27.04.1923
Neðri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1588 í B-deild Alþingistíðinda. (1331)

110. mál, jarðræktarlög

Sveinn Ólafsson:

Jeg á 2 brtt. við frv. þetta, við 34. og 38. gr. þess. Skal jeg ekki fjölyrða um þær, því háttv. frsm. (ÞórJ) hefir lýst því yfir, að nefndin væri mjer sammála um þær. Held jeg að háttv. þdm. muni líka vera mjer sammála um, að þær sjeu til bóta.

En jeg vildi fara nokkrum orðum um ákvæði 27., 28. og 29. gr. frv., um rjett leiguliða til að láta jarðabætur koma upp í landskuldina.

Jeg er ekki allskostar ánægður með ákvæði þessara greina, en treysti mjer þó ekki alveg fyrirvaralaust að koma fram með brtt., sem mjer líkuðu fyllilega. Tel jeg líka óvíst, að brtt. hv. landbn. sjeu að öllu heppilegar.

Það, sem vakir fyrir mjer, er, að þessi heimild landsetanna til að vinna af sjer landskuldina kunni að verða misnotuð. Einkum sýnist mjer, að þetta geti orðið á afdalajörðum og andnesjabýlum, er liggja í eyði öðruhvoru, og enn fremur á þeim jörðum, er liggja undir skemdum af náttúrunnar völdum. Í þær jarðir er eigi álitlegt að kasta opinberu fje til jarðabóta. Mundi heldur ekki gott að sannprófa, hvort jarðabætur á þessum jörðum væru svo sem vera ætti, þegar mjög eru afskektar. Er því athugavert að færa kvöðina niður, eins og háttv. landbn. leggur til á þskj. 397. Vil jeg vekja eftirtekt háttv. landbn. á þessu, ef vera mætti, að hún sæi sjer færi að gera brtt. um þetta til 3. umr., sem trygði það betur, að heimild þessi yrði ekki misnotuð. En það vil jeg taka fram, að jeg er meðmæltur þeirri stefnu, að heimila leiguliðum að greiða landskuld með jarðabótum þar, sem enginn vafi getur á því leikið, að jarðirnar verði bygðar áfram og jarðabæturnar verði að varanlegum notum.

Af því að jeg hefi á hendi umboð nokkurra þjóðjarða, þá þekki jeg nokkuð til þessara ólíku staðhátta. Sumar þessar jarðir, sem á afskektum stöðum eru, ganga oft úr byggingu og eru stundum í eyði. En þar, sem svo stendur á, er varnaglinn, sem sleginn er í 27. gr., „svo sem við getur átt“, tæplega nóg trygging þess, að hjer verði ekki óskynsamlega að farið og fje varið ófyrirsynju til bóta lítt nýtum jörðum.