10.04.1922
Neðri deild: 45. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í C-deild Alþingistíðinda. (1629)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Jón Þorláksson:

Jeg ætla fyrst að minnast á gjaldeyrishöftin, sem frv. heimilar stjórninni að innleiða. Raunar er þetta nokkuð erfitt, því að enn þá er það mjög á huldu, hvað ætlast er til af flm. í þessu efni; verður því eingöngu að fara eftir orðum frv.

Frv. heimilar ríkisstjórninni að „hafa umsjón með“ erlendum gjaldeyri í eign landsmanna, og með gjaldeyri fyrir útfluttar afurðir, og „ef nauðsyn krefur að ráðstafa slíkum gjaldeyri“. Aðaltilgangur frv. er því sá, þótt undarlegt megi virðast, að heimila stjórninni að ráðstafa eignum einstakra manna. Er heimild, sem gengur í líka átt og þessi, venjulega nefnd eignarnám eða lögnám í lögum, en hjer eru önnur orð viðhöfð, svo tilætlunin hlýtur að vera sú, að hjer sje ekki um venjulega eignarnámsheimild að ræða. Það kom líka í ljós hjá hv. þm. Ak. (M. K.) og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að tilætlunin væri sú, að gera með þessu tilraun til þess að hindra gengislækkun íslensku krónunnar. Raunar hafa þeir ekki sagt þetta berum orðum, en hv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.) sagði, að það ætti að hamla því, að milliliðir gerðu gengismuninn að gróðavegi fyrir sig, en alt er þetta í raun og veru umskrifanir fyrir það, að haldið verði áfram því, sem bankarnir voru að reyna síðastliðið sumar, að taka gjaldeyrinn af framleiðendum fyrir lægra verð en þeir geta fengið fyrir hann annarsstaðar.

Vildi jeg nú athuga, hverjar afleiðingar slík heimild mundi hafa fyrir verslun landsmanna með útflutningsvörur, og hvort hún mundi líkleg til þess að beina hinum útlenda gjaldeyri í þann farveg, sem eðlilegastur er talinn, en það er að hann renni í gegnum bankana, og frá þeim aftur til vörukaupa og skuldagreiðslu erlendis. Fyrst er þá að athuga það, sem frv.-orðin sjálf benda til, að þessi og önnur lagaboð íslensk geta vitanlega ekki náð til annars erlends gjaldeyris en þess, sem á hverjum tíma er í eign íslenskra manna eða útlendinga hjer búsettra, og að því er þá síðastnefndu snertir, þá einungis til þess erlends gjaldeyris, sem þeir eiga hjer á landi. Aftur á móti getur löggjöfin alls ekki náð til þess gjaldeyris, sem útlendingar eiga eða eignast erlendis, jafnvel þótt þeir hafi eignast hann fyrir íslenskar vörur. En hvaða afleiðingar hefir það nú, ef haldið er áfram þeim tilraunum, sem bankarnir gerðu sig seka um síðastliðið sumar, að reyna að ná andvirði útfluttu vörunnar, erlenda gjaldeyrinum, fyrir lægra verð en eigendur mundu geta fengið fyrir hann á frjálsum markaði, og að neyða þá til þess að verja honum á annan hátt en þeir telja sjer hagkvæmastan?

Fyrsta afleiðingin hlýtur að verða sú, að framleiðendur reyni að búa svo um, að þeir komist undan högginu, reyni að komast undan ákvæðunum. Beina leiðin fyrir útflytjendur til þess er sú, að selja afurðirnar í íslenskum krónum. Þá verða þeir frjálsir að því að nota andvirðið eins og þeim sýnist, og með því móti geta þeir líka fengið hærra verð fyrir vöruna en þeir gætu fengið á annan hátt.

