13.04.1923
Neðri deild: 41. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

110. mál, jarðræktarlög

Eiríkur Einarsson:

Jeg vil þakka hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) góðan skilning á áveitumálunum og samúð hans með þeim. En jafnframt vil jeg grípa tækifærið til að minnast á atriði, sem fram komu í ræðu hans. Hann talaði um tvær áætlanir. bráðabirgðaáætlun og svo þá endanlegu áætlun. Það er nú vitanlegt, að þegar Skeiðaáveitan var byrjuð, lá aðeins fyrir þessi bráðabirgðaáætlun, sem bygð var á bráðabirgðarannsókn. En nú vil jeg spyrja: Hví var hrapað að verkinu, áður en fullnaðarrannsókn fór fram, og bændur ekki látnir vita, að á hinni framkvæmdu rannsókn væri ekki byggjandi? Hefði það verið gert, myndi Skeiðaáveitan t. d. ekki orðin það vandræðamál, sem raun er á.

Mjer sýnist því auðsætt, að sökin á þessu liggur ekki á baki bænda. — þeir eru ekki faglærðir í þessum efnum og hafa engin tök á að sjá, hvort rannsóknin er nægileg.

Að þessari áætlun unnu 3 verkfræðingar og í krafti síðustu áætlunarinnar voru veittar 26 þús. kr., eða 1/4 áætlaðs kostnaðar, til að byrja á verkinu. Var því ekki nema eðlilegt, að bændur treystu á þetta fyrirtæki, þegar hið opinbera tók þessa afstöðu til verksins.

Jeg skal játa það, að dýrtíðin átti sinn þátt í hinum mikla kostnaði, sem orðið hefir af verkinu; en jeg get ekki fallist á, að klöppin hafi verið lítill þáttur í kostnaðaraukningunni.

Sumurin 1921 og 1922 unnu verkaflokkarnir við að sprengja hana og gekk mjög erfiðlega. Enda reyndist kostnaðurinn við hana 14 sinnum meiri en áætlað var, eða á annað hundrað þús. kr., í stað tíu þús., sem áætlað var. Er það ekki verulegur kostnaðarauki?

Jeg get því ekki tekið undir það með háttv. þm. Dala. (BJ), að áætlunin hafi verið mjög nákvæm. En sjálfsagt hafa mennirnir framkvæmt hana eftir bestu vitund.

En því hefi jeg viljað taka þetta fram, að jeg vildi sýna, að bændur bæru enga sök á, hvernig hjer er komið. Mundi hafa mátt sneiða hjá mörgu af því, sem kostnaðinum hefir valdið, ef fullnaðarrannsókn verksins hefði fram farið áður en byrjað var á því.

Um Flóaáveituna vil jeg taka fram, að það var almennur áhugi á því, að byrjað yrði á verkinu. Ríkissjóður lofaði að leggja fram hluta kostnaðar, og við það styrktust vonir manna á þessu fyrirtæki. En þess er ekki að vænta, að bændur hafi eða geti haft heildaryfirlit yfir þetta verk; til þess er fyrirtækið alt of stórt.

Háttv. frsm. (ÞórJ) þarf jeg fáu að svara. Hann hefir nú sjálfur leitast við að draga alla beiskjuna úr ásökunum sínum til Sunnlendinga. Það er líka það besta. Þótt Búnaðarfjelaginu sje ætluð til frambúðar yfirumsjón málefna landbúnaðarins, þá bætir það ekki skakkaföll, sem hlotist hafa af eftirlitsleysi á liðnum árum. — í bjargleysisástandi vill háttv. þm. (ÞórJ) gera sjer mat úr dæminu er jeg nefndi til samanburðar, um Öræfin; jeg skal játa, að rjettara myndi að nefna þar Gerðahreppinn hjer á Suðurnesjum. Þinginu er hann í svo fersku minni. Jeg sagði ekki, að Þingbúar hefðu fengið styrk; þeir njóta tilstyrks þingsins, eins og jeg sagði, með láninu, er þeim er sjeð fyrir af þinginu.