15.02.1921
Sameinað þing: 1. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (8)

Rannsókn kjörbréfa

Forsætisráðherra (J.M.):

Það er að eins eitt atriði kærunnar, sem snertir mig, eða þá deild stjórnarráðsins, sem hefir með alþingismálin að gera. Það er 1. liður kærunnar.

Bæði háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) og háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hafa talið það að minsta kosti óvíst, hvort löglegt hafi verið að láta dragast að kjósa mann í stað Sveins Björnssonar. Háttv. frsm. meiri hluta 1. kjörbrjefadeildar (S. St.) áleit það þó fullkomlega afsakanlegt, og virtist ekki viss um, að það væri ólöglegt. En jeg skildi háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) svo, að hann teldi það með öllu ólöglegt. En þeir skýrðu báðir dálítið rangt frá orðalagi þessarar lagagreinar. Því í 53. gr. kosningalaganna stendur ekki „svo fljótt sem henta þykir“, heldur þurfa þykir. Og það er alt annað. Það hlýtur að þýða það, að kjósa eigi svo fljótt, að maður geti mætt á þingi. Því fyr en á þingi hefir enginn nýkosinn þingmaður rjett.

Nú gat hugsast, að þyrfti að kalla saman þing fyr en 15. febrúar. En þá var altaf hægurinn hjá að kjósa einn þingmann hjer í Reykjavík, og engu spilt, þótt kosningin drægist. Það þurfti ekki lengri tíma til kosningarinnar í Reykjavík en til þess að kalla þingmenn annarsstaðar að til þings.

Þá kemur önnur ástæða, sem að vísu hefir ekki verið nefnd hjer í þinginu, en oft utan þings, en hún er sú, að sömu kjósendur, sem kusu fráfarandi þingmann, hefðu einnig átt að kjósa þann nýja, og skil jeg ekki vel, hvað meint er með því. Þá talaði háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) um eldri heimildir, og að þennan eina þingmann hefði átt að kjósa eftir sömu heimildum og giltu, þegar hinn fráfarandi var kosinn. Eins og breytt stjórnarskrá væri einhver alveg ný heimild. Nei, stjórnarskráin er og verður lifandi heild, og í aðalatriðunum hin sama, þótt nokkrar breytingar sje á henni gerðar. Jeg verð því að segja, að jeg skil ekki þá ástæðu.

En um hitt atriðið er það að segja, að ómögulegt er að vefengja það, að full heimild væri til að fresta kosningunni. Í lögum er alls ekkert því til fyrirstöðu. Og það var ekki einasta heimilt, það var líka í rauninni lögskylt. Því hvað er meint með hlutfallskosningu annað en það, að rjettur hlutanna, minsta og mesta hluta og miðhluta, komi sem best fram. Þingið var búið að segja það ótvírætt, að það vildi fá fram hlutföllin hjer í Reykjavík, og því betur koma þau fram, sem fleiri eru kosnir.

Jeg hefði getað haft tilhneigingu til að láta kosninguna fara fram á hinn veginn, eftir því sem mjer var flutt af einstökum mönnum í haust. Jeg ljet kosninguna á manni í stað hins fráfarna þingmanns bíða, af því að það var rjett, og það eitt rjett að rjettum lögum.

Svo er annað. Því hefir verið haldið fram, að lögin um þingmannakosning í Reykjavík hindri þetta. Það er satt, að í 11. gr. þeirra stendur, að ef um kosningu á einum þingmanni sje að ræða, þá skuli farið að sem í sjerstökum kjördæmum. En jeg hygg, að öllum þingmönnum sje það í minni, hvernig stóð á því, að þetta ákvæði var sett, að það var eingöngu af þeim misskilningi, að ekki væri hægt að kjósa einn þingmann listakosningu. En það er einber misskilningur, því engu síður er hægt að kjósa einn á þann hátt. En þegar skýra á lög, er ekki rjett að lesa bókstafinn eingöngu, heldur verður engu síður að fara eftir anda laganna, eða finna það, sem löggjöfin vill sagt hafa. Þessi ástæða gegn því að taka kosninguna gilda er því alveg rakalaus, eða verri en það, því það hefði verið beinlínis rangt að fara öðruvísi að. Það hefði mátt fóðra það, með bókstaf laganna, en þó, eftir þeim æðri lögum, rjettara að fara að á þann hátt, sem gert var.

Jeg hefði ekki látið þennan kærupóst koma fram. Það vill svo til að þetta er svo skýrt sem frekast má verða, og jeg hefði óskað þess, þingsins vegna, að önnur eins ástæða hefði ekki verið hjer fram borin.

Hin atriði kærunnar eru mjer óviðkomandi.