Því er raunar slegið fram, að ekki sje víst, að heimildin verði nokkru sinni notuð, en þetta er líkt því, sem maður segði við hest, um leið og hann væri búinn að reiða upp svipuna til höggs: Þú þarft ekki að forða þjer strax, ekki fyr en höggið ríður af. — Menn bíða ekki eftir högginu, heldur forða sjer í tíma. Annars er lærdómsríkt að athuga aðferð annara þjóða í þessum efnum. Tveimur ríkjum hefir þótt nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að ná í hendur stjórnarinnar gjaldeyrinum fyrir útfluttar afurðir; þessi ríki eru Rússland og Þýskaland. Í Rússlandi tók stjórnin í sínar hendur einkasölu á öllum útfluttum vörum, en í Þýskalandi var bannað að selja útfluttu vörurnar gegn innlendum gjaldeyri. Með slíkum ráðstöfunum er auðvitað hægt að ná gjaldeyrinum í hendur stjórnarvalda landsins, en það fylgir sá böggul skammrifi, að gengið á sjer ekki viðreisnarvon eftir að svona ráðstöfunum hefir verið beitt, enda ekki beitt annarsstaðar en þar, sem vonlaust er um gengið. Vill nú auðvitað enginn líta við þýskum mörkum, eftir að ekki er lengur unt að fá þýskar vörur fyrir þau.

Jeg hefi viljað nefna þetta, því að ekki sýnist örgrant um, að sú hugsun hafi gægst fram, sem gengur í líka átt og þessa, þó að ekki sjáist á frv., að því sje ætlað að ganga svona langt.

Það þarf engum getum að leiða að því, hvaða áhrif þetta hafi á framleiðslu og atvinnuvegi landsins, að menn eigi slíka stjórnarheimild yfir höfði sjer. Það myndi verða til þess að gera atvinnurekendur hrædda og hikandi, en það er lífsskilyrðið nú eins og ávalt, að þeir menn reyni að færa út kvíarnar, eftir því, sem þeir sjá sjer fært og aukning getur borið sig. Hæstv. fjrh. (Magn. J.) gat þess hjer á dögunum, að þær þjóðir, sem ekki væru komnar svo langt að vera búnar að missa alla von um að rjetta við gengið, vildu umframt alt rjetta það til móts við gullverð. Jeg er sammála hæstv. ráðherra (Magn. J.) um það, að oss beri líka að reyna þetta, en til þess að það geti hepnast verðum vjer að varast öll höft og ráðstafanir, sem myndu verka í gagnstæða átt.

Þá verð jeg að minnast ofurlítið á innflutningshöftin. Jeg hefði helst kosið að sleppa við það, en get nú ekki leitt það hjá mjer, sökum umyrða, sem fallið hafa, um afstöðu síðasta þings til þessa máls.

Frv. það, sem hjer er um að ræða, fer fram á aukna heimild fyrir landsstjórnina til að leggja á innflutningshöft. Hvort sem þeim hv. þdm., sem lítið virðast þekkja til viðskiftanna hjer, kann að þykja það ótrúlegt eða eigi, þá er það nú staðreynd, að tal það um innflutningshöft, sem nú er orðið, hefir þegar haft allmikil áhrif á framkvæmdir ýmissa kaupsýslumanna hjer í bænum. Er mjer t. d. kunnugt um, að eitt firma hjer, sem verslar með þennan varning, sem nú er verið að ræða um að banna innflutning á, símaði nýlega út og bað um að senda sjer vörur svo skifti hundruðum þúsunda króna virði. Eru þessar vörur að vísu ekki óþarfar, en heldur ekki nauðsynlegar nú sem stendur, og hefðu heldur alls ekki verið pantaðar nú, ef talið um yfirvofandi innflutningsbann hefði ekki vakið kauplöngun firmans. Aðferðin hjer er líka rammskökk. Fyrst tala menn lengi um þetta og gefa mönnum þannig tækifæri til að búa sig undir breytingarnar og birgja sig upp að vörum. Afleiðingin verður þannig gagnstæð við það, sem ætlað er. Nei, ef þetta á að gera á annað borð, þá ríður á því að tala fátt, en framkvæma fljótt. Og það stoðar ekkert, þó að gefin sje heimild til að gera þetta einhvern tíma í framtíðinni. Það yrði að smella höftunum sjálfum strax á, ef duga skyldi. Það á sama við hjer og um hækkun tolla á vörum. Til þess að ná tilganginum verður að afgreiða það í flýti og fyrirvaralaust.

