22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jón Baldvinsson:

Við höfum nú fyrir skömmu hlustað á líkræður tveggja klerka. Annar talaði með miklum fjálgleik og viðkvæmni yfir moldum aðflutningsbannsins, en hinn af hörku mikilli og grimd yfir frv. stjórnarinnar, sem lagt var fram í þingbyrjun. Honum var ekki vel við banamenn þess frv., en kvaðst þó mundu samþykkja frv. það, sem nú liggur fyrir, þótt hann talaði á móti því.

Nú er svo komið, að verið er að bera bannlögin til moldar, lögin, sem svo lengi hefir verið þráttað um, en sem margir telja hin bestu lög, sem vjer höfum fengið, og til mikillar blessunar landi og lýð. Því er ekki að leyna, að það má heita svo, að bannlögin verði að engu, ef þetta frv. verður samþykt. Þetta eru að vísu heimildarlög; það er ekki ákveðið, að þessi vín skuli flytja inn; en hvernig ætlar stjórnin að nota heimildina? Jeg sje, að stjórnin er ekki við sem stendur, og skal jeg því ekki fara út í það að sinni.

Það er nú fyrst, að það reynir á þolrif sannra bannmanna. Hingað til hefir alt verið leikur einn hjá því, sem nú er í húfi. En nú þegar svona er ástatt, þá hverfa menn frá banninu hópum saman, menn, sem hafa verið álitnir stoðir þess og styttur og hafa talað um það frammi fyrir kjósendum sínum að efla og vernda bannlögin eftir megni. Menn hafa viljað hverfa frá bannlagahugsjóninni, vegna þess skaða, sem væntanlega yrði að því að halda fast við bannið. Menn deila nú um, hve mikill sá skaði mundi verða; sumir telja hann meira en tug miljóna, en aðrir 2–3 milj. Jeg er viss um það, ef sá lágmarkstollur, sem nú er á fiskinum og mun nema nokkrum miljónum króna, væri ekki til og nú ætti að fara að setja hann á, þá mundu menn telja hann útgerðinni óbærilegan og vera jafnfúsir á að hopa hans vegna eins og menn nú vilja hopa vegna hámarkstollsins. En reynslan hefir sýnt, að sá tollur, sem nú er, hefir ekki áhrif á framleiðsluna eða söluna.

Ef þessi lög komast í framkvæmd, þá er hætta á því, að í skjóli þeirra flyttust inn einnig sterk vín. Það er ekki ólíklegt, að Englendingar mundu fara sömu leið og Spánverjar og heimta að leyfður yrði innflutningur á vínum þeim er þeir framleiða, svo og Danir. Jeg sje ekki, hvernig staðið yrði á móti kröfum þeirra í þessa átt, ef látið er undan Spánverjum.

Jeg sje, að hæstv. forsrh. (S. E.) er kominn. Það var leiðinlegt að hlusta á ræðu hans. Hann fór ekkert út í málið sjálft og sagði, að það hefði litla þýðingu, að stjórnin gerði grein fyrir framkvæmdum þessa máls. En mjer finst það skifta miklu máli. Jeg vil því spyrja hæstv. forsrh.: Hvað hugsar stjórnin um framkvæmd laganna? Ætlar hún að nota heimildina? Hvernig á að selja vínið, ef það verður flutt inn? Alt þetta um framkvæmd laganna innbyrðis skiftir miklu. Á undan bannlögunum var strangt eftirlit með vínversluninni. Þá veittu sveitar- og bæjarstjórnir leyfi til verslunar. En ef stjórnin ætlar nú að láta selja vínið í hverri búð, eða hvern sem er selja það, þá er það svo gott sem afnám bannlaganna. Það verður þá hægt að selja í skjóli þessara veiku vína sterkari vín, eða blanda þau með spíritus, „koges“ eða yfirleitt hverju sem menn lystir. Þó að auðvelt hafi verið að ná í vín, sakir slælegs eftirlits allra stjórna síðan bannlögin voru sett, þá er jeg sannfærður um, að þau hafa gert mjög mikið gagn, þrátt fyrir þetta. Jeg lýsti því nánara við 1. umr. hjer, og fer ei frekar út í það.

Þá er eitt enn. Það er vitanlegt, að önnur þjóð, Norðmenn, eiga einnig í sama stríði við Spánverja. Það hefir ekki frjest, að þeir láti enn bilbug á sjer finna. Þeir halda tollstríðinu áfram. Ef við verðum fyrri til að láta undan, þá er sýnilegt, að við veikjum aðstöðu þeirra, og getur það orðið til þess, að þeir verði að láta undan fyrir bragðið.

Jeg skal nú ekki rengja, að allir hafi gert sitt besta í þessu máli. Nefndin þvær alla af grun um slælega framgöngu og hv. frsm. (M. J.) árjettaði það. En jeg get ekki að því gert, að mjer finst þó framkoma fráfarinnar stjórnar nokkuð undarleg. Hún fór með málið alt mjög á huldu. En það má vel vera, að nefndin hafi einnig sannfærst um góða framgöngu hennar.

Jeg hygg, að það væri rjettara að afnema bannið en leyfa innflutning á þessum veiku vínum. Jeg skil ekki í, hvers vegna þeir, sem vilja vinna þjóðinni gagn á þennan hátt, koma ekki með tillögu um að afnema bannið. Mjer skilst, ef þetta frv. er samþykt, þá getum vjer ekki gert sömu takmarkanir um sölu víns, sem áður voru hjer, en ef bannlögin eru afnumin, þá getum vjer sett allar sömu takmarkanir á gang aftur.

Jeg mun greiða atkvæði á móti þessu frv. Einhver þm. ljet þess getið, að hann tryði því ekki, að nokkur þm. fremdi það ódæði. En jeg mun óhræddur standa á móti samþykt þessa frv., þótt svo jeg verði einn uppi. Það mun á sínum tíma verða upp kveðinn dómur um þetta, og hans þori jeg óhræddur að bíða.