18.02.1922
Neðri deild: 4. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í C-deild Alþingistíðinda. (1348)

8. mál, kennaraskóli

Forsætisráðherra (J. M.):

Háttv. þm. Dala. (B. J.) spyr, hvort ráðuneytið áliti þetta skipulag, sem hv. þm. (B. J.) heldur fram, betra en það, sem frv. byggist á. Hv. þm. (B. J.) er engan veginn einn um þessa skoðun sína; margir hafa haldið því fram á undan honum, að heppilegra mundi, að inntökuskilyrðin í sjerskólana væru ströng, en tíminn styttri. Hygg jeg að nefndinni muni engin þörf upplýsinga um þetta.

En víðast mun sú hafa orðið raunin á, að heppilegra hefir þótt, að sjerskólarnir tækju við kennaraefnum frá byrjun og legðu grundvöllinn að starfi þeirra, en nokkru dýrara mun það sennilega vera. Þó er að gæta þess, að nú eru allir gagnfræðaskólar landsins fullir, svo að ekki veitir af kennaraskólanum við hliðina á gagnfræðaskólum, að því leyti sem hann veitir kennaramentun. Það má byggja á því, að ekki mundi verulegur kostnaður verða við sjerstaka æfingadeild utan barnaskólans, því að hann er orðinn alt of lítill, og mundi þetta skipulag því ljetta á honum.

Aðalkostnaðaraukinn eftir frv. er lenging námstímans um 1 ár, og tók jeg það fram í frumræðu minni, að þar hefði jeg verið í nokkrum efa, hvort sú breyting ætti að komast á nú þegar.