Þá langar mig til að athuga lítið eitt, hvað í þessu frv. er nýmæli. Í því efni get jeg ekki orðið samþykkur háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.). Jeg get ekki fallist á það, að efni þessa frv. sje það sama og í núgildandi lögum um þetta efni. Hjer er því bætt við, að stjórninni skuli heimilað að banna innflutning á nauðsynjavörum. Að vísu mætti segja, að þetta væri heimilað með núgildandi lögum, ef ekki hefði verið girt fyrir þann skilning þeirra á síðasta þingi. Það var einmitt þetta, sem síðasta þing gerði, að taka úr höndum stjórnarinnar heimildina til að hefta innflutning á nauðsynjavöru. Var það og ekki að óþörfu gert, heldur hafði þingið til þess góðar og gildar ástæður. Þessar ástæður gilda enn þá, og skal jeg nefna þær helstu.

Fyrsta ástæðan er sú, að reynslan var búin að sýna, að höftin höfðu í för með sjer verðhækkun á nauðsynjavöru. Liggja fyrir skýrslur, bæði frá Verslunarráði Íslands og Sambandi íslenskra samvinnufjelaga, um það, að vörur þessar voru þá í miklu hærra verði en þær hefðu þurft að vera, ef innflutningur hefði verið frjáls. Enda kom það fljótt í ljós, þegar losað var um höftin, að vörurnar lækkuðu í verði. Það er engin tilviljun þetta, heldur er það algilt viðskiftalögmál, sem hjer er um að ræða.

Önnur ástæðan er sú, að það verður enginn gjaldeyrissparnaður að því að hefta innflutning á nauðsynjavöru, nema þá því aðeins, að um leið sje gripið til þess að skamta mönnum vöruna. Því hvaða stjórn neitar um innflutning á nauðsynjavöru, ef hún er þrotin? Með skömtuninni myndi aftur seðlafarganið fylgja, með öllum sínum töfum og tilkostnaði. Jeg á auk þess bágt með að skilja, hverju máli það skiftir, þótt birgðir af nauðsynjavörum, til tveggja mánaða eða svo, liggi í landinu. Þær birgðir eru ekki meiri en svo, að bara má telja þær til bóta og öryggis, ef eitthvað kæmi fyrir, sem tepti aðflutning frá útlöndum um tíma. Nei, jeg tel það rakalaust með öllu, að innflutningshöft á nauðsynjavörum geti áorkað gjaldeyrissparnaði.

Auk þess er hætta á því, að þegar farið væri að beita þessu, þá gæti svo farið, að stjórnin reyndist ekki nægilega alvís til að sjá fyrir allar hættur og möguleika.

Hæstv. atvrh. (Kl. J.) og háttv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.) mintust áðan á hafísinn. Er það máske heppileg ráðstöfun gegn honum að hefta innflutning á nauðsynjavörum? Jeg hefi aldrei heyrt talað um, að hættum þeim, sem hafísnum eru samfara, yrði afstýrt með því móti. Jeg skal raunar játa, að þetta gæti orðið, ef aðeins er talað um höftin, en ekkert lögleitt, og þannig ýtt undir kaupmenn að birgja sig upp. En á annan hátt yrði það ekki.

Nú er vitanlegt, að ef innflutningshöft kæmust á allar vörur, þá yrði að setja nefnd á stofn, eins og síðast, með þeim óheyrilega kostnaði fyrir ríkissjóðinn og alla, sem viðskifti reka. Þá yrðu menn aftur að sækja um leyfi fyrir hvern vöruslatta og þola þær tafir og óþægindi, sem því eru samfara. Það var einmitt þetta óþolandi pappírsflóð, sem gerði þetta fyrirkomulag óvinsælast síðast. Á jeg líka bágt með að finna nokkra ástæðu til að byrja á því fargani að nýju. Kemur mjer dálítið á óvart, ef hæstv. stjórn fer nú fram á það að fá heimild til þessa. Því jeg var svo frægur að vinna með hæstv. forsrh. (S. E.) í þeirri nefnd, sem átti að fjalla um þetta á síðasta þingi, og man jeg, að hann var þá allra manna ákveðnastur í því, að sjálfsagt væri að ljetta innflutningshöftunum af nauðsynjavörum. Býst jeg við, að hann sje enn þá sama sinnis í þessu efni.

