21.04.1922
Sameinað þing: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í D-deild Alþingistíðinda. (1751)

61. mál, breyting á hæstaréttarlögum

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Þetta er nú seinasti áfanginn á krossferli sparnaðarnefndarinnar. Verð jeg, sem frsm. nefndarinnar, að taka þennan síðasta kross á herðar mjer. Segi jeg ekki kross frá mínu eigin sjónarmiði, heldur ýmsra annara hv. þm.

Þessi till., sem nú liggur fyrir, fer fram á þetta tvent aðallega, í fyrsta lagi, að stjórnin leggi fyrir næsta Alþingi frv. til laga um að fækka dómendunum í hæstarjetti um tvo, og í öðru lagi, að málaflutningur við hæstarjett verði skriflegur og hæstarjettarritaraembættið lagt niður.

Jeg get nú sparað langa ræðu með því að vísa til greinargerðar tillögunnar. Sumum þykir það æði hvatvíslegt af sparnaðarnefndinni að koma fram með slíka till., þar eð svo stutt sje síðan hæstirjettur var fluttur inn í landið og lög um hann samin. Þar til get jeg svarað því, að jeg var aldrei hrifinn af hinum mikla flýti og flaustursverki við að breyta dómaskipun landsins, nje heldur hrifinn af þeim lögum, sem um hæstarjett voru samin. Veit jeg, að svo var og um marga fleiri. Finst mjer því alls ekki ótilhlýðilegt að koma með þessa till. nú, þótt skamt sje um liðið.

Þangað til þessi breyting var gerð á dómaskipun landsins er kunnugt, að þrír voru dómstólar. Með breytingunni urðu dómstólarnir aðeins tveir, en jafnframt var dómurunum í æðri rjettinum fjölgað um tvo.

Aðalmótmælin gegn því að fækka dómendunum í hæstarjetti úr 5 niður í 3 eru þau, að tryggingin fyrir rjettlátum dómum minki. Á það skal jeg að vísu ekki brigður bera. En jeg vil þá vekja athygli hv. þm. á því, að meðan yfirrjetturinn stóð bar aldrei á neinni óánægju hjá þjóðinni út af því, að í honum voru aðeins þrír dómendur. Og fanst engum tryggingin vera þar of lítil fyrir því, að menn fengju rjettláta dóma dæmda. Lítandi til þessarar reynslu er mjög líklegt, að enda þótt dómendum yrði fækkað, þá mundi tryggingin samt sem áður verða góð fyrir því að fá rjettláta dóma. Mundi vafalaust lítið brydda á óánægju því viðvíkjandi.

En það er ómótmælanlegt, að hæstarjettarlögin eru mesta flaustursverk og þurfa því nánari rannsóknar og yfirvegunar. Hefi jeg átt tal um þau við lögfræðinga, sem fyllilega viðurkenna það.

Um hið fyrsta atriðið þarf jeg svo ekki fleira að taka fram.

Þá fer nefndin fram á þá breytingu, að munnleg málafærsla verði lögð niður og horfið verði til fornrar venju, að hafa málafærsluna skriflega. Þessi breyting var gerð eftir fyrirmynd frá öðrum þjóðum, og er fjarri mjer að efast um, að það geti átt við, þar sem nóg völ er á æfðum og lærðum lögfræðingum til þess að skipa dómaraembætti og annast málaflutning. En það er hætta á því, að hörgull verði hjá okkur á slíkum mönnum, og þykjast þeir, sem fróðir eru í þessum sökum, sjá fram á þennan hörgul.

Munnlega málafærslan virðist einnig hafa haft þau áhrif að fækka málum fyrir hæstarjetti. Vitanlega er hjer aðeins um tvö ár að ræða, og verður ef til vill ekki dregin nein fullnaðarályktun af þeim, en þó virðist málafækkunin allískyggileg. Fyrir landsyfirdómi voru að meðaltali 67 mál á ári síðustu þrjú árin, sem hann stóð, en fyrir hæstarjetti hafa verið 29 mál annað árið og 36 mál hitt árið. Þessu veldur ekki, hvernig dómurinn er skipaður. Öllum kemur saman um, að dómendurnir sjeu góðir dómarar og mætir menn, enda eru þrír af þeim þeir sömu og voru í landsyfirrjetti. En menn hafa sett þessa málafækkun í samband við munnlegu málafærsluna, og má þar til nefna jafnvel suma dómarana í rjettinum.

