07.04.1923
Efri deild: 34. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (1963)

77. mál, skipting Eyjafjarðarsýslu í tvö kjördæmi

Einar Árnason:

Að eins örfá orð. Það þýðir ekkert fyrir háttv. frsm. (SHK) að vera að tala um undirbúningsleysi í þessu máli; þesskonar má altaf slá fram, þegar engin rök eru við hendina. Hv. frsm. (SHK) gat þess, að sýslunefnd hefði ekki látið í ljósi álit sitt, og vitnaði í lög, þar sem ákveðið væri, að ekki ætti að ráða til lykta sýslumálum án þess að leita álits sýslunefndar. Jeg held, að hv. frsm. (SHK) sæki þessa blekkingarástæðu helst til langt. Hann veit það eins vel og jeg, að Alþingi hefir vald til að setja lög eins og því sýnist, og þetta frv. er engin undantekning frá því. Jeg verð enn að vitna í skifting Húnavatnssýslu. Þar hefði þá þurft að leita álits sýslunefndar, en það var ekki gert. Nei, sýslunefnd kemur þetta mál alls ekkert við. Hv. frsm. (SHK) mintist á það, að Eyjafjarðarsýsla væri mestmegnis landbúnaðarhjerað. Hún var það, þegar sú kjördæmaskipun, sem nú er, var sett. En síðan hefir það breyst. Á Siglufirði er nær eingöngu sjávarútvegur. Í Ólafsfirði sömuleiðis. Þá eru og tvö þorp, Hrísey og Dalvík, þar sem mestmegnis er stundaður sjávarútvegur. Allir þessir staðir, sem þegar eru orðnir mjög fjölmennir, hafa risið á legg síðan núverandi kjördæmaskipun var ákveðin. Gamla skipulagið er því orðið úrelt og óhentugt.