Það hefir annars glatt mig að heyra það, að þeir háttv. þm., sem hafa talað fyrir þessu frv., hafa eingöngu miðað orð sín við innflutningshöft á óþarfavöru. Þeir virðast ekki hafa athugað það nægilega, að fyrir því er einmitt fullkomin heimild í núgildandi lögum. Það er ekki rjett ályktað hjá hv. þm. S.-Þ. (Ing. B.), að ef stjórnin hefði hert á höftunum, þá mundi ástandið vera betra en nú. Jeg álít einmitt, að það hafi verið um síðustu forvöð að ræða að ljetta þeim af. Framleiðendur gátu ekki orðið risið undir dýrtíð þeirri, sem þau gerðu sitt til að auka, og á ýmsan annan hátt urðu þau til að lama framtakssemi þeirra.

Þá vil jeg minnast á annað atriði, sem sami hv. þm. (Ing. B.) talaði um, en það var, að flestir íslenskir framleiðendur hefðu haft tap árið 1921, og því gæti það ekki rjett verið, að það ár hefði verið borgað mikið af erlendum skuldum. Og háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. O.) tók í sama strenginn og kvað þjóðinni nú vera að blæða til ólífis. Þetta getur þó vel átt sjer stað, að allur þorri framleiðenda hafi tapað árið 1921, en samt borgað nokkuð af erlendum skuldum. Það má ekki gleyma því, að opinber gjöld til landssjóðs og sveitarsjóða eru nú orðin svo afarþung, að þeirra vegna getur vel orðið tap á atvinnurekstrinum, þótt meira sje framleitt en það, sem þarf til að borga fyrir aðfluttar vörur.

Þá kemur hjer enn nýtt atriði til greina. Ef slík höft, sem hjer er um að ræða, reyndust „effektiv“, þá myndi það rýra svo tekjur ríkissjóðsins, að þótt vel horfi fyrir, þá gæti árið vel endað með halla. Þetta er alvarlegt atriði, og ber að athuga, hvort hjer væri ekki stefnt í ófæru. Gæti afleiðingin vel orðið sú, að enn yrði að þyngja á atvinnuvegunum og láta þá borga þann halla. Það er sagt, að þjóðin óski eftir hjálp laganna til að spara. En jeg held, að hún óski fyrst og fremst eftir því, að fá að halda því, sem hún aflar, en þurfa ekki að greiða 1/3 af því í ríkissjóðinn eða aðra sjóði.

Það er annars eftirtektarvert, að þótt sumir háttv. þm. leggi kapp á að koma fram frv., þá gefa þeir þó altaf í öðru orðinu í skyn, að það sje ekki meiningin að nota þessa heimild fyrst um sinn, eða á meðan ástandið er eins og nú. Jeg verð nú að segja það, að jeg læt mjer ekki einu sinni detta í hug. að stjórnin noti þessa heimild nokkurn tíma. En að því er snertir innflutning á óþarfavöru, þá hefi jeg heyrt hæstv. atvrh. (Kl. J.) lýsa yfir því, að þessi höft, sem nú eru, væru gagnslaus til gjaldeyrissparnaðar. Tók hann því fjarri, að stjórnin myndi nota þá heimild, sem hún hefir í því efni, til að hefta innflutning á tóbaki. Hefi jeg ekkert við það að athuga, en skil þó ekki, til hvers slík höft eru, fyrst þau eru ekki notuð á þann óþarfa, sem helst munar um. En hvað sem um þetta er annars að segja, þá er víst um það að ekki þarf að greiða atkv. með þessu frv. til þess, að næg heimild sje fyrir hendi til að hefta innflutning á óþarfavöru, þótt reynt hafi verið að láta líta svo út, að hjer sje aðallega um það að ræða. Það er því ekki um þetta, sem jeg greiði hjer atkv., heldur um þau nýmæli, sem frv. flytur, um heimild til að hefta innflutning á nauðsynjavöru, og um heimild til gjaldeyrishafta, og báðum þeim nýmælum er jeg mótfallinn.