13.03.1922
Neðri deild: 21. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í C-deild Alþingistíðinda. (1233)

46. mál, afnám kennaraembættis í hagnýtri sálarfræði

Bjarni Jónsson:

Yfirlit hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) var alveg rjett, svo langt sem það náði, en þar er ekki sagður allur sannleikurinn. Þess vegna verð jeg að bæta örlitlu við. Jeg vil þá fyrst geta þess, að nú er hægt að taka embættispróf í tveim greinum við deild þessa. En í upphafi var engum ætlað að taka þar próf, og því ekki von, að nemendafjöldi væri þar mikill. Síðar hefir svo verið samin reglugerð fyrir prófi í íslensku og einnig reglugerð um embættispróf í heimspeki.

Hitt er öllum ljóst, að þessi deild var stofnuð til þess að veita stúdentum fræðslu í íslenskum fræðum, og ekki að eins stúdentum, heldur öllum þeim, lærðum og ólærðum, er fræðast vildu um þessi efni. Og þessum aðaltilgangi hefir deildin einkum hugsað sjer að ná með fyrirlestrahaldi fyrir almenning. Bæði dr. Björn M. Ólsen og Sig. Nordal hjeldu fyrirlestra fyrir almenning, og nú heldur Sigurður Nordal afarfróðlega fyrirlestra um Völuspá.

Þetta er því aðaltilgangur deildarinnar, en auk þess hafa ýmsir kennarar þar það hlutverk á hendi að búa menn úr öðrum deildum undir embætti. Má þar nefna, að Guðm. Finnbogason hefir haft það verk á hendi að undirbúa nemendur lögfræðideildar í glæpamannasálarfræði, athugunarskekkju, minnisskekkju, framburðarskekkju o. fl.

Þar sem þessi deild hefir það ekki að aðalmarkmiði að unga út embættismönnum í þeim greinum, sem þar eru kendar, þá er síst að undra, þó ekki sje hún mannmörg að föstum nemendum. Einnig hafa erlendir stúdentar numið hjer við deildina stuttan tíma, og horfið síðan burtu aftur, og eins hefir verið um nokkra íslenska nemendur, að þeir hafa komið frá Khöfn og lært hjer, en hafa síðan farið utan til að ljúka námi og sumir hætt. Nemendatalan er því lág, af þessum ástæðum, sem þú hefi jeg nefnt, og einnig af því, að þetta eru námsgreinar, sem fáir lesa, enda ekki verið hægt að taka í þeim embættispróf hjer til skamms tíma, eins og jeg hefi áður drepið á.

Enn var eitt, sem hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) gleymdi í upptalningu sinni, og það er, að á mjer hvílir skylda að kenna miðaldalatínu. En sú kensla er ekki til þess að kenna mönnum að skrifa bækur á latínu, eins og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) vildi halda fram, heldur til þess að kenna mönnum að nota latnesk heimildarrit.

Það mun að nokkru leyti rjett, hvernig hv. þm. (J. Þ.) skýrði frá meiningarmun okkar hv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Það er rjett, að fyrirlestrar þessa manns (Guðm. Finnbogasonar) eru svo vel sóttir, að húsið rúmar ekki tilheyrendurna. En það er einnig rjett, að aðrir tímar hjá þessum manni eru líka sóttir af fleiri mönnum en þeim, sem nauðsyn rekur til. Einnig hafa til mín leitað til grískunáms aðrir en þeir, sem til þess voru skyldir að lögum. — Þetta eru vísindi vísindanna, sem G. F. kennir. Það er fjarri því, að hjer sje um að ræða nein matarvísindi sjerstaklega. Þessi vísindi þroska andann meira en flest önnur. — Þá sagði háttv. frsm. (S. St.) líka, að þessi maður ynni ekkert að því að undirbúa embættismenn. Það er undarlegt að heyra mann jafnan klifa á því, að enginn starfi við slíka stofnun, sje hann ekki „manuductör“ eða próftemjari. Það er svo sem engin furða, þótt till. komi fram frá þeim hv. þm., sem þannig líta á málið, um það að fá þessum mönnum einhvern aukastarfa. Kæmi mjer ekki á óvart, þótt einhver háttv. þm. stingi upp á því snjallræði að láta prófessorana við háskólann vera pósta líka. En þess er jeg fullviss, að meiri hluti þjóðarinnar vill, að þessir menn, sem við háskólann starfa, verði vísindamenn. Hafa sjerstaklega komið fram raddir um það víðsvegar af landinu, að mjög æskilegt væri, ef við gætum eignast góða vísindamenn í íslenskum fræðum og íslenskri lögfræði.

Þá vildi háttv. frsm. (S. St.) gera þennan slátursauð óvinsælan, með því að benda á, að hann hafi verið höfundur fræðslukerfisins, sem nú er, og tekist illa þar. Jeg vil nú benda háttv. þm. á það, að þessi maður þarf ekki endilega að vera góður að semja fræðslulög, þótt hann sje góður heimspekingur. Staðfestir þetta bara það, sem jeg hefi löngum sagt, að best fer á því, að hver maður fái að starfa á því sviði, sem hann hefir sjerstaklega undirbúið sig undir.

Þá sagði háttv. frsm. (S. St.), að þetta yrði að gera til að spara fje landsins. Fórust honum svo orð sem landið væri nú hálft í kafi í skuldafeninu, og myndi þegar sokkið, ef hann hjeldi ekki í hárið á því. — Ja, jeg gæti nú trúað því, að ef það frjettist út í lönd, að ekkert annað haldi nú landinu uppi en hinn sterki armleggur hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), þá muni það ekki eiga alllitlu lánstrausti að fagna. Er þjóðinni ekki ónýtt að eiga slíka ræðumenn hjer að, til að styrkja lánstraust sitt erlendis. Er jeg viss um það, að þótt annar háttv. þm. hafi í þeirri grein skarað fram úr þessum á síðasta þingi, þá verður hann nú viss með lárviðarsveiginn næst. Að svo fór síðast, var og ekki sökum þess, að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hafi minna látið um mælt en hinn, heldur af því, að ekki var eins tekið mark á orðum hans. Það hefir nú verið síðustu árin fult af þessu í hverri einustu ræðu, sem þessi háttv. þm. hefir haldið. — Í alvöru talað, verður tæplega annað sagt en að þessir menn spari ekki lánstraust landsins. Að minsta ekki er það áreiðanlegt, að svo lengi sem þeir eiga sæti á Alþingi, þá veit hver sá maður, sem spilla vill fyrir landinu erlendis, hvert hann á að snúa sjer.