13.04.1921
Neðri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hafði ekki hugsað mjer að taka til máls við þessa umræðu; það kemur mest til fjármálaráðherrans kasta.

En það er út af umræðunum um eftirlaun Sigurðar Jónssonar, og helst út af seinustu ummælum háttv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.), að jeg vildi segja fáein orð. Jeg ætti að þekkja til þessa atriðis, sem hjer er sjerstaklega talað um, nefnilega eftirlaunamálið.

Það er alveg rjett, sem sagt hefir verið, að talsverður andblástur hefir verið hjer á landi gegn eftirlaunum, og þá sjerstaklega föstum, en jeg hygg, að allmikil breyting sje orðin á skoðunum manna alment á þessu máli.

Þegar það var úr lögum numið, að ráðherrar skyldu fá eftirlaun, þá var ekki ætlast til þess, að engir þeirra fengju þau, heldur að það kæmi til ákvörðunar þingsins í hvert skifti. Ef efnalitlir menn, sem verða að láta af stöðu sinni þess vegna, verða ráðherrar, verður þingið að sjá þeim fyrir eftirlaunum. Ef efnaðir menn eða menn, er geta komist aftur í stöðu sína, eða jafngóða stöðu og áður, þá er þeir hafa sagt af sjer ráðherraembætti, þá er engin ástæða til þess, að þeir njóti eftirlauna. Það er því á góðum rökum bygt að hafa ekki föst lögmælt eftirlaun, en að þingið hagi sjer hjer eftir ástæðum.

Mjer stóð svo á, að ráðherraskiftin urðu rjett undir lok síðasta þings, og því þingi var slitið af mikilli skyndingu. Ekki þó svo, að eigi ynnist tími til að fá yfirlýsingu mikils meiri hluta þingmanna um, að það væri vilji þeirra, að Sigurður Jónsson fengi eftirlaun.

Það kemur mjer því mjög á óvart, að nú skuli ráðist á þetta atriði. Og það því fremur, sem þessi aldraði heiðursmaður á þetta og skilið af öðrum ástæðum. Hann var þó nokkuð lengi ráðherra, en varð, er hann tók við embætti, að fara úr fyrri stöðu sinni, sem hann getur ekki sest í aftur með góðu móti, en auk þess er á það að líta, að hann hefir unnið langt og gott starf til þjóðnytja. Jeg bjóst ekki við því, að ráðist yrði á þetta, hvernig sem hv. þm. standa gagnvart núverandi stjórn að öðru leyti.