03.03.1922
Neðri deild: 13. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

27. mál, skipting Húnavatnssýslna í tvö kjördæmi

Gunnar Sigurðsson:

Jeg skrifaði að vísu undir þetta nál., en gerði það með fyrirvara. Menn muna kannske eftir afstöðu minni til þingmannafjölgunarinnar í Reykjavík, þegar það mál var hjer á ferðinni. Jeg var þá á móti því, vegna þess, að jeg vildi ekki fjölga tölu þm. fyr en kjördæmaskipunin væri rannsökuð um land alt. Á þingi 1919 bar jeg ásamt fleirum fram þál.till. um áskorun til landsstjórnarinnar að rannsaka kjördæmaskipunina og gera till. um það. Þessu hefir hæstv. landsstjórn engu sint. Jeg er eindregið með breytingu á allri kjördæmaskipuninni og hallast að hlutfallskosningu, einkum í kauptúnum. Jeg álít, að það sje fullkomlega heimilt að neita einu kjördæmi um rjettlátar kröfur, ef það verður til þess að knýja fram meira rjettlæti fyrir kjördæmi um land alt. Sökum þessa var jeg á móti fjölgun þm. í Reykjavík. England sem er eins og kunnugt er fyrsta „demokratiska“ ríkið í álfunni, hefir átt í miklu stríði í þessum efnum. Eftir næstsíðustu aldamót voru þar kjördæmi, sem höfðu 2000 kjósendur, en kusu 2 þingmenn. Þetta voru þessir svokölluðu „rottenboroughs“. Aftur voru bæir, sem höfðu mörg hundruð þús. kjósendur, sem höfðu enga sjerstaka fulltrúa. Af þessu leiddi mútur og kosningakúgun hin mesta. Englendingar endurskoðuðu alla sína kjördæmaskipun og gerbreyttu henni árið 1832 og svo aftur 1867. Að því er frv. það, sem fyrir liggur, snertir, þá viðurkenni jeg, að það eru í fylsta máta rjettlátar kröfur, sem það fer fram á, og því mun jeg fylgja því, í von um það, — og því skrifaði jeg undir með fyrirvara — að þingmenn verði eins frjálslyndir, þegar um önnur kjördæmi er að ræða og að háttv. þm. láti það í engu verða til þess að tefja fyrir að kjördæmaskipunin verði endurskoðuð í heild sinni.