25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

9. mál, vatnalög

Jón Þorláksson:

Mjer finst þetta alleinkennileg aðferð með vatnamálið, og er það miklu líkast, að einhver ólga sje hjer á bak við; líklega er það eitthvað, sem ekki þykir vel til þess fallið, að það sæti venjulegri meðferð þingmála.

Jeg var kosinn í þessa vatnamálanefnd af kosningabandalagi nokkru hjer í deildinni, og var mjer allnauðugt að taka þar sæti. Þó hefi jeg ekki viljað vanrækja þessi störf mín þar, fremur en önnur þingstörf, sem koma undir mig og jeg hefi verið kosinn til að gegna.

Um vatnamálanál., sem nú er fram komið, get jeg ekki rætt hjer, er ekki hefir unnist tóm til þess að halda fund í nefndinni, og verði nú þetta samþykt, að þetta langstærsta mál þingsins, sem legið hefir fyrir á seinni árum, verði tekið á dagskrá næsta fundar, 27. þ. m., án þess að oss öðrum nefndarmönnum gefist ráðrúm til að ráða ráðum okkar um það mál, ber jeg fram þau tilmæli til háttv. vinnunefndar deildarinnar, að jeg verði leystur frá nefndarstörfum í vatnamálanefndinni.

Jeg vil taka það fram, að það er öldungis óþarft fyrir meiri hluta þessarar nefndar að hafa þessa aðferð í máli þessu, sem þegar hefir verið samþykt í Ed., og er því vitanlegt um, að hægt er að afgreiða með fullu og öllu á þessu þingi, enda þótt frestur yrði gefinn, svo að minni hluti fái tóm til að semja sitt nál.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) heldur fram, að nægur tími hafi verið til að halda fundi í vatnamálanefndinni, vil jeg segja, að jeg veit alls ekki, á hvaða tíma það hefði átt að verða. Jeg á sæti í einni hinni allra erfiðustu nefnd þingsins, og þar eru sífeld fundahöld alla daga, og sama á við um fjvn., auk hinna löngu dag- og næturfunda í þingdeildinni; hygg jeg því, að enn sem komið er hafi verið fremur lítill tími afgangs. Þeir, sem nú vilja fá þetta mál tekið á dagskrá 27. þ. mán. eru að leitast við, að þetta stórmerkasta mál þingins fái eigi að sæta venjulegri meðferð mála hjer á þinginu.