11.05.1923
Neðri deild: 61. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1472 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

139. mál, fjáraukalög 1923

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Það mun nú vart hent að vera mjög langorður, eftir þeim glundroða, sem kominn er á hv. Nd., þar sem þau undur hafa gerst, að strandferðaskipið Esja ræður þingslitum, en eigi þingið sjálft eða þingstörfin. Frv. þetta til fjáraukalaga hefir enn aukist nokkuð í háttv. Ed., svo að munar um 35 þús. kr. á gjöldunum frá því, sem var er það fór hjeðan. Nú væntir fjvn. Nd. þess, að þær brtt. á þskj. 623, sem hún hefir gert við frv. nú, og eru hinar sömu eða svipaðar og áður hafa verið hjer til umræðu, fái sama fylgi hjer í háttv. deild og þær höfðu síðast, er þær voru á ferðinni. Væntir fjvn. þess, að frv. verði fært í sem líkast horf og það var í, er það var afgreitt hjeðan síðast.

Fjvn. hefir fært styrkinn til Guðnýjar Jónsson niður í 1000 kr. Er það sú upphæð, sem vant er að veita til styrktar hjúkrunarnemum.

Þá eru brtt. nefndarinnar undir tölul 1,2 og 1,6 a, sem jeg bið forseta að taka tillit til við atkvæðagreiðsluna, þannig, að þær verði bornar upp á eftir brtt. 1,6 b. Ætlast nefndin til, að allir utanfararstyrkir sjeu settir í eina upphæð, og þó þessi upphæð sje nú áætluð nokkru hærri, álítur hún, að stjórninni muni vart af veita, þar sem nógir verði til að sækja um þessa utanfararstyrki og nefndin telur eigi rjett að amast við þeim.

Þá er 3. brtt undir tölul. I, um að lækka styrkinn til bifreiðaferðanna um 1 þús. kr., niður í 2 þús. kr. alls. Nefndin álítur þetta nóga upphæð meðan þetta nýja fyrirkomulag er að reyna sig og eigi er sýnt, hvernig gefst, enda hefir eigi komið beiðni um hærri upphæð en þetta frá þeim, sem eiga að njóta styrksins. Þá hefir fjárveitinganefnd og lækkað styrkinn til kvennaskólans í Reykjavík. Veit hún að vísu, að hann er skuldugur og fjeþurfi, en alveg sama máli er að gegna um kvennaskólann á Blönduósi, og álítur nefndin því samræmi vera í því, að þeir skólar báðir fylgist að. Þá er brtt. III,1 um að lækka styrkinn til björgunarskipsins Þórs í Vestmannaeyjum um 5 þús. kr. Fjvn var upphaflega mótfallin þessum styrk, en til samkomulags við háttv. Ed. vill nefndin ekki gera meira að en að lækka hann niður í 10000 kr.

Þá er 2. brtt. undir tölulið III, um 30 þús. kr. lán til kembivjela á Húsavík. Fjvn. telur atkvgr. um þetta mál áður hjer í háttv. deild fremur óljósa, og vill því gefa háttv. deildarmönnum tækifæri til þess að sýna þá í annað sinn skoðun sína á því máli.

Um IV. brtt. er það að athuga fyrst og fremst, að það er prentvilla, er þar stendur: frá Magnúsi Jónssyni. Á að vera frá Magnúsi Pjeturssyni. Vildi jeg gangast við þessum króga, til þess að hv. 4. þm. Reykv. (MJ) færi ekki að sverja fyrir hann, ef honum kæmi hann ókunnuglega fyrir sjónir, sem jeg þó vart vænti að verði.

Jeg vonast svo eftir að þurfa ekki að fara mörgum orðum um þetta frumvarp frekar en jeg er búinn, og þrátt fyrir það, að talsverð heimþrá hefir þegar gripið allmarga háttv. þm., vænti jeg þó, að eigi sje hún svo mögnuð, að þeir greiði atkvæði þvert ofan í sjálfa sig nú á síðustu stundu, aðeins til þess að flýta fyrir, enda læt jeg þá ósagt, hvort þeim kæmi það að haldi, því margt getur enn orðið til tafar,

Þá á jeg aðeins eftir að minnast styrksins til Einars Þorkelssonar, fyrv. skrifstofustjóra Alþingis, en tel þó óþarft að eyða þar um mörgum orðum. Það er þegar búið að veita svo marga sjúkrastyrki, að þessi ætti ekki að stranda af því að þetta væri eigi venja þingsins, og þessi maður er eigi síður verðugur sjúkrastyrks en nokkur hinna, er styrk hafa þegar hlotið á þessu þingi.