Munnlega málafærslan er miklu dýrari en sú skriflega var, enda er hún miklu umfangsmeiri fyrir málafærslumennina. Áður var lágtaxti þeirra 75 krónur fyrir málaflutning við landsyfirdóminn, en nú er hann 300 kr. Og jeg held, að þessi taxti sje ekki settur svo hár af ósanngirni, heldur af því, að munnlega málafærslan tekur svo mikinn tíma. Í bæklingi, sem Sigurður Þórðarson, fyrrum sýslumaður, hefir skrifað um hæstarjett, er bent á marga annmarka þessarar málafærslu, og jeg verð að telja þau ummæli vel þess verð, að þeim sje gaumur gefinn. Með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa hjer upp niðurlagsorð höf. um munnlegu málafærsluna. Þau hljóða svo:

„Hinn munnlegi málflutningur, sem innleiddur er með hæstarjettarlögunum, hefir þá í fyrsta lagi í för með sjer gífurlegan kostnaðarauka af áfrýjun mála, svo mikinn, að mörgum manni verður ókleift að leita rjettingar mála sinna. Hann veldur því, að óvíst verður tíðum, hvort alt það muni koma til vitundar dómaranna, sem haft gæti áhrif á úrslit málanna, en gerir um leið starf málflutningsmanna vandasamara og fyrirhafnarmeira en áður var. Hann getur valdið því, að meira verði hrapað að dómsálagningu en vera bæri. Hann veldur því, að dómar verða ver úr garði gerðir en þeir væru, ef málsskotsdómnum væri gert skylt og mögulegt að semja fullkomna dóma, er hefðu að geyma nákvæma skýrslu um málavöxtu og vandlega rökstuðning niðurstöðunnar“.

Öll þessi atriði rökstyður höf. með rökum, sem ekki hafa verið hrakin, svo jeg viti til. Jeg get eðlilega ekki lagt neinn dóm á þau rök, sem bygður væri á lögfræðisþekkingu, en þó hygg jeg, að þau sjeu bygð á miklu viti, og jeg veit, að fleiri, sem þekkingu hafa á þessum efnum, líta svo á.

Þessi till. fer fram á sparnað fyrir ríkið, og hún fer einnig fram á annan sparnað, sem engu er ómerkari, sparnað fyrir einstaklinga þá, sem þurfa að leita rjettar síns. Nú er svo komið, að það er varla á færi annara en auðugra manna að leita rjettar síns, og geta allir sjeð, hve óheilbrigt slíkt er. Þinginu er skylt að sjá svo um, að allir geti varið sín helgustu rjettindi, því að oft er æra, velferð og jafnvel líf manna komið undir úrskurði dómstólanna. Jeg tel því þennan sparnað meira virði en þær þúsundir, sem ríkissjóði sparast við till. nefndarinnar, því að með skriflegri málafærslu er öllum almenningi gert hægra fyrir að leita rjettar síns.

Því hefir verið haldið fram í fyrirlestri af einum hæstarjettardómaranna, að nauðsynlegt verði að hafa miðdómstól milli hjeraðsdómanna og hæstarjettar. Jeg er ekki svo mikill sparnaðarmaður, að jeg vilji halda um of í krónumar, þegar um það er að ræða, að einstaklingum sje sem best trygður rjettur þeirra, og ef það reynist óhjákvæmilegt vegna þessarar tryggingar, að dómstigin verði þrjú, þá mun jeg leggja með því. Og sú breyting ætti ekki að kosta mikið meira en hæstirjettur nú, ef dómendunum yrði nú fækkað um tvo. En alt þetta mál þarfnast alvarlegrar og rækilegrar rannsóknar. Þess er síst að dyljast, að mál hafa oft verið svo illa undirbúin af hjeraðsdómurum, að æðri dómstólar hafa átt erfitt með að átta sig á þeim, þó að þetta hafi lagast mikið í seinni tíð. En þó er spursmál, hvort dómaskipunin er nægilega trygg eins og nú er. Jeg held því fram, að ekkert í þessari till. verði til þess að veikja hana, en skriflega málafærslan ætti töluvert að tryggja hana.

Jeg vil svo ekki þreyta hv. deild lengur. Jeg get vel búist við því, að þessi till. fái lík afdrif og aðrar till. sparnaðarnefndarinnar, en jeg er hættur að kippa mjer upp við það. Jeg hefi komist á þá skoðun, að sparnaðartalið í byrjun þingsins hafi aðallega verið á vörum flestra hv. þm., en átt minni rætur inni fyrir.