24.03.1923
Efri deild: 26. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í C-deild Alþingistíðinda. (2079)

102. mál, bankaráð Íslands

Jón Magnússon:

Jeg geri ráð fyrir því, að það sjeu atriði í frv., sem vert sje að líta á. En jeg vildi aðeins gera grein fyrir því, hvers vegna jeg er á móti frv.

Hjer á að mynda allsherjarbankaráð, og eins og hv. flm. (JJ) rjettilega drap á, þá væri það aðeins Landsbankinn, sem það gæti átt við fyrst um sinn. En þess ætti ekki að þurfa. Sá banki er, að lögum til, svo vel útbúinn hvað stjórn snertir, að ekki er hægt að gera það betur.

Í öðrum löndum er álitið, að slík bankaráð sjeu lítils virði. Starfrækslan mest komin undir bönkunum sjálfum.

Þá er jeg samdóma hv. 5. landsk. þm. (JJ) um það atriði, að bankaráð Íslandsbanka, eins og það hefir starfað, hafi reynst fremur þýðingarlítið.

Því var hreyft fyrir nokkrum árum, og það oftar en einu sinni, hjer á Alþingi, hvort ekki væri rjett að skipa sjerstakan mann, er hefði eftirlit með sparisjóðum í landinu. En það mál gekk þá ekki fram.

Jeg skal víkja aftur að því atriði, að jeg tel naumast hægt að vanda stjórn Landsbankans betur með lögum, og því ekki heldur þörf. Við Landsbankann eru nú 3 aðalbankastjórar, og er það tveimur fleira en gerist við svipaða banka erlendis, þar sem ekki er nema einn aðalbankastjóri, og þá máske aðstoðarbankastjórar. Auk þess eru endurskoðendur, er þingið og ríkisstjórnin velur, og enn fremur getur stjórnarráðið eða fjármálaráðherrann haft áhrif á stjórn bankans.

Þarf því varla að bæta stjórn Landsbankans með lögum, og um að bæta stjórn Íslandsbanka er ekki að ræða hjer, eins og áður er að vikið, þar sem bankaráð hans er skipað eftir sjerstökum lögum. Þá álít jeg, að svona bankaráð yrði alt of þunglamalegt fyrir sparisjóðina. Þó er vert að hugsa um það atriði, hvort ekki væri rjett að setja sjerstakan eftirlitsmann yfir alla sparisjóði í landinu, og ef til vill líka yfir alla banka, einskonar bankaeftirlitsmann, en á öðrum grundvelli en þeim, er frv. þetta gerir ráð fyrir. Jeg hygg, að ekki yrðu mikil not að svona bankaráði, jafnvel þótt vel væri til þess vandað að mönnum. Jeg hefi því ekki mikla trú á því, að endurbót yrði að þessu.

Það væri þó máske rjett, að það atriði væri tekið til athugunar, t. d. af stjórninni hvort ekki væri rjett að skipa einn bankaeftirlitsmann einnig fyrir sparisjóðina.

Eins og áður er getið, þá voru gerðar tilraunir í þessa átt fyrir 8–10 árum, en náði þá ekki fram að ganga.