04.04.1922
Neðri deild: 40. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í C-deild Alþingistíðinda. (1484)

29. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Bjarni Jónsson:

Jeg vil biðja háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) að muna það, að það er hann. sem nú ræður því, í hvaða tón er talað. Jeg hefi aldrei kastað að honum hálfu orði í þessum tón og mun væntanlega ekki gera það, — að fyrra bragði. En hitt má hann ekki ætla, eftir slíkt tilræði, að hann sleppi svo á brott, að maður nái ekki í taglið á honum.

Þessi háttv. þm. (J. Þ.) kvað síldarverin ekki mundu gera sýsluna stærri. Það eru undur mikil, að gamall vegamálastjóri skuli vera gæddur svo frábæru mannviti að geta uppgötvað það, að síldarver teygi ekki neitt úr skæklum landsins. Maður gæti alt að því ætlað slíkum vitring að skilja það, að þótt þau ekki megni þetta, þá hljóta þau samt, eftir því sem þeim fjölgar, að krefjast æ meiri lögreglustjórnar. Og innan fárra ára verða þau orðin svo mörg, fiskiverin á Ströndum, að það verður ofverk einum manni að hafa þá sýslu á hendi. Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) tók svo harðan sprett áðan, á sínum stríðalda mannvitsfák, að hann þeysti alveg óvart fram hjá þessu mikilvæga atriði.

Þá mun hann ekki heldur hafa haldið nægilega í við folann, þessi vegvísi maður, þegar hann var að tala um samgöngutækin á milli þessara sýslna. Hann kvað allan galdurinn í því fólginn að nota samgöngutæki þau, sem þar væru fyrir hendi, og sigla á skipum og bátum yfir flóann. Ja, „kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða“, og jeg veit ekki betur en að sami sje sjórinn þar og fyrrum, og sömu bátar og ferðir þar á milli eins ótryggar og altaf hefir verið, en yfir fjallgarðana ganga skipin ekki enn þá. Verkfræðingurinn á eftir að finna upp slík skip.

Þá þóttist háttv. þm. (J. Þ.) heldur slá í gandinn, þegar hann fór að tala um sýslumennina í sýslum þessum. Hann fór nokkrum háfleygum orðum um hlutverk þeirra í lífinu, og mátti á honum skilja, að aðalástæðan fyrir þessu frv. væri sú, að hækka þá í embættastiganum. En eftir því sem jeg veit best, þá sitja nú ungir menn í flestum sýslum landsins. Og með því að jeg get ekki sjeð fyrir, að neinn manndauði sje í námunda, þá á jeg ekki heldur von á því, að nokkurt þessara embætta losni svo bráðlega. Og væntanlega er það þó ekki ætlan þessa háttv. þm. (J. Þ.), að aðrir menn verði reknir upp úr betri embættum, til þess að koma þessum að.

Að því er snertir aðsetursstað sýslumannsins, þá er skakt að gera ráð fyrir, að sýslumaðurinn vilji endilega sitja í kaupstað, að minsta kosti ekki sá yngri, sem býr á jörð og kysi væntanlega að halda áfram að búa. Háttv. þm. hefði því mátt finna betri rök í því efni.

Þá greip gæðingurinn nokkur víxlspor, er hann var að vitna til umyrða minna um Dala- og Snæfellsnessýslu. Blandaði hann þar öllu saman, og eins því, er jeg sagði um Barðastrandarsýslu. Annars lagði jeg aðaláhersluna á það, að Alþingi bæri að forðast að gera þetta þvert ofan í vilja hjeraðanna. Þessar sýslur, sem hjer er um að ræða, eiga auðvitað sama tilkall til ríkissjóðsins sem aðrar sýslur landsins, því þær gjalda í hann að sínum hluta, eins og hinar. Ef þær nú kæra sig ekki um að spara þetta, þá virðist lítil ástæða til að þröngva þeim til þess. Að minsta kosti mætti láta svo lítið að spyrja þær um þetta. Það hefir ekki heldur hepnast þessum háttv. þm. (J. Þ.), nje sparnaðarmanninum úr Eyjafirði, að sýna fram á nokkra rökstudda ástæðu fyrir frv. þessu, og hafa ræður þeirra og rök verið fimbulfamb eitt.

Í lok skeiðsins mintist háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) með nokkrum orðum á einn vin sinn fyrir handan hafið. Tók hann í sama bili allur að skjálfa, eins og sá maður gerir jafnan, þegar hann verður fyrir mikilli andlegri áreynslu. Veit jeg ekki, hvort þetta var tilviljun ein, að hann líktist honum svo, eða eðlilegar afleiðingar sprettsins. Er mjer og sama hvort er, en á það vil jeg minna, að sá maður, sem mestu rjeð í nefndinni, er einmitt flokksmaður hans. Urðu líka auðsæ merki þess á starfsemi nefndarinnar. Allar sparnaðarráðagerðir hennar leiddu bara til þessarar till., um sameiningu Dala- og Strandasýslu, og er það bara heimastjórnarhefnd á Dalamönnum fyrir að hafa kosið mig á þing.