05.03.1923
Efri deild: 10. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

2. mál, sýsluvegasjóðir

Atvinnumálaráðherra, (KIJ):

Jeg hefi ekki ástæðu til annars en að vera háttv. nefnd þakklátur fyrir undirtektirnar. — Breytingar þær, sem hún hefir stungið upp á, eru ekki mikilsverðar. Um fyrstu breytinguna er það að segja, að það má til sanns vegar færa, að hart sje að sleppa stórum eyjajörðum við þetta gjald, en hins vegar er þó þess að gæta, að þær hafa oft lítil eða engin afnot af vegunum í sýslunni. Hjer er að gera á milli þarfar sýslusjóðanna til þess að fá gjaldið og að hve miklu leyti sje sanngjarnt, að eyjajarðir beri þessa byrði. Sýslunefndir ættu að vera því máli kunnugastar, og er því rjett að vísa því til þeirra.

Annari breytingunni er jeg sammála og þarf jeg ekki að fjölyrða um hana.

Þriðja breytingin fer fram á 1/2% lækkun. Það getur altaf verið álitamál, þegar um tölur er að ræða, hverja tölu eigi að taka. Ef til vill væri rjettast að nefna engar tölur og setja það í sjálfsvald sýslunefnda, því eftir sveitarstjórnarlögunum eru þær alveg einráðar á valdsviði sínu. En stjórnin hefir nú samt kosið að setja ákveðnar tölur, og 1/2% meira eða minna getur aldrei orðið kappsmál.

Um útgjöld ríkissjóðs af þessu frumvarpi er ekki hægt að segja með vissu. En þær sýslur, sem notuðu sjer þessa heimild, mundu ekki fá sjerstakan styrk í fjárlögum til sýsluvega, og þess vegna yrði kostnaðurinn aldrei gífurlegur. Og jeg vona, að hann vaxi ekki þinginu í augum, því það hefir altaf verið hlynt samgöngubótum. Jeg vænti, að frv. verði leyft að ganga í gegnum háttv. deild.