07.05.1923
Efri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

139. mál, fjáraukalög 1923

Sigurður Jónsson:

Það bregður nú svo við, að jeg á, aldrei þessu vant, eina brtt. á þskj. 577 til hækkunar á fjáraukalögunum. Hún er um að veita 300 kr. styrk á yfirstandandi ári til dragferju á Skjálfandafljóti. Nú eru í fjárlögum 3 dragferjur styrktar á stærstu fljótunum, Skjálfanda, Hjeraðsvötnum og Lagarfljóti. Þessi ferja á Skjálfanda var bygð síðastliðið vor, og reynslan hefir sýnt, að síðastliðið sumar var hún mikið notuð. Ferðamenn milli Húsavíkur og Akureyrar fóru að nota þessa nýju leið, og svo tóku menn vestan fljótsins sig til og ruddu ósljetta móa, svo að þetta má nú heita sæmilega akfær vegur og er mikið notaður. Þessi leið, milli Akureyrar og Húsavíkur, liggur eftir nær því mishæðalausu láglendi, eftir allþjettri bygð, og sparar mikinn krók gagnvart eldri ferðamannalínunni, sem lá yfir Fljótsheiði. Þessi leið er því fljótfarnari og óörðugri og þolanlega hjólfær alla leið inn undir Vaðlaheiði. Upphæð þessi, sem jeg fer fram á, er jöfn þeim, sem veittar eru til hinna ferjanna. Öll sanngirni mælir með þessu, og vænti jeg því, að háttv. deild. samþykki þessa brtt.