11.04.1922
Neðri deild: 46. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í C-deild Alþingistíðinda. (1635)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Frsm. minni hl. (Sveinn Ólafsson):

Jeg vil fara að ráðum hæstv. atvrh. (Kl. J.) sem óskaði eftir því, að umr. um þetta mál yrðu ekki teygðar að óþörfu; enda er það ekki holt fyrir mál, sem er svo mikilsvert sem þetta, að farið sje út fyrir eðlileg takmörk þess og því drepið á dreif. Jeg vil líka fúslega kannast við það, að hv. þdm. hafa fylgt þeirri reglu í þessum umr. að orðlengja ekki mikið, og ef undantekningar eru frá því, þá munu þær helst snerta okkur nágrannana hjerna á horninu.

Jeg þykist mega ráða það af öllum veðurmerkjum, að hugir hv. þdm. sjeu smám saman að þokast nær hugmynd þeirri, sem bak við þetta frv. liggur, og þykir mjer vænt um það. Hitt er mjög eðlilegt, að fyrirkomulagsatriðin valdi nokkrum ágreiningi. Frv. kom fyrirvaralítið inn í deildina, og er því eðlilegt, að menn þurfi nokkurn tíma til að átta sig á því. Tveir hv. þm. hafa að vísu tekið illa upp aðferðina, en þó hefir það komið í ljós í ræðum þeirra, að þeir eru hugmyndinni hlyntir. Það eru þá einkum fyrirkomulagsatriðin, sem eru þyrnar í augum þeirra. Að hugir hv. þm. sjeu smám saman að þokast í áttina til frv. sýna brtt. þær, sem fram eru komnar við það. Að vísu er jeg ekki alls kostar ánægður með þær, en verð þó að líta á þær sem skynsamlega tilraun til málamiðlunar. Jeg ætla annars ekki að fjölyrða neitt um málið að þessu sinni, og síst af öllu að kljást við sessunaut minn (M J.). Aðeins vil jeg leyfa mjer að benda á það, að hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) virtist hafa misskilið þau ákvæði frv., sem ræða um eftirlit með gjaldeyrinum. Hann lítur svo á, sem hjer sje um það að ræða að svifta menn yfirráðum yfir fje sínu og fara lögnámsleiðina. Eins og hæstv. fjrh. (Magn. J.) hefir nú tekið fram, þá er það ekki hugsunin, nema þá í ítrustu nauðsyn. Annars tel jeg rjett að aftra því, að þeir, sem útlendan gjaldeyri eiga, noti áhrif sín til að fella íslensku krónuna í verði með honum. Að öðru leyti get jeg ekki betur sjeð en að hv. þm. geti fallist á innflutningshöftin, ef skýrt kæmi aðeins fram, um hvaða höft sje hjer að ræða eða hve víðtæk.

Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) þarf jeg ekki að svara frekar en jeg hefi gert. Jeg hefi altaf vænst þess, að hann að lokum myndi fylgja þessu frv., er það væri komið í það horf, sem honum væri geðfelt, en það virðist ekki gott að gera honum þar til hæfis. Hann hefir sjerstaklega á móti ráðstöfun gjaldeyrisins, en óbeit hans á þeirri ráðstöfun ætti að hverfa við skýringu þá, sem hæstv. fjrh. (Magn. J.) gaf.

Mjer er það vel skiljanlegt, að frá sjónarmiði andstæðinga frv. sjeu ákvæðin um gjaldeyrinn hættulegri en höftin sjálf. — Jeg skal annars ekki tefja tímann með því að fara út í það frekar, en verð nú, fyrir síðasakir, að lúka máli mínu með nokkrum orðum til hv. sessunauts míns (M. J.). Hann áleit, að eftir fyrri ræðu mína þyrfti ekki að rökræða málið við mig, og hefði jeg í stað raka ráðist á hann. Jeg veit ekki betur en að það væri hann, sem byrjaði að tala án raka í þessu máli, og mældi jeg honum aðeins í sama mæli og hann hafði mælt mjer. Þykir mjer undarlegt, að hann skuli ekki muna það, að það var hann, sem vakti þessa deilu og rjeðst á mig þegar eftir framsöguræðu mína. Geri jeg þó ráð fyrir, að þetta stafi frekar af minnisleysi en af hinu, að hann fari vísvitandi með rangt mál.

