð hennar á þessu frv., og mjer er það mikið ánægjuefni, hve greiðlega afgreiðsla þess hefir gengið, þrátt fyrir mikil og margvísleg störf þessarar nefndar.

Jeg hefi sagt það, að þótt hin sifjafrv. sjeu mikilsverð, þá er þó þetta frv., sem jeg legg mesta áherslu á, því að þetta er hið mikilvægasta þeirra, og hefir mikla þjóðfjelagslega þýðingu.

Brtt. nefndarinnar eru allar þannig, að jeg geri þær ekki að deiluefni.

Brtt. háttv. nefndar við 1. gr. tel jeg eigi að öllu leyti heppilega. Það eru fleiri en háttv. nefnd, er hefir fundist ákvæði frv. hjer miður viðkunnanleg, en jeg verð þó að líta svo á, að rjettast hefði verið að halda greininni óbreyttri. Það er alveg hugsunarrjett og skýrt að hafa hjer neikvæð ákvæði, því að hugtakið skilgetin börn er alveg fast í löggjöfinni. — Það, sem jeg set mest út á orðalag hv. nefndar á 1. gr., er það, að undir skilgetin börn koma þar ekki skilgerð börn, en það er tilgangur frv.

Á hinn bóginn getur þetta ekki bagað neitt í framkvæmdinni, og vonandi ekki í lögskýringum.

Svo er 3. brtt. Hennar er ekki þörf, en hún gerir heldur ekkert til. Þá er 19. brtt. Það er, að orðin „með móðurforeldri eða móðursystkini“ falli niður. Þetta ákvæði háttv. nefndar kemur ekki alveg heim við þá hugsun frv., að öðru leyti, að veita föður óskilgetins barns yfirleitt sömu rjettindi gegn barninu sem móður þess, aðeins með þeim forrjetti, sem í því er veittur henni. Hjer er þessi forrjettur veittur móðurfrændum. En með því, að til þarf hjer að koma úrskurður stjórnarráðs, er ekki ástæða til að deila um þetta.