04.04.1923
Neðri deild: 33. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í C-deild Alþingistíðinda. (2187)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Pjetursson:

Hæstv. forseti taldi mig vera frsm. minni hl., samkv. þskj. 229, en eins og hv. frsm. stjskrn., 1. þm. Skagf.(MG), hefir þegar tekið fram, ætti jeg að heita frsm. minsta hl., þar sem nefndin er þríklofin. Annars verð jeg að taka það fram, að jeg bjóst alls ekki við, að þetta mál kæmi til umræðu í dag, og vegna anna við samning fjárveitinganefndarálits hafði jeg beðið skrifstofustjóra um, að þetta mál yrði ekki tekið á dagskrá í dag. Bið jeg því hv. deildarmenn að afsaka mig, ef jeg verð órökfimur í þessu máli í dag, vegna ónógs undirbúnings. Auk þess þýðir ef til vill ekki neitt að vera að halda langa ræðu, ef það væri rjett, að það væru fleiri en meiri hluti stjórnarskrárnefndarinnar, sem hefðu bundist samtökum um að taka engum rökum, en drepa heldur þessar brtt. mínar. Á jeg og bágt með að trúa því, þótt heyrt hafi jeg, að margir þm. hafi ekki meira hugsað um brtt. mínar en svo, að þeir væru ekki farnir að lesa þær enn þá. Enn fremur hefi jeg heyrt utan að mjer, og sjeð í blaði, að brtt. mínar væru hvatvíslegar og lítt hugsaðar og bornar fram í því skyni að drepa frv. o. s. frv. (MG: Ætli það sje nú ekki nærri sanni?). Jeg get nú alls ekki farið að elta ólar við slíka hleypidóma, en þó gæti jeg tilfært nóg vitni úr mínu kjördæmi um það, að jeg hefi þar haldið fram á fundum líkum breytingum á stjórnarskránni, og eru þessar getsakir því á engu bygðar. Hitt getur vel verið, að þótt jeg hafi oft hugsað um það fyr að koma fram með þessar brtt., þá sje ekki fyrir öllu eins vel hugsað og skyldi eða jeg hefði viljað; en samt vildi jeg óska þess, að engir af hv. þm. greiddu atkvæði um þetta mál, svo að þeir ekki hefðu að minsta kosti eins vel athugað málið og jeg, því að þá er jeg ekki hræddur um, að það geti valdið dauða frv., þó að þessar brtt. mínar komi fram, og verði svo líklega strádrepnar við þessa umræðu; það ætti miklu fremur að gefa frv. meiri lífsþrótt. Getur vel verið, að sumum þyki ótilhlýðilegt, að þessar brtt. komi frá mjer, en ekki frá einhverjum flokksforingjanum í þinginu — sparnaðarbandalags eða Framsóknarflokksins eða öðrum, — að aðeins óbreyttur þm. dirfist að bera þær fram. En jeg vona, að hv. þm. taki fult tillit til þeirra samt.

