26.03.1923
Neðri deild: 29. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1802 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

43. mál, vegir

Jón Þorláksson:

Jeg ætla ekki að fara að tala á móti þessu frv., því það er erfitt að leggja með rökum á móti því, að vegir verði bættir í þessu veglausa landi. En jeg ætla að leyfa mjer að gera dálitla athugasemd við álit meiri hl. þar sem hann talar um það, að gloppa sje í vegalögunum frá 1907, því þetta er bygt á misskilningi. Við ákvörðun þjóðveganna þá var það ekki haft fyrir augum, að reyna að fullnægja þörfinni innan einstakra sýslna, heldur var reynt að koma á nokkurn veginn samfeldu vegakerfi á aðalleiðunum kringum alt landið, milli landshlutanna. Þjóðvegakerfið er samkvæmt vegalögunum einn aðalhringur umhverfis meginhluta landsins, og svo nokkrar álmur út frá þessum hring, þar sem mest var þörf. Aðalhringurinn er alstaðar einfaldur, en bygðin hins vegar oft löng milli afdala og annesja, svo að ekki var um það að gera, að fullnægja vegaþörfinni á því svæði innansveita með þessari einföldu aðallínu. Hjer er nú um það að ræða, að gera hringinn tvöfaldan á vissu svæði, en með því er gengið burt frá þeirri grundvallarreglu, sem vegalögin voru bygð á. Og ef þetta er gert á einu svæði, að tvöfalda línuna, er í sjálfu sjer alt eins mikil ástæða til þess að gera það á ýmsum öðrum svæðum líka, svo sem vesturhluta Suðurlandsundirlendisins. En þetta er hins vegar enn þá ekki nægilega undirbúið. Þetta vildi jeg aðeins taka fram, til þess að sýna, að hjer er ekki um að ræða neina gloppu í vegalögunum. Um önnur einstök atriði í þessu sambandi skal jeg ekki fjölyrða, þó ýmislegt mætti þar athuga, t. d. hvort ekki væri rjett að sleppa þá í staðinn úr þjóðvegatölu veginum frá Einarsstöðum.

Reykjadal að Fossvöllum, en það er að mestu leyti fjallvegur og litlu til hans kostað. Líka er rjett að geta þess, að ein af álmunum út frá aðalhringnum er tvöföld á kafla, þar sem vegurinn úr Hrútafjarðarbotni í Gilsfjarðarbotn hafði með sjerstökum lögum verið tekinn í tölu þjóðvega áður en vegalögin 1907 voru sett. En aðalatriðið í þessu, sem er nýbreytni og afbrigði frá meginhugsun vegalaganna, er það, hvort landssjóði sje yfirleitt fært að ráðast í slíka tvöföldun vegakerfisin því lítið er að sjálfsögðu í það varið að hafa titilinn einan, þannig, að vegir sjeu að nafninu einu ráðgerðir þjóðvegir ef ekki er unt að fylgja því eftir í framkvæmdinni.