02.03.1923
Neðri deild: 10. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (2180)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Það er ekki nema sjálfsagt að gera hæstv. forsrh. það til geðs að athuga málið sem rækilegast — en jeg þykist nú þegar hafa athugað það ekki svo lítið. Og niðurstaðan hefir þó orðið þessi, sem sjá má af frv. En mig furðar alls ekkert á afstöðu hæstv. forsrh. í þessu máli. Hún er í fullu samræmi við þá skoðun hans, að rjettara sje að ráðast á hið gamla og margreynda en hið unga og óreynda, ofvexti heimsstyrjaldarinnar. En jeg held fram því gagnstæða. Mjer finst það yfirleitt vænlegra að ráðast á ný lög, sem ekki eru reynd að neinu góðu, heldur en þau, sem hafa staðið í margar aldir og gefist vel.

Að því er snertir breytingu á kjörtímanum, þá vil jeg aðeins benda á það, að hún er bein afleiðing af því, að þing sje haldið annaðhvert ár. Það væri bæði undarlegt og óhentugt, ef kosið væri um þm. 4. hvert ár eftir sem áður og hver þm. þá aðeins kosinn til tveggja þinga. Slíkt myndi oft hafa óheppilegar afleiðingar og valda hringlandahætti í löggjafarstarfseminni. Um breytinguna á kjörtímabili landskjörnu þm. stendur líkt á, en jeg er þó fús til að taka það atriði nánar til athugunar.