Það er alment álitið, að stjórnarskráin eigi að vera einn hinn helgasti hlutur hvers þjóðfjelags, og að eiðstafur þm. staðfesti þetta, og jeg geri ráð fyrir, að í öðrum löndum sje ekki stöðugt verið að hlaupa hvað eftir annað til að breyta stjórnarskipunarlögum ríkjanna, nema eitthvað mikið sje í húfi, eða byltingar eða aðrar breytingar í þjóðfjelagsskipuninni sjeu þess valdandi. En þetta horfir öðruvísi við hjer. Það er sífelt verið að breyta stjórnarskránni hjá oss og ekki haft meira við en um smávægilegar breytingar á fjárlögunum, eða um sveitarútsvör eða hundaskatt væri að ræða. (MG: Þó vill enginn breyta meir til en þingmaðurinn). Jeg mun koma með ástæður fyrir brtt. síðar í þessari ræðu, en jeg geri ráð fyrir, að hefðu ekki brtt. annarsstaðar frá komið fram, þá væri óvist, að mínar brtt. hefðu fram komið í þetta sinn. Þó vil jeg geta þess, að breytingar þessar hafa alllengi verið í huga mínum, og hafa þær að mínu áliti meiri rjett á sjer og eru þýðingarmeiri fyrir löggjöfina en breytingar þær, er í frv. felast. En eigi að síður mundu þær vart vera fram komnar nú, ef þetta frv. hefði ekki verið á döfinni, því jeg greip einmitt tækifærið þess vegna til að koma mínum brtt. á framfæri um leið og farið væri á annað borð að breyta stjórnarskipunarlögum vorum. Þegar jeg var kosinn í stjórnarskrárnefndina, gerði jeg mjer vonir um að fá tækifæri til að rökræða brtt. mínar við samnefndarmenn mína, bæði til þess að þær hefðu fengið þar betri athugun, ef einhvers hefði verið vant við undirbúning þeirra, og eins hefðu þá háttv. samnefndarmenn mínir átt að geta komið fyrir mig vitinu, ef þær hefðu verið af því illa. Þessu var þó alls ekki að heilsa, þar sem nefndin var annars vegar. Þar var því strax lýst yfir, að engar frekari breytingar skyldu ganga fram nú, ef nefndin mætti ráða.

Mjer þykir yfir höfuð vænt um, að hv. 1. þm. Skagf. (MG) var á undan mjer með sína ræðu, því hún lýsir glögt vinnubrögðum nefndarmanna og virðingu þeirra fyrir þessu máli.

Þá skal jeg nú snúa mjer að þessum brtt. mínum. Það er þá fyrst 2. brtt. á þskj. 229. Í henni felast tvær aðalbreytingar á núv. stjórnskipunarlögum: 1. að fækka þingmönnum um 6, og 2. að Alþingi skipi aðeins eina málstofu. Hinar breytingarnar leiða flestar af þeim brtt., sem nú voru nefndar.

Fyrst er þá þetta, að fækka þingmönnum um 6. Jeg hefi því miður ekki haft tækifæri til að afla mjer fullkominna upplýsinga um það, hvernig til hagar í löggjafarþingum annara þjóða að því er snertir hlutfallið milli tölu þingmanna og íbúatölu ríkjanna. Hygg jeg þó, að það komist hvergi í námunda við það, sem hjer á sjer stað hjá okkur í þessu efni. Jeg skal þó fúslega játa, að staðhættir hjer útheimta nokkru fleiri þingmenn en annarsstaðar, en jeg hygg, að hjer sjeu þó alt of margir þingmenn.

Enda þótt jeg hafi, eins og jeg hefi áður tekið fram, ekki kynt mjer þessa hlið málsins nógu rækilega, skal jeg þó tilfæra nokkur dæmi þessu til sönnunar.

Í Danmörku munu koma 7 þm. á hverja 100000 íbúa, á Englandi 1 þm. á hver 70 þús., Frakklandi 1 þm. á hver 40 þús. og á Ítalíu eitthvað svipað þessu; en hjer höfum við 42 þm. fyrir hjer um bil 90 þús. manna. Stafar þetta að sumu leyti af því, að hlutföllin hljóta að verða önnur hjá smáþjóðunum, en jeg er þess fullviss, að þessi mismunur á okkur og öðrum þjóðum þarf ekki að vera svona mikill í þessu efni.

Jeg vil ekki halda því fram, að þessi mismunur stafi af því, að við sjeum þeim mun ver gefnir en aðrar þjóðir, að færri mönnum sje ekki trúandi til þessa löggjafarstarfs, enda mun enginn vilja bera slíka ástæðu fram fyrir þingmannafjölda okkar. Það hefir oft verið klifað á því, að við höfum of marga opinbera starfsmenn, og nærri því á hverjum degi koma fram ýmsar tillögur um að fækka þeim. Mjer hefir því dottið í hug að vita, hvort þingið vildi ekki líta sjer nær og fækka þá eitthvað þingