05.04.1923
Efri deild: 32. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

9. mál, vatnalög

Jón Magnússon:

Mjer þykir rjett að láta enn af nýju uppi skoðun mína um það atriði í þessu máli, sem mestum deilunum hefir valdið, um hinn svo nefnda „eignarrjett“ landeiganda yfir vatninu.

Af annari hálfu er því haldið fram, að landi fylgi eignarrjettur, eða annar nokkum veginn hliðstæður rjettur, yfir vatni því, sem á landareigninni er, ef ekki er frá skilinn.

Af hinni hálfunni er það kent, að vatn geti eftir eðli sínu ekki verið eignarrjetti undirgefið, en að afnot, afnotarjettur eða umráðarjettur á vatni fylgi ekki eignarrjettinum á landinu, nema að því leyti, sem lögin sjerstaklega heimila. Með öðrum orðum, annar hlutinn segir: Landi hverju fylgir umráða- og hagnýtingarrjettur á vatni, sem á því er, með þeim takmörkunum, sem lög o. s. frv. ákveða. Hinir segja: Landareign hverri fylgir rjettur til umráða og hagnýtingar á vatni, sem á henni er, á þann hátt. er lög heimila.

Það er auðsætt, að báðir hlutar gætu vel komist að sömu niðurstöðu um löggjöfina í þessu efni, þrátt fyrir þennan skoðanamun. Þeir fyrnefndu telja heimilt, að fornum og nýjum lögum, að takmarka mjög afnotarjett landeiganda, en hinir viðurkenna afnotarjett eða hagnýtingarrjett hans á ýmsan hátt, sömuleiðis að fornum og nýjum lögum.

Það sýnir sig og, að niðurstaðan í frumvörpum stjórnarinnar og nefndanna, er um málið hafa fjallað á þingum og milli þinga, er mjög svipuð, nema er um orkunýting vatns er að ræða, og þá einkum orkunýting í stórum stíl. Að minsta kosti er það einkum hjer, að munurinn kemur fram.

Ef alt væri óbundið nú, eða ef vatnsrjettindin væru nú eins og meiri hluti milliþinganefndarinnar í fossamálunum heldur fram, þá er jeg ekki í neinum efa um það, að rjett væri að skipa vatnamálunum á þann hátt, eða í samræmi við það, sem sá hluti fossanefndarinnar lagði til.

Ef einhverntíma kemur að því, að tekið verði fallvatn til orkunýtingar í stórum stíl hjer á landi, þá er það alls ekki sjálfsagt, að landeigandi eigi að græða á því stórfje; það er miklu nær, að sá gróði komi í almanna þarfir. Orkunýting fallvatna í stórum stíl er yfirleitt svo óviss möguleiki, að landeigandi má ekki byggja á honum við búreikninga sína. Sala eða leiga á fossum, sem fram hefir farið síðustu árin, er ekki yfirleitt svo vaxin, að til greina þurfi að koma í þessu sambandi. Við opinbert mat á jörðum hefir víst aldrei, að nokkru ráði, verið tekið tillit til slíkrar orkunýtingar.

Það sýnist til að mynda ekkert ósanngjarnt, ef viðurkent er, að landeigandi eigi yfirráðarjett vatns á landi sínu til orkunýtingar í smærri stíl, að ríkisvaldið mætti nota endurgjaldslaust vatnið sjálft í hans landareign í almannaþarfir eða til einstakra fyrirtækja, og þurfi eigi að greiða gjald fyrir annað en landspjöll eða önnur spjöll, til að mynda á veiði.

