22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

1. mál, fjárlög 1923

Forsætisráðherra (S.E.):

Jeg man svo langt að þegar sendiherraembættið kom fyrst fram í fjárl., þá mætti það hinni megnustu mótstöðu já, það var jafnvel hamast á móti því, Og sumir komu jafnvel með þá kenningu, að víða erlendis væri farið að leggja embætti þessi niður. Og margir trúðu. En ef vjer nú lítum á reynsluna, þá er dálítið annað uppi á teningnum. Lítum t. d. til sambandsþjóðar vorrar. Dana; þeir hafa nýlega aukið stórum kostnaðinn við utanríkismál sín, og nemur sá kostnaðarauki að mig minnir 3 miljónum króna árlega. Og þá munu Svíar og Norðmenn einnig hafa látið rannsaka fyrirkomulagið á þessum málum og gert töluverðar endurbætur á þeim. Og því einkennilegra finst mjer að heyra stöðugt þessar villukenningar hljóma hjer í þingsalnum, að embætti eins og það, sem hjer er að ræða um sje hjegóminn einn.

Það er rjett sem háttv. þm. (Þór.J.) tók fram, að sendiherrann er kallaður hjer ýmsum lítilsvirðandi nöfnum, svo sem „tildursherra“ o. s. frv., og er það þveröfugt við það, sem aðrar þjóðir gera, því þar telja þessa embættismenn mjög nauðsynlega og velja til þessara embætta sína bestu menn, enda leikur viðskiftalífið mjög um hendur þeirra.

Jeg gæti vel skilið að menn vildu lækka laun sendiherrans, ef hjer væri um hjegómaembætti að ræða. En þar sem fordæmi annara þjóða sína oss, að svo er ekki, þá þykir mjer slíkt næsta. einkennilegt.

Þegar að því rekur að þessi þjóð tekur öll utanríkismálin í sínar hendur mundi það allkynlegt þykja ef þjóðin ætti enga trúnaðarmenn erlendis.

Það er alment viðurkent, að mikið gagn hafi hlotist af því að hafa sendimann í London en nú er að gætandi að sendiherra vor í Kaupmannahöfn getur einnig rekið erindi vor í London.

Þegar litið er á það hve mikla áherslu aðrar þjóðir leggja á það að hafa góða erindreka erlendis og hversu mjög þær auka nú tillög sín til utanríkismála þá ættu menn ekki að sjá eftir fjárhæð þessari til utanríkismála vorra. Upphæðin er svo lítil en á hinn bóginn þau mál sem sendiherrann fjallar um mörg svo mikilsverð, að jeg álít, að landið muni marggræða upp laun hans. Þá er það ekki þýðingarlaust fyrir oss að eignast menn sem læri beinlínis að fara með utanríkismál var því einhverntíma rekur þó að því, að vjer tökum þau sjálfir í vorar hendur.

Mjer heyrist sem allir beri gott traust til sendiherra vors, en hann sjer allra manna best hefir kynt sjer þessi mál, telur að hjer sje um mjög þýðingarmikið embætti að ræða, og ættu menn að taka eitthvert tillit til þess álits.

Jeg tel það nauðsynlegt að allir geri sjer ljóst, hve mikilsvert mál þetta er, og jeg hefi þá sannfæringu að ef menn hefðu nægilega þekkingu í þessum efnum, þá mundu þeir ekki ljá brtt. atkvæði sitt, því hún hefir það í för með sjer, að sendiherrann skilar embættinu af sjer. Mönnum er það enn fremur kunnugt, að sendiherrann hefir engan hagnað af embætti sínu heldur þvert á móti stórt fjárhagslegt tjón, og það jafnvel þótt launin væru þannig að hann gæti lifað á þeim.

Þar eð fyrverandi stjórn hefir ætlast til að embættinu væri haldið og lagt til, að launin yrðu hækkuð, og þessi stjórn sem nú er, er einnig sömu skoðunar, þá vona jeg að það hvorttveggja sje svo þungt á metunum að till. verði ekki samþ., því með því væri útilokað, að maður fengist í embættið.