23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1812 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

43. mál, vegir

Magnús Pjetursson:

Hv. frsm. meiri hl. (ÞorstJ) lýsti yfir því, að nefndin hafi ekki getað tekið afstöðu til viðaukatillögu minnar, en þó skilst mjer, að jeg muni eiga von á liðstyrk í þeirri nefnd. Hv. deild kann að koma það undarlega fyrir sjónir, að þessi till. skuli koma fram aftur, þar sem hún var þó feld við síðustu umræðu. En ástæðan er sú, að þegar hún var feld, kom það skýrt fram, að hv. þm. höfðu misskilið hana og tekið það svo, sem vegurinn ætti að enda frammi í dalbotni, en ekki að liggja milli sýslna. Jeg vildi því láta það koma skýrt fram, að hjer er um póstleið að ræða milli landsfjórðunga.

Þá var það ekki rjett, sem fram var haldið hjer við 2. umr., að Strandasýsla hefði lagt tiltölulega lítið af mörkum til vegagerðar, samanborið við aðrar sýslur. Jeg hygg, að svo sje einmitt ekki, er tekið er tillit til fjölda verkfærra manna í þeirri sýslu og öðrum. Og þó þessi vegarspotti, sem hjer ræðir um, verði tekinn inn í vegakerfi landsins, þá eru samt óravegir eftir, sem sýslan hefir allan veg og vanda af og þarf að sjá fyrir. Jeg hefi ekki leitað álits vegamálastjórans, en ætla mjer að láta deildina skera úr því, hvað hún telji ráðlegt eða sanngjarnt í þessu máli. En þó vil jeg enn minnast á, að mjer finst mótbára hæstv. atvrh. (KIJ) harla ljettvæg, sem sje það, að vegur þessi væri fjallvegur að nokkru leyti, sem hvort sem er væri kostaður af ríkissjóði. Mjer sýnist einmitt þetta styðja tillögu mína og gera það sjálfsagt að taka veginn upp í tölu þjóðveganna. Óhætt er líka að segja, að ekkert örlæti getur það talist af hinu háa Alþingi, þó þetta verði samþykt. Því það er sönnu næst, að Vestfirðingar hafa ekki verið ásælnir í fje úr ríkissjóði til vega sinna, og þó gert ýmsar framkvæmdir í þessum efnum. Og án þess, að jeg vilji ásaka háttv. deild, þá verð jeg þó að segja, að ýmsir háttv. þm. hafa komið fram breytingum, sem engu meiri sanngirni mælir með en sú, að unna Vestfirðingum þessa vegarspotta. En það er skaðlegt, er menn fara að taka einn landshluta svo út úr við fjárveitingar, sem í eðli sínu eru svo vaxnar, að þær ættu að koma sem jafnast niður. Annars vænti jeg þess, að Vestfirðingar sjeu ekki svo illa kyntir, að hv. þm. sjái sjer ekki fært að verða við þessari sanngirniskröfu.