Því er það ekki einungis eðlilegt, heldur sjálfsagt, að hjá þeim, sem undirbúið hafa frumvarp til heildarvatnalaga, og hjá þingmönnum, sem málið eiga að afgreiða, vakni sú spurning, hvort lög vor að fornu og nýju og rjettarvenjur sjeu því til fyrirstöðu, að málinu megi svo skipa, sem á er bent. Einkum hlýtur þessi spurning að koma fram, þegar til samanburðar er tekin vatnalöggjöf annara ríkja og því er veitt eftirtekt, að vatnapólitík flestra annara ríkja stefnir að því marki að gera vatnsföll að almenningum eða láta þau koma undir yfirráð ríkisins. Það er út frá þessum skoðunarhætti, að sumir þingmenn hafa getað fylgt meiri hluta fossanefndarinnar, þótt þeir hafi ekki verið samdóma um rjettargrundvöllinn í teóríunni. Svo er um háttv. 3. landsk. þm. (HSn) Hann hafði fylgt meiri hl. áður að málum og var í nokkrum efa um, hvort hann vildi skrifa undir nefndarálitið athugasemdalaust. En það varð úr, að hann gerði það, af því að hann hafði stöðugt við meðferð málsins í nefndum á undangengnum þingum tekið það fram, að hann væri þeirrar skoðunar, að vatnsrjettindin fylgdu landinu að lögum, en á hinn bóginn tók nefndin nú upp mikið af breytingartill. meiri hl. þeirrar nefndar, sem sjerstaklega hafði áður starfað að málinu (1921) og hann var í. Þar að auki hefir því verið haldið fram, jafnvel frá báðum hliðum, að hjer væri í rauninni meira deilt um kenningar en raunverulega hluti.

Meiri hluti fossanefndarinnar hefir rannsakað löggjöfina mjög grandgæfilega, með aðstoð Einars prófessors Arnórssonar, og komist að þeirri niðurstöðu, er hjer segir:

1. Vatnið er alment eigi undirorpið eignarrjetti þeirra, sem land eiga undir því.

2. Landi því, sem vatn flýtur um eða vatn liggur á, fylgir undantekningarlaust tilkall til að nota vatnið til heimilisþarfa.

3. Sama tilkall til þess að nota vatn á því til jarðræktar (áveitu), þó því aðeins, að eigi sje þar með spilt vatnsbóli eða tekið vatn t. d. þess, er neðar býr við vatnsfall, sem annar maður þarf eða notar til heimilisþarfa (brunnur. brunnlækur).

4. Sama tilkall til vatns til að nota það til iðnaðar eða iðju í þarfir landsins beinlínis. með þeirri undantekningu, sem sagt er undir 3.

5. Vatn, sem löglega er tekið til iðnaðarnota eða iðju eða áveitu. verður eigi endurgjaldslaust tekið til annarar iðju. iðnaðar eða áveitu.

6. Það vatn, er eigi er notað samkvæmt 2–5. er öðrum frjálst til notkunar endurgjaldslaust.

Þetta er niðurstaða Einars Arnórssonar í ritgerð hans um vatnsrjettindi, sem prentuð er í nefndaráliti meiri hl. fossanefndarinnar.

Jeg get alls ekki fallist á þessa niðurstöðu, af þeim ástæðum, sem greina skal.

Þar sem svo er háttað, að sundurskifting lands í einstaklingseign er sprottin upp úr sameign, t. d. ættbálks, þjóðflokks, þorpsbúa, og ekki síst, er sjernotkun hefir komið í milli, þá er það mjög eðlilegt, að vatnsrjettindin haldi fremur áfram að vera almenningar eða fjelagseign að meira eða minna leyti. Sjerstaklega á þetta við í þeim löndum, þar sem allur almenningur frá fornu fari hefir þurft á vatninu, vatnsföllunum, að halda, svo sem til skipaferða, áveitu í stórum stíl o. þ. h.

