04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (2131)

58. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Eins og hv. deild er þegar kunnugt, klofnaði allshn. út af þessu máli. Vill meiri hluti hennar fella frv., en minni hlutinn vill láta það ganga fram, með nokkrum breytingum þó. Frv. er borið fram til þess, að allir kjósendur, eða sem flestir, geti náð að kjósa, þannig, að það ákveður, að kosið skuli verða 3 daga í röð.

Jeg veit ekki til þess, að nú sje sjerstök óánægja yfir, að menn geti ekki neytt kosningarrjettar síns, og hvergi veit jeg til, að það sje lögleitt, að kjósa nema 1 dag. Og í þessu efni held jeg, að rjettast sje fyrir oss að fara að dæmi annara þjóða. Jeg viðurkenni, að það kemur ekki svo sjaldan fyrir, að einn og einn kjósandi er útilokaður frá því að greiða atkvæði, en þetta nýja fyrirkomulag hefir galla, sem vega upp á móti því. Þessar kosningar yrðu mjög dýrar, og þó að farið yrði eftir tillögu minni hlutans um tveggja daga kosningu, þá er hæpið, að hún geti farið jafntryggilega fram eins og nú. Það eru ekki svo fá dagsverk, sem mundu liggja í þessari tveggja daga kosningu. Ef gert er ráð fyrir um 200 hreppum á landinu og að 3 menn sjeu í kjörstjórninni, þá eru þar komin 600 dagsverk. Það kostar ekki svo lítið. Ekki er ólíklegt, að fyrirkomulag þetta gæti leitt til atkvæðasmölunar.

Í öðru lagi, þegar svona er að farið, má jafnvel búast við, að sumir yrðu neyddir til að kjósa, en kosningarrjetturinn er aðeins rjettur, en engin skylda.

Í gildandi kosningalögum er til heimild fyrir því, að setja kjörþing af nýju, ef það ferst fyrir sakir ills veðurs eða annara ófyrirsjáanlegra kringumstæðna. En verði lögleiddir 2 eða fleiri dagar, sem kjósa má á, er hætt við, að sumir hugsi, að það sje nógur tími að fara á morgun eða hinn daginn, og þá sje ef til vill ófært veður, svo að einmitt þetta verði til að útiloka suma frá að kjósa.

Svo bætir minni hlutinn ákvæði inn, sem ekki er í upprunalega frv., um að yfirkjörstjórn sje heimilað að skifta hreppum í tvær eða fleiri kjördeildir. Eins og þessi brtt. er orðuð, virðist mjer, að yfirkjörstjórn eigi ekki að hafa neitt bundnar hendur í þessum efnum. Og ástæðurnar eru mjög óákveðnar, og nægir, að aðeins ein þeirra sje fyrir. Eftir brtt. er ekkert því til fyrirstöðu, að hreppi sje skift í svo og svo margar kjördeildir, svo framarlega sem í hverri kjördeild eru ekki færri en þrír kjósendur. Það getur verið einn bær, sem margra hluta vegna á erfitt með að sækja kjörþing, og þá sje jeg ekkert því til fyrirstöðu, eftir brtt., að hann verði gerður að sjerstakri kjördeild. Þá fer að nálgast heimakosningafyrirkomulagið, sem er mjög varhugavert og hvergi nokkurstaðar viðhaft. Jeg geri ráð fyrir, að minni hlutinn ætlist til, að atkvæðakassinn sje ekki opnaður eftir fyrri daginn; aðeins pokinn, og svo gætt að, hvort tala seðlanna sje rjett.*)

*) Hjer vantar mikið aftan af ræðunni. M.G.