22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (1820)

88. mál, saga Alþingis

Jón Þorláksson:

Það er ekki rjettmæt mótbára gegn brtt. okkar, sem hv. þm. Dala. (B. J.) segir, að Alþingi sje ekki sjerfræðingur og geti ekki dæmt um tilhögun verksins. Um þetta verk eins og önnur eiga sjerfræðingarnir aðeins að hafa tillögurjett. Yfir þeim þarf að vera vald, sem er fulltrúi heilbrigðrar skynsemi og almenningshagsmuna, og metur og úrskurðar um tillögur og gerðir sjerfræðinganna. Þeir mega ekki vera einráðir. Verkfræðingarnir mega ekki einir ráða, hve mikið bygt sje af brúm og vegum. Kennararnir mega ekki einir ráða, hvað og hve mikið kent er, nje heldur sagnfræðingamir hvað skrifað er. Það gæti skeð, að einhverjum sagnfræðingnum þætti gaman að skrifa um þetta stórt ritverk í 6 bindum, sem færi vel í hillu, en fáir legðu út í að lesa. En þá gæti svo farið, að Alþingi sem fulltrúi almennrar skynsemi teldi betra að fá minna rit og læsilegra. Ef þetta er nú athugað fyrirfram og áætlun gerð um kostnað, og hann fer mest eftir stærð ritsins, þá getur Alþingi vel dæmt um. Hitt er ófær leið, að hleypa verkinu af stað og taka svo í taumana síðar og kippa því út úr þeirri áætlun, sem búið er að vinna eftir ef til vill árum saman.