Hjá oss er sagan alt önnur. Landnámið byrjar ekki á því, að þjóð eða þjóðflokkur nemi landið í fjelagi og skifti því síðan milli landnámsmanna til sjernotkunar eða í einstaklingseignir, með meira eða minna takmörkuðum rjetti vegna þjóðfjelagsins. Hjer nemur landið hver landnámsmanna fyrir sig, helgar sjer það land venjulega, þar sem hann getur auðveldast náð í það. Í þessu efni gerir það enga breytingu, að höfðingjar, sem hingað komu. námu stundum land handa fylgdarmönnum sínum eða gáfu vinum eða frændum af landnámi sínu. Það er ekki efasamt, að hver landnámsmaður hefir skoðað sig helga sjer landnám sitt með öllum rjettindum óskorað yfir landi og vatni. Á þessu gat engin breyting hafa orðið að lögum fyrir 930. Af hinni almennu sögu þjóðveldistímans eða þar á eftir verður víst ekki ráðið, að nein breyting hafi orðið á þessu, svo að hægt sje að segja, að rjettargrundvellinum sje breytt. Það er að vísu sagt frá því, að einstaka á hafi verið notuð lítið eitt til skipagöngu, en varla hefir þetta verið svo, að menn hafi alment fundið til nauðsynjarinnar, að vatnsföll væru almenningar. Fyrir áveituþörf höfðu menn að vísu opin augu, en varla svo, að menn teldu vötn þurfa að vera almenninga. Samáveitur í stórum stíl hefir varla verið um að ræða. Ákvæði vorra fornu laga um áveitur og brúagerð og til heimilisþarfa breyta engu hjer í, fremur en t. a. m. ákvæði um áning í haga breyta rjetti eiganda lands.

Fyrir lögum þjóðveldistímans um þetta efni, ákvæðum Jónsbókar og hinum yngri lögum um sama efni, er gerð nákvæm grein í áðurnefndri ritgerð og nefndaráliti. Býst jeg við, að þar sje tínt, sem til er. Þessi lagaákvæði eru yfirleitt öll svo orðuð, að eðlilegast er að skilja þau á þann veg, að þau byggi á því, að rjetturinn til afnota af vatni eða vatnsfalli fylgi landinu, sem að því liggur. Sum ákvæðin gera það svo ljóslega, að ómögulegt er að misskilja. Það kann að vera, að skýra megi einstaka ákvæði í hinum yngri lögum — til að mynda um vatnsveitu til neyslu eða áveitu — svo, að segja megi, að nær sje hinni skoðuninni; en fyrir niðurstöðuna um það. Hvað lög sjeu nú um þetta efni, hefir það að minni skoðun alls enga þýðingu. Það merkir ekkert annað en það, sem allir eru sammála um, að rjettur landeiganda eða afnot hans af vatni er og hefir verið mjög takmarkaður.

Enn skal aðeins drepið á það, að löggjafarvaldið hefir, með fossalögunum frá 1907 sjerstaklega, viðurkent hinn sama rjettargrundvöll sem þetta frumvarp er á bygt, og landsstjórnin og yfirvöld landsins hafa í aðgerðum sínum hvað eftir annað gert hið sama.

Jeg hikaði því ekki við það að fallast á það á sínum tíma, að frumvarpið væri bygt á þessum grundvelli, er það var lagt fyrir þingið af fyrverandi stjórn. Og þess vegna greiði jeg því nú atkvæði mitt.

Það hefir komið fram tillaga um miðlun á þrætunni um rjettargrundvöllinn, sú nefnilega, að væntanleg lög skeri ekki úr henni, heldur verði þau þannig samin, að til dómstólanna kæmi úr að skera. Þetta má orða. Jeg tel þó rjettast, að alþingismenn skeri hjer sjálfir úr, hver eftir sinni skoðun. Það er ekki meiri ábyrgðarhluti að gera það í þessu máli en í svo mörgum öðrum.

Jeg verð nú að orðlengja svolítið um eða út af ummælum í blaði einu, sem flytur svo einstaklega rjettar og óhlutdrægar þingfrjettir. Þar segir frá því, að fossamálinu muni verða hraðað og „þvegið af því mesta vatnsránskámið“.

