01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

139. mál, fjáraukalög 1923

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Fjárveitinganefnd hefir komið fram með nokkrar brtt. við frv. þetta og skal jeg nú gera grein fyrir þeim með nokkrum orðum.

Fyrst er á þskj. 484 till. um styrk til sjúkrahúss á Sauðárkróki, 1/3 kostnaðar, sem nemi alt að 4200 kr. Stafar kostnaður þessi af því, að bæta þarf við spítalahúsið til ljóslækninga, og auk þess bæta upphitun þess með því að koma upp miðstöðvarhitun í kjallara hússins. Er kostnaðurinn af þessum breytingum áætlaður 13000 kr. Geri jeg ráð fyrir, að háttv. deild fallist á að veita þennan styrk, sem er í fullu samræmi við það, sem tíðkast hefir að veita til slíkra sjúkrahúsa.

Þá er hjer till. um 2000 kr. styrk til útgáfu ljósmóðurfræði. Var veittur styrkur til hennar á síðasta þingi, en kostnaður hefir reynst meiri en áætlað var, og er þetta viðbótarstyrkur. Þetta verk er mjög vel af hendi leyst. Fyrverandi hjeraðslæknir Davíð Scheving Thorsteinsson hefir þýtt bókina, en landlæknir las handrit og prófarkir. Pjetur Halldórsson bóksali bauðst til að gefa út bókina og selja ákveðnu verði gegn ákveðnu tillagi. Bjóst hann við, að hún mundi ekki koma út fyr en eftir nýár í vetur, og að prentunarkostnaður yrði þá fallinn, svo að útgáfan yrði ódýrari. En landlæknir rak svo eftir útgáfu hennar, að hún var prentuð fyrir nýár, enda lá mjög á henni, og varð því útgáfukostnaðurinn hærri en gert hafði verið ráð fyrir. Sjer nefndin ekki annað fært, þar sem svo stendur á, en að veita þennan viðbótarstyrk. Býst jeg annars við, að heilbrigðisstjórnin láti málið til sín taka og að hæstv. forsrh. (SE) gefi því nánari upplýsingar um það.

Þá er 3. liður, um sjúkrakostnað nokkurra taugaveikissjúklinga í Flensborgarskólanum. Kom þar upp mögnuð taugaveiki síðastliðið haust og lagðist hver nemandinn á fætur öðrum. Var sótthreinsað hvað eftir annað og gert alt, sem hægt var, til að sporna við útbreiðslu sjúkdómsins, en ekkert dugði. Þótti mönnum þetta mjög undarlegt, að ekki skyldi verða komist fyrir upptök veikinnar. En loksins kom þó í ljós, að ráðskonan þarna í skólanum olli veikinni. Er hún ein þeirra undarlegu manna, sem bera í sjer slíka sýkla árum saman, án þess þó sjálfir að taka veikina. Það hafði verið uppgötvað áður, að þessi kona væri með þessum annmarka, en þrátt fyrir það, þótt reynt sje annars að hafa gát á þessu fólki, sem svo er ástatt um, hafði hún samt einhvern veginn sloppið undan eftirliti. Það leiðir nú af sjálfu sjer, að þetta fólk, sem veikina tók í Flensborg, getur ekki að því gert, að svo fór, og er ekki nema sanngjarnt, er svo stendur á, að því sje bætt upp að nokkru það fjártjón, sem það hefir beðið af þessu. Einn þeirra misti raunar lífið, og verður það ekki bætt, en hinum ætti að bæta það, sem bæta má. Nefndin hefir hjer farið eftir till. skólastjórans, að því er snertir upphæðina, og eru það 5 menn, sem hún á að skiftast á. Jeg skal svo að lokum geta þess, að konu þessarar mun gætt vandlega í framtíðinni.

Þá vill fjvn. mæla með, að veittur verði 3000 króna styrkur til aðgerða á Þingvöllum. Hefir þjóðmenjavörðurinn óskað eftir, að þetta sje gert, og er Þingvallanefndin því meðmælt. Hjer er ekki um nýmæli að ræða, þar sem þegar má teljast ákveðið að framkvæma þetta verk fyrir árið 1930, eða hafa þá að fullu lokið aðgerðinni. Er því rjett að gera þetta smámsaman. því ef það dreifist á lengri tíma, kemur það ljettara niður.

Þá eru hjer líka 450 krónur til aðgerðar á Bessastaðakirkju. Háttv. deildarmenn muna sjálfsagt, að hún hefir verið boðin þjóðmenjasafninu að gjöf. En sökum þess, hve dýrt var álitið, að yrði að gera við gripinn, þótti ekki fært að taka á móti gjöfinni. Gengust þá nokkrir áhugasamir menn fyrir samskotum til að gera við kirkjuna, og safnaðist 6350 krónur. Aðgerðin kostaði 6800 krónur, og hefir þjóðmenjavörðurinn farið þess á leit, að ríkissjóður borgaði eftirstöðvarnar, sem eru 450 krónur. Finst nefndinni sjálfsagt að verða við þessari ósk, svo mikinn áhuga sem einstakir menn hafa sýnt í þessu efni.

