11.03.1922
Neðri deild: 20. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í C-deild Alþingistíðinda. (1181)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Forsætisráðherra (S. E.):

Jeg benti á það í ræðu minni seinast, að eftir frv. þessu og ástæðunum fyrir því að dæma, gæti alls ekki verið þar um neinn sparnað að ræða. Síðan hafa komið fram raddir meðal flm. frv., sem benda í þá átt, að ekki beri að lesa ástæðurnar eins og þær eru orðaðar. Frv. verður ekki skilið öðruvísi en að ekki sje meining þess, að fje verði lagt fram úr ríkissjóði til barnaskóla í kaupstöðum. En nú vilja sumir flm., að þetta sje gert í kaupstöðum og kauptúnum, en ekki í sveitunum. Mjer skilst nú, að erfitt muni vera að gera þannig upp á milli sveita og kauptúna. Þess verður yfirleitt ekki dulist, hver ringulreið er á allri framsögu þessa frv. Kemur hún ljósast fram í því, að frsm. (B. J.) leggur ástæður frv. til grundvallar, en hinir flm. frv. alt aðrar ástæður.