22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

10. mál, verslunarskýrslur

Jón Þorláksson:

Frsm. nefndarinnar, 1. þm. G.-K. (E. Þ.), er veikur og hefir beðið mig um að segja hjer nokkur orð fyrir sína hönd. Nefndin leggur það til, að frv. verði samþykt og viðurkennir nauðsyn breytingar þeirrar, sem verið hefir gerð á innheimtu verslunarskýrslnanna og frv. er ætlað að lögfesta. En þess vildi hún láta getið, að þar sem ekki verður komist hjá því, að talsverðan kostnaðarauka leiði af þessum breytingum, þá telur hún æskilegt, að dregið verði úr honum eins mikið og framast verður unt. Til dæmis vill hún vekja athygli stjórnarinnar á því, hvort ekki muni ónauðsynlegt að gefa út ítarlega sundurliðaða ársfjórðungsskýrslu, eins og þá, sem þegar hefir verið gefin út fyrir fyrsta ársfjórðung 1921, þar sem ætla má, að í Hagtíðindunum megi birta alt það, sem nauðsyn er að birta áður en ársskýrsla hvers árs kemur út.

Nefndin vill aðeins skjóta þessu fram til nánari athugunar, og leggur annars til að frv. verði samþykt.