Þar er ekkert „vatnsránskám“ að þvo af, svo að þetta eru ósannindi hjá blaðinu. En það er ekkert tiltökumál. Jeg nefni það ekki þess vegna, heldur af því, að það minti mig á fyrri ásakanir í þessa átt.

Þegar þáverandi atvinnumálaráðherra, Pjetur heitinn Jónsson, quem honoris causa nomino, var að búa út frumvörp þau, er leggja átti fyrir Alþingi 1921, þá komu vatnamálin til umtals. Komum við þáverandi ráðherrar okkur þá saman um það að bera fram frumvarpið til vatnalaga á þeim sama grundvelli, sem ráðuneytið áður hafði fallist á, nefnilega svo, að vatnsrjettindin fylgdu landinu. Að öðru leyti var frumvarpið samið eftir frumvörpum meiri og minni hluta fossanefndarinnar, og það tekið úr hvoru, sem hallkvæmara þótti, og auk þess kaflar úr frumvarpi meiri hlutans, sem ekki voru í frv. minni hlutans.

Atvinnumálaráðuneytið fjekk Einar Arnórsson, sem er einhver hinn besti lögfræðingur vor og manna færastur til að semja lagafrv. og færa í góðan búning, til að setja frv. saman og stíla svo, að í samræmi væri við rjettargrundvöll þann, er byggja átti á. Þetta gerði hann. Þegar frumvarpið kom fram, var gert hróp að ráðuneytinu, bæði utan þings og innan, fyrir það, að láta þennan mann, sem lýst hafði annari skoðun á rjettargrundvellinum, semja frumvarpið. Það var sagt, að í orði kveðnu væru viðurkend rjettindi landeiganda, en vatnsránið gægðist alstaðar út úr frumvarpinu. Meira að segja var sagt, að ráðuneytinu hefði hlotið að vera það ljóst, að maður svona gagnstæðrar skoðunar gæti ekki samið frumvarpið án þess að hans skoðun kæmi þar fram. Þetta síðastnefnda var auðvitað svo heimskulegt, að ekki tekur að mótmæla því; og allar voru þessar ásakanir annaðhvort vísvitandi ósannar og rangar eða sprotnar af misskilningi og vankunnandi. Líklega hvorttveggja. En hvað sem um það var, þá tók Pjetur heitinn þær afarnærri sjer. Það var maður, sem sannlega mátti segja um, að ekki mátti vamm sitt vita. Hann var allra manna heilastur og einlægastur við menn og málefni. Honum þótti sem hann væri hjer sakaður um óeinlægni og óheilindi, og jeg held líka, að það hafi einhverntíma verið sagt með berum orðum. Hann kvartaði oft um það við mig, að sjer þætti það sárast, að hann væri ekki nógu mikill lögfræðingur til þess að hann gæti sjeð glögglega, hvort þessar ásakanir væru á rökum bygðar eða ekki. Jeg reyndi að vísu að telja honum trú um, að svo væri ekki og að hann þyrfti ekki að taka þetta nærri sjer; en jeg hafði þá ekki athugað frv. eins grandgæfilega eins og jeg hefi gert það síðan.

En eftir að jeg hefi nú margskoðað hvert einasta ákvæði frumvarpsins, hefi jeg sannfærst um það, að ásakanir þessar eru á alls engum rökum bygðar.

Jeg ætla mjer eigi að amast við brtt. háttv. 2. þm. Eyf. (EÁ) við 7. gr. Hún kemur eigi rjettargrundvellinum við. En hvað fyrri brtt. snertir, þá er hún eigi allskostar heppileg, — ætti betur heima í 4. gr. en 1. gr. — og skilgreiningin er eigi allskostar nákvæm, þegar af þeirri ástæðu, að mörg vötn eru öll almenningar, og þyrfti hún því að orðast á annan hátt.