Þá er hjer enn till. frá nefndinni, um að tveim skáldum verði veittur lítill styrkur, sem sett voru hjá við úthlutun listastyrksins. Eru þau svo kunn, að ekki þarf að fara neinum orðum um þau. Hefir verið talað um það meðal háttv. þingmanna, að óheppilega hafi viljað til, að þessir menn skyldu ekki hljóta neitt af þeim styrk. Segi jeg þetta þó ekki í því skyni að ávíta hæstv. stjórn, því jeg geri ráð fyrir, að hún hafi sett þessa menn hjá, af því að fjeð hrökk ekki til að styrkja fleiri. En nú á hv. Alþingi kost á að bæta úr þessu, og finst nefndinni rjett að gera það.

Þá er 17. liður, um 8000 krónur handa efnilegum mönnum til lokanáms erlendis. Hæstv. stjórn hefir gert fyrirspurn til fjvn. um það, hvort meiningin sje, að þau lán, sem hjer er um að ræða, skuli aðeins veitt gegn fasteignaveði, eða hvort nægja muni að hafa þau einhverjum öðrum skilyrðum bundin. Jeg vil svara á þá leið, að nefndin lítur svo á, að aðrar tryggingar geti nægt. Finst henni jafnvel, að sjálfskuldarábyrgð geti komið hjer til greina. Annars hefir náttúrlega stjórnin nokkuð óbundnar hendur í því efni, hvaða tryggingu hún tekur gilda og hverja ekki.

Þá vill nefndin mæla með því, að stjórninni sje heimilað að ábyrgjast þau lán, sem getur um í 19. lið. Eru þar fyrst 15000 krónur til Hvítárbakkaskólans. Hjeraðsmenn, sem sjeð hafa um hann til þessa, eru nú búnir að leggja fram mikið fje til hans, og vill nefndin nú hlaupa undir bagga með þeim. Þessi skóli hefir verið til mikils gagns, og mundi nefndin hafa mælt með beinni fjárveiting til hans, ef hún hefði sjeð það fært, fjárhagsins vegna. En talsverð hjálp er það skólanum, að hlaupið sje undir bagga með honum á þennan hátt. Nefndin getur ekki fallist á till. háttv. þm. Borgf. (PO) að hafa lánið afborgunarlaust í 5 ár, heldur skuli greiðslufresturinn ekki vera lengri en 3 ár.

Þá er næsta brtt. um að ábyrgjast lán fyrir niðursuðufjelag. Maður sá, sem þar um ræðir, hefir skýrt frá því, að hann hafi átt tal við erlend verslunarhús um það, hvort ekki mundi hægt að setja á stofn hjer niðursuðustöð til að hagnýta ýmislegt matarkyns, sem annars er fleygt Og hafa þau tekið mjög vel í það. Hefir þessi maður komist í samband við ágætt verslunarhús í Þýskalandi, sem starfar að þessu, og hefir það tjáð sig fúst til að stofna slíkt fyrirtæki hjer. Er það hugmyndin að byrja með því að setja hjer á stofn 2–3 smáverksmiðjur, til að sjóða niður ýmislegt, bæði af landi og úr sjó, svo sem lax, hrogn, heila, tungur o. fl. sem margt verður annars verðlaust eða verðlítið framleiðendum. Þyrfti svo auk þessara smástöðva að setja upp eina sjerstaka, sem byggi til dósir til niðursuðunnar fyrir hinar stöðvarnar. Hefir þetta þýska firma boðist til að leggja fram 45% af kostnaði við stofnun þessa fyrirtækis, og er þá hugmyndin að fá það, sem á vantar, með hlutasöfnun. Eru þegar fengin loforð frá nokkrum góðum mönnum um að kaupa hluti.

Nefndin telur þetta lofsverða tilraun til að gera sjer meiri mat úr þessum afurðum, sem annars eru lítils eða einskis virði.

Það er enginn vafi á því, að smáverksmiðjur verða reistar víðar þegar frá líður. Hjer er ekki farið fram á, að ríkið leggi neitt í hættu; það er aðeins beðið um ábyrgð, sem svarar alt að 1/3 hlutafjárins, gegn 1. veðrjetti í eignum fjelagsins og öðrum þeim tryggingum, sem stjórnin tekur gildar.

Jeg geri ráð fyrir hjer um bil 90 þús. króna stofnkostnaði alls til þess er rekstur verksmiðjunnar geti byrjað, ef stöðvarnar yrðu þrjár, sem starfað yrði á. Fer jeg ekki að svo vöxnu máli að telja upp fleiri vörur, sem verksmiðja þessi mundi fást við til hagnýtingar, en jeg þegar hefi gert, en þó gæti jeg nefnt margt fleira, og getur það beðið þar til ef andmæli rísa gegn því, að þessi stuðningur verði veittur framleiðslunni. Þessar verksmiðjur ættu því fremur að fá að komast á fót, er erlendir menn vilja leggja jafnmikið fje í þær; sýnir það trú þeirra á fyrirtækið. Og auk þess eru það hlunnindi, að æfðir og reyndir menn starfi að þessum verkum, þar sem oft veitir allerfiðlega að koma þessum vörum út á markað, ef viðvaningar hafa fengist við framleiðslu þeirra. Þessar verksmiðjur munu allar starfa saman undir sömu stjórn og selja vörur sínar með sama vörumerki, svo að samkepni þeirra í milli getur ekki komið til greina.

