15.03.1922
Neðri deild: 23. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (1145)

30. mál, fjárhagsár ríkissjóðs

Frsm. (Jón Þorláksson):

Ummæli hæstv. fjrh. gefa mjer ekki neitt tilefni til svara. Hann viðurkendi nefnilega grundvallar-ástæðurnar fyrir þessu frv. og benti að eins á aðra leið til að ná því takmarki, sem frv. er ætlað, sem sje þá leið að færa þingtímann, Jeg er sammála honum um það, að óviðeigandi væri að breyta fjárhagsárinu nú, ef menn væru ekki sannfærðir um, að ekki þyrfti að breyta því aftur af nýju. Því tíðar breytingar í slíkum efnum eru mjög óheppilegar.

Út af þeim orðum háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að það væri hjer sem oftar, að hverjum þætti sinn fugl fagur, skal jeg láta þess getið, að mjer er það ekkert kappsmál, hvort farin verður sú leið, sem jeg hefi nú bent á, eða önnur. En mjer þótti þetta mál svo mikils vert, eftir reynsluná í fyrra, að jeg vildi gera það, sem unt væri, til að afstýra því, að svo haldi áfram. Það hefir verið bent á það, að með þessu verði fjáraukalög ekki útilokuð. Jeg skal játa, að svo er, enda er það ekki markmið frv. En hinu held jeg fram, að með þessu móti verður hægara að útiloka þau fjáraukalög, sem eru hættulegust fyrir ríkissjóðinn. Það þarf enginn að óttast þessar smærri óhjákvæmilegu fjárveitingar, sem stjórninni þykir sjálfsagt að gera upp á væntanlegt samþ. þingsins og teknar eru í fjáraukalög eftir á. Þær ríða ríkissjóði aldrei á slig. En hitt hlýtur að verða hættulegt fyrir ríkissjóðinn, þessar stærri fjárveitingar, sem núverandi afstaða fjárhagsársins við þingtímann gerir óhjákvæmilegar, og þessi yfirgripsmiklu fjáraukalög, sem þingið verður árlega að staðfesta, án þess að geta sett upp neina tekjuhlið til mótvægis.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) þykir það ókostur á frv., að af því leiði, að færa verði þingtímann nær skammdeginu, en hann færði engin rök fyrir sínu máli. Alt, sem hann sagði um það, var, að ókleift gæti orðið að komast á þing, ef þingtíminn yrði færður fram í janúar. Jeg býst við að öllum, sem nokkuð þekkja til Norðurlandsins, sje það kunnugt, að þetta er einmitt þveröfugt. Samkvæmt reynslunni er hverfandi lítil hætta á því, að ísrek tefji skipaferðir í janúarmánuði, en í febrúar þó nokkur. Ætti því sú breyting, sem frv. fer fram á í þessu efni, að eins að vera til bóta.

Jeg skal viðurkenna, að vilji menn taka upp haustþing, þá eru allar ástæður frv. gersamlega burtu fallnar. Að jeg í frv. stakk upp á þessari aðferð, stafar af því, að jeg bjóst við, að menn vildu halda áfram vetrarþingunum. Er það annars atriði, sem þeir þm., sem eru frá fjarlægari landshlutum; ættu að fá að ráða mestu um. En til þess að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) haldi ekki að mjer sje þetta neitt sjerstakt keppikefli, skal jeg geta þess, að jeg fyrir mitt leyti kysi heldur, að þing væri háð á haustin en á þeim tíma, sem nú er.

Þá er einnig annað atriði, sem nefndinni kom saman um, en það er, að eigi á annað borð að halda vetrarþingunum, þá muni óheppilegt að hafa þau svo seint. Það getur auðveldlega komið fyrir, að of áliðið verði orðið vorsins, þegar þingi slítur, fyrir margan þingmanninn utan Reykjavíkur. Getur það orðið miklum annmörkum bundið fyrir bændur að vera um þann tíma fjarri búum sínum, einkum ef harður vetur og vor leggjast að. Er vonlegt, að þeim verði órótt í brjósti, að sitja hjer fram í maímánuð; enda er ekki langt að minnast, að svo var.

Tel jeg því einnig af þessum rökum heppilegra að halda þing mánuði fyr en nú er gert.