17.03.1922
Neðri deild: 25. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (717)

34. mál, bæjarstjórn í Reykjavík

Bjarni Jónsson:

Mjer er óskiljanlegt, hvers vegna verið er að tala um að fresta þessu frv. til næsta þings og halda um það langar ræður, úr því að allir vilja samþykkjast efni frv. Ef engin slík tillaga um frestun hefði komið fram, þá hefði frv. gengið umræðulaust gegnum báðar deildir og kostað minni tíma en hjer hefir nú verið eytt.

Þótt settur verði lagabálkur um bæjarmálefni Reykjavíkur innan skamms, þá verður þessu atriði ekki breytt aftur, heldur fellur það þar inn í. Jeg hygg því rjett að fallast á þetta og koma svo í veg fyrir að tefjist framkvæmdir í bæjarstjórn og öll störf gangi þar ver vegna þess, að ranglæti er beitt.

Því að ef það er satt, sem háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) sagði, þá er þetta alls ekki smámál. Það er um rjettlæti eða ranglæti að ræða, og í mínum augum er rjett og rangt engin smáatriði nje hjegómamál. Það liggur í augum uppi, að minni hluti á ekki fremur að vera órjetti beittur í bæjarstjórn en á þingi. Jeg segi þetta án þess að blanda mjer neitt í þær deilur, sem kunna að hafa orðið um þetta áður en það var borið hjer fram. Og þar sem þetta frv. gerir áreiðanlega engum rangt, en getur komið í veg fyrir ranglæti, þá vona jeg, að háttv. deild leyfi því að ganga áfram.