Þá er síðasta brtt. fjvn., um að heimila stjórninni að greiða hjeraðssambandi U. M. F. Vestfjarða styrk þann, sem ætlaður var til húsmæðranámsskeiðs á Ísafirði. Ungmennafjelagssamband þetta hefir síðastliðinn vetur haldið þannig lagað námsskeið að Núpi í Dýrafirði, og er því rjett, að það fái þennan styrk, úr því hans þurfti ekki þar með, sem hann var fyrst ætlaður til.

Þá skal jeg minnast ofurlítið á afstöðu fjvn. til nokkurra brtt. frá ýmsum hv. þm.

Það er þá fyrst brtt. I á þskj. 484, frá háttv. þm. V.-Sk. (LH), um styrk til læknisbústaðar í Síðuhjeraði. Er nefndin þessu meðmælt, enda telur hún sjálfsagt, að farið verði eftir tillögum landlæknis og heilbrigðisstjórnar um byggingu þessa og alt fyrirkomulag sjúkrahússins.

Viðvíkjandi brtt. V á sama þskj., frá hæstv. atvinnumálaráðherra, er nefndin þessu samþykk, enda er það og aðeins loforð, sem hún verður að uppfylla frá síðustu umræðu. Aftur á móti getur meiri hluti nefndarinnar ekki fallist á brtt. hv. þm. Ísaf. (JAJ), en að öðru leyti hafa fjárveitinganefndarmenn óbundnar hendur um þessa og ýmsar aðrar brtt. Sama gegnir um brtt. háttv. þm. N.-Þ. (BSv) og um brtt. háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) og hv. þm. Borgf. (PO), og til þess að hugga háttv. þm. Ísaf. (JAJ) að einhverju leyti, get jeg sagt honum, að fjvn. er meðmælt brtt. hans undir tölulið VIII á þskj. 484. Þá er og best að geta þess, að fjvn. hefir fallist á brtt. hæstv. atvrh. um styrkinn til Þorvalds Árnasonar.

Þá kem jeg að brtt. frá sjálfum mjer á þskj. 491, og er hún ekkert smáræði, þar sem beðið er um 30 þús. krónur; en jeg skal taka það fram, að jeg hefði aldrei komið fram með þessa fjárbeiðni, ef jeg hefði ekki talið alveg óhjákvæmilegt, að fje yrði veitt til þess, sem þar er farið fram á.

Eftir að lokið var 2. umr. um þetta fjáraukalagafrv., hefi jeg ekki haft tíma til að ráðgast um þetta við hæstv. forsrh. (SE), og þess vegna tók jeg það ráð að bera þessa fjárbeiðni til þingsins fram í mínu eigin nafni. Læknir Vífilsstaðahælisins hefir látið í ljós, að ekki verði komist hjá því að gera endurbætur á þvottahúsi Vífilsstaðahælisins, bæði af því, hversu erfitt sje að fá þvottinn nógu hreinan, og af því, að öll vinna við þvotta gangi alt of seint. Kennir hann áhaldaleysinu mest þar um. Er þetta eðlilegt, þar sem ávalt fer fjölgandi sjúklingum í hælinu. Rannsóknarnefnd sú, sem í vetur tók alt hælið til rannsóknar, hefir og óskað umbóta í þessu efni. Læknirinn hefir og áður vakið máls á þessu, bæði við hæstv. stjórn og Alþingi, og er það sök fjárveitingavaldsins, að ekki er þegar búið að koma þessu í framkvæmd. Þessi stofnun er svo nauðsynleg öllum almenningi, að það má ekki eiga sjer stað, að það sje hægt að kenna fjárveitingavaldinu um það, að hún sje ekki nógu fullkomin eða í svo sómasamlegu ástandi, sem vera ber um þær stofnanir, sem eru undir umsjá hins opinbera.

Það hefir verið minst á sparnað og kröfur um sparnað. Er það og eðlilegt, er vjer eigum við örðugan fjárhag að búa og veitir erfitt að afla fjár, en þó mega ekki falla í niðurníðslu þær stofnanir, sem ríkið á að sjá fyrir, og allra síst þær stofnanir, sem eru jafnnauðsynlegar og Vífilsstaðahælið er. Rekstrarkostnaðar Vífilsstaðahælisins er minni en á samskonar stofnunum erlendis, og auk þess er forstöðumaður þess, læknirinn, sparsemdarmaður, sem fer aldrei fram á annað en það, sem er full þörf á að sje gert. Vænti jeg svo, að hæstv forsrh. (SE) ljái þessari brtt. minni fullkomið fylgi sitt, enda hefði það verið eðlilegast, að þessi fjárbeiðni hefði verið borin fram af heilbrigðisstjórn ríkisins.