13.03.1922
Neðri deild: 21. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í C-deild Alþingistíðinda. (1396)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Forsætisráðherra (S. E.):

Ræða hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) gefur ekki ástæðu til langs svars. Jeg vil aðeins leiðrjétta, að það er ekki rjett, að jeg segði, að stjórnin gæti ekki tekið afstöðu til þessa máls, sökum þess, að hún hefði ekki enn kynt sjer fjárhag ríkissjóðs. En án þess er vel hægt að taka afstöðu til þessa máls, því þetta mál hefir svo ógnar lítil áhrif á fjárhaginn. En hitt sagði jeg, að stjórnin mundi ekki taka þátt í umr. um fjárhaginn, fyr en hún hefði kynt sjer hann og grafið sig niður í hann. Enn hefir mjer t. d. eigi gefist kostur á að sjá ýmsar mikilsverðar skýrslur, sem að fjárhagnum lúta, t. d. um hag landsverslunarinnar, sjóðina við áramót o. fl., því skýrslur um þetta hafa enn ekki komið fram í þinginu. Umræðurnar um fjárhaginn verða að byggjast á tölum, annars verða þær allar út í bláinn. Og hver vill í alvöru taka þátt í slíkum rakalausum umræðum?

En eins og jeg tók fram í fyrri ræðu minni, þá mun stjórnin kynna sjer þetta svo fljótt sem unt er. En annars held jeg, að jeg hafi sjeð eins langt fram í tímann í fjármálunum eins og háttv. þm. Þegar jeg var fjrh., varaði jeg þingið við fjáraustrinum og hinum mikla fjárlagahalla, og dró upp mynd af því, hvernig fjárhagurinn mundi líta út í framtíðinni, og ef hv. þm. (S. St.) vildi athuga þá mynd, þá mundi hún ekki verða svo fjarska ólík því, sem nú er orðið.

En svo að hinu sje vikið. Þótt stjórnin vilji gera alt, sem unt er, til að spara, þá getur hún ekki fallist á, að viðurkvæmilegt sje að kippa einstökum mönnum út úr embættum, fyrirvaralaust, og varpa þeim út á klakann. Og þó talað sje um styrk til þessa embættismanns, hvar er trygging fyrir því, að hann fái hann?

Ef ríki og kirkja væru aðskilin á þann hátt, að með prestana yrði farið eins og hv. þm. (S. St.) og hv. nefnd leggur til að farið sje með embættismann þann, sem hjer á hlut að máli, þá mætti með því móti spara miklar fjárhæðir. Það var sýnilegur byr á Alþingi fyrir nokkru fyrir því að skilja ríki og kirkju, Frv., sem fór í þá átt, að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um málið. fór í gegnum Nd., og munaði litlu, að það kæmist einnig í gegnum Ed. Þarna væri efni fyrir hina háttv. sparnaðarnefnd að slá einu feitu striki yfir alla prestastjett landsins, og kasta henni út á gaddinn; þá þyrfti ekki heldur neinn grískudócent. Það væri gaman að heyra hljóðið í hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), ef farið væri að fitja upp á þessu. Ætli honum fyndist þá ekki farið að nálgast hjartað? Hann vitnaði í það, hv. frsm. (S. St.), að jeg hefði sagt í stefnuskrárræðunni, að embættabákn þessa lands væri mikið og þyrfti að verða einfaldara og kostnaðarminna. Þetta er öldungis rjett. Í þessa átt fóru ummæli stjórnarinnar. En stjórnin tók einnig fram, að hún vildi ekki kasta embættismönnum, sem nú eru í embættum, út á klakann, að ósekju. Einhverja vernd verður þó embættisstjettin að hafa. Jeg álít, að loforð, sem Alþingi og stjórn gefa, verði að vera loforð, sem mönnum er óhætt að treysta á. Jeg vil ekki taka upp þá stjórnmálastefnu að brigða loforð, hvorki við embættismenn eða aðra, en það stappaði nærri því, ef þeim er fyrirvaralaust kastað út úr embættum, sem þeir hafa varið bestu árum æfi sinnar til að búa sig undir, svo þeir geti gegnt þeim samviskusamlega. Annars finst mjer það dálítið undarlegt, að sparnaðurinn skuli einmitt byrja á þessum manni, sem hjer er um að ræða; til þess geta ef til vill legið sjerstakar ástæður, sem jeg skal þó ekki ræða um.

Hv. frsm. (S. St.) vjek að því, að stjórnin hefði talað um, að hún ætlaði að efla og styrkja framleiðsluna, en kvaðst ekki búast við, að stjórnin hefði mikið fje handa á milli ef sparnaðartill. nefndarinnar yrðu ekki samþ. Jeg talaði nú ekki um það, að stjórnin byggist við að hafa mikið fje til að leggja í framleiðsluna, heldur mundi mikið komið undir landsmönnum sjálfum, svo og forsjóninni, eins og háttv. frsm. (S. St.) tók fram. En jeg sagði, að stjórnin mundi hafa opin augun fyrir því að hlynna að atvinnuvegunum og gat þess, að stjórnin mundi fara fram á fjárveitingu hjá Alþingi til þess að leita að nýjum mörkuðum fyrir afurðir vorar. Enn fremur gat jeg þess, að vjer mundum láta oss ant um, að vandaðar yrðu sem best vörur þær, sem vjer flyttum út, því jeg álít, að það sje hornsteinn allrar framleiðslu.

Jeg man nú ekki, að það sje fleira, sem jeg þarf að minnast á að þessu sinni, en jeg leyfi mjer að leggja á móti því, að þetta frv. nái fram að ganga.