02.03.1923
Neðri deild: 10. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í C-deild Alþingistíðinda. (2177)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Pjetursson:

Jeg ætla ekki að tala um breytingartillögurnar sjálfar, sem fram eru komnar, heldur aðeins benda á eitt atriði, sem mjer, sem ólöglærðum manni að minsta kosti, virðist mjög athyglisvert. Því hefir verið haldið fram, að nú væri mjög heppilegur tími til stjórnarskrárbreytinga, þar sem spara mætti aukakosningar þeirra vegna, þar sem reglulegar kosningar færu fram hvort sem væri. En mjer virðist þetta hæpið samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir svo, að „nái tillagan (þ. e. um breyting á stjórnarskránni) samþykki beggja þingdeildanna, skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju.“ Og í 20. gr. segir enn fremur, að stofna skuli til nýrra kosninga „áður en 2 mánuðir sjeu liðnir frá því er það var rofið.“ Hjer virðist þetta því koma í bága við eina aðalástæðu hv. flm. Jeg vil leyfa mjer að skjóta þessu fram til athugunar fyrir lögfræðingana.