Um ræðu hans er annars það að segja, að hún var einn óslitinn loddaraleikur, til þess gerður að reyna að skemta þeim „háttvirtu“ á áheyrendapöllunum. Hv. þm. (M. J.) uppskar líka tvo hlátra fyrir sitt erfiði, en heldur hygg jeg það magra uppskeru, því jeg hygg, að hjer hafi ræst málshátturinn: „Löngum hlær lítið vit.“ Annars fór hv. þm. (M. J.) ekki sjerlega óvilhalt í sakirnar. Hann bútaði í sundur ræðu mína og sneri út úr henni, setti fram setningar í öfugum samböndum, og reyndi svo að finna höggstað á þeim vanskapningum. sem hann var þar búinn að búa til. Er ekki undarlegt, þótt með þessu móti sje hægt að fá skringilegar niðurstöður til að skemta með hláturmildum mönnum og heimskum. Verði þeim gott af, er á hlýddu, og sakar ekki, þótt kjósendur þessa hv. þm. (M. J.) fái að sjá, hvernig umhorfs er í hans „andlega fjósi“, og hversu fimlega honum farast fjósaverkin. Í alvöru talað verð jeg annars að segja, að mjer fanst þessi ræða hans tæplega samboðin slíku prúðmenni, enda var hún fyrir neðan alla „kritik“.

Eitt atriði í ræðu hans snerti þó málið, og vil jeg svara því. Hann vildi nefnilega rengja það, sem jeg hafði sagt um föllnu skuldirnar, og vill hann fullyrða, að þær sjeu yfir 2 miljónir króna. Jeg hygg nú, að það megi með alt eins góðum líkum segja, að ekkert af þeim skuldum, sem hjer er um að ræða, sjeu týndar skuldir, heldur rjettkræfar. Honum fanst jeg líka sekur um goðgá, þar sem jeg leyfði mjer að vefengja opinberar skýrslur hagstofunnar. Það er lítil ástæða fyrir hv. þm. (M. J.) að reyna að vefja málið á þennan hátt. Hjer er ekki um það að ræða, að vefengdar sjeu skýrslur hagstofunnar, heldur það sem meiri hl. nefndarinnar hefir hnýtt aftan við þær. Er þetta svo augljós blekkingartilraun, að furðu gegnir, að nokkur skuli hafa einurð til að bera hana fram, og sýnir hún, hve ófeiminn þessi hv. þm. (M. J.) er, þegar hann ætlar að „hrista úr klaufunum“, eins og hann kveður svo spaklega að orði.

Hann hjelt því fram, hv. þm. (M. J.), að samkepnin væri eini hemillinn á kaupmönnum, sem dygði, og sjálfsagt væri því að láta hana leika lausum hala. Þetta er maður nú búinn að heyra aftur og aftur á stríðsárunum. Og þegar jafnvel við lá, að sulturinn yrði landlægur hjer, þá var þessu einna mest hampað. En það vildi nú samt svo heppilega til, að þau lokaráð urðu ekki upp tekin að fá henni einveldið, og fyrir það tókst nokkurn veginn að ráða bót á neyðinni, sem yfir vofði þá, og víkja frá þessari blekkingarkenningu. Kenningin er líka hættulegt vopn, sem enginn maður með óskertri ábyrgðartilfinningu ætti að leyfa sjer að beita. Vopn, sem að vísu sakar lítið, þegar öll viðskifti eru komin í lag, en verður banvænt, ef í harðbakka slær, og erfiðir tímar steðja að.

Skal jeg svo ekki tefja tímann frekar.