25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (1794)

9. mál, vatnalög

Sveinn Ólafsson:

Það eru aðeins örfá orð til háttv. þm. Dala. (BJ). Jeg verð að vekja athygli háttv. deildar á því, að nú eru liðnir 20 dagar síðan þetta frv. kom frá Ed. Hefi jeg oft farið þess á leit við háttv. þm. Dala., sem er formaður nefndarinnar, að hann kallaði oss nefndarmenn á fund um vatnamálið, en það aldrei tekist, og þó stundum verið ráðgert. Framan af töfðu annir í fjárveitinganefnd, en nú eru nokkrir dagar síðan þeim lauk, og hefir fundur þó ekki fengist. Vitanlegt er oss meiri hluta mönnum það líka, að tafirnar á fyrirtekt málsin eru ekki einvörðungu vegna annríkis, og þetta fundarboð hjá háttv. formanni kemur nú fram, þegar opinberlega er kvartað og ákvörðun tekin út úr neyð. Vjer höfum tilknúðir borið fram álit vort utan funda af því að vjer fundum, að drátturinn stefndi til eyðingar málsins. Hitt var oss einnig löngu ljóst, að einskis samkomulags var að vænta við háttv. minni hluta um undirstöðuatriði málsins, deilumálið gamla, og því var biðin enn hættulegri og líkari til að koma málinu í strand.