11.04.1922
Neðri deild: 46. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í C-deild Alþingistíðinda. (1638)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Ingólfur Bjarnarson:

Jeg skal ekki eyða tímanum í að þræta um óveruleg atriði, svo sem skilninginn á nál. hv. meiri hl. En jeg vil halda því fast fram, að jeg hafi haft ástæðu til að leggja þann skilning, sem jeg gerði, 1 ummæli nál., að þar væri kannast við rjettmæti innflutningshafta, enda hafa sumir hlutaðeigendur viðurkent það. Skal jeg aðeins skjóta þessu skilningsatriði undir dóm hv. deildarmanna.

Einnig vil jeg geta þess, að orðin, sem jeg tilfærði úr nál., að eftir rjettri hugsun ættu þeir, sem voru á móti höftunum í fyrra, að vera á móti þeim nú, eru rjett eftir höfð, en auðvitað lagði jeg ekkert upp úr þessum ummælum, og því þýðingarlaust að þrátta um þau.

Þá kem jeg að aðalatriðinu, en það er útreikningur hv. meiri hl. um, hve miklar afborganir hafi orðið á árinu.

Jeg þakka hv. frsm. meiri hl. (M. J.) fyrir skýrslu hans, sem sannaði alt annað en að athugasemd mín væri ónákvæm eða villandi. Hann sagði, að óseldar afurðir við síðustu árslok hefðu verið dregnar frá, til samræmis, af því að fyrri skuldauppgerð væri miðuð við marsmánuð. Látum svo vera. En þá hefir fallið úr ekki ómerkur liður, sem sje úttektin frá janúar fram í mars, eigi samanburðurinn á annað borð að vera í samræmi við ástandið á sama tíma í fyrra. Jeg veit ekki, hvað hún muni nema miklu nú, en á 1. ársfjórðungi í fyrra nam hún á 7. milj. kr. Líklega er hún nokkru minni nú en á þennan tíma falla þó að sjálfsögðu innkaup mikil til útgerðarinnar, kol, salt og olía; og hlýtur því þarna að koma til greina upphæð, sem ekki getur verið minni en jeg áætlaði í fyrri ræðu minni, eða um 4 milj. kr.

Annars tel jeg, að það hljóti að vera ljóst, að ekki geti annað komið til mála en byggja verði á þeim tímamótum, er skuldirnar voru teknar upp á, og sömu aðferðinni verði að beita, nefnilega draga óseldar innlendar vörur frá skuldunum í hvorttveggja skiftið, eða hvorugt. Og þá líka jafnaugljóst, að meiri hl. hefir í áliti sínu oftalið skuldaafborganir um 4 miljónir, þar sem hann hefir dregið þá upphæð frá skuldunum í árslok fyrir óseldar afurðir, en ekkert dregið frá í ársbyrjun fyrir óseldum afurðum, sem þó hafa sjálfsagt verið eins miklar, enda ekki á móti því mælt.

Þá vil jeg til upplýsingar benda á, að við árslokin hafa verið stórum minni útlendar vörubirgðir í landinu en við ársbyrjun. Sú skuldaminkun, sem fram er komin við útlönd á árinu, með því að ganga þannig á vöruforðann, hún tilheyrir í raun rjettri varla þessu ári. Þetta vildi jeg taka fram til að sýna, að samanburðurinn verður af þessum sökum villandi.

Um enska lánið fanst mjer, að við hv. frsm. meiri hl. (M. J.) mundum vera nokkurn veginn sammála. Jeg sagði, að ekki væri talið nema um 6 miljónir kr. í skuldauppgerðinni af enska láninu í greinargerð hv. meiri hl., en þjóðin hefði komist í 10 milj. kr. skuld, og ætti það alt að teljast, ef sjá ætti, hvort skuldir þjóðarinnar hefðu aukist eða minkað á tímabilinu.

Þá sagði hv. frsm. meiri hl. (M. J.), að þjóðin gæti minkað skuldir sínar út á við, þótt atvinnurekendur biðu halla við reksturinn, og hið sama var háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) einnig búinn að taka fram. Jeg játa, að þetta geti verið rjett, og hefi aldrei haldið því gagnstæða fram. Aðeins álít jeg, að þegar tapið á framleiðslunni hefði verið jafnmikið og alment og í fyrra, gæti naumast verið að ræða um miklar afborganir út á við.

Mjer virtist hv. frsm. meiri hl. (M. J.) vilja halda fram þeirri skoðun, að hagfræðislega sjeð væri hollara að bera sig borginmannlegar en ástandið gæfi rjett til og reyna að villa öðrum sýn um, hvernig hagurinn væri. Þetta er kenning, sem vitanlega sumir hallast að og hegða sjer eftir; en jeg hjelt, að hún yrði naumast flutt á þingi þjóðarinnar sem heilsusamleg eða viðeigandi. Held jeg og, að hollara sje að kannast við hið raunverulega ástand, bæði fyrir sjálfum sjer og öðrum, og gera þær ráðstafanir til að lagfæra það, sem tiltækilegar kunna að þykja.