25.03.1922
Neðri deild: 32. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (1381)

47. mál, myntlög

Bjarni Jónsson:

Jeg get ekki farið að þræta við hv. frsm. (J. A. J.) um það, hvort gróði sje að slá mynt. Jeg veit, að það er gróði, þótt mjer hafi láðst að taka með mjer tölur til þess að sýna það í krónutali.

Það var ekki tilgangur minn með frv. að skipa svo fyrir, að sláttuna skyldi þegar hefja. En frv. gefur stjórninni heimild til samninga. Og fyrsta skrefið til þeirra samninga er að spyrja um, hvort við megum ganga inn í myntsamband Norðurlanda með sömu kjörum og ríkin hafa, þau sem fyrir eru.

Jeg skil nú ekki, hví á að fresta þessu. Alt það, sem við það vinst, er kostnaður, og slíkt framferði sæti illa á sparnaðarþingi. Hvort sem stjórnin legði frv. fyrir næsta þing eða næstnæsta, þá mundi hún prenta þetta frv. óbreytt upp, því að það er nákvæmlega miðað við reglur og skilyrði myntsambandsins á Norðurlöndum, og það er ólíklegt að breytist, enda verða allir að breyta, ef breytt er, því að sama gengur yfir öll ríkin. Rjettast er því að láta þetta frv. ganga fram nú þegar; það sparar bæði tíma og prentunarkostnað.

Þó get jeg sætt mig við, að dagskráin verði samþykt, ef hæstv. landsstjórn vill lýsa yfir því, að hún muni hvort eð er hefja samninga um myntsambandið við Noreg og Svíþjóð, eins fljótt og föng verða á, og láta rjetta menn semja, þ. e. sendiherra Íslands, eða þá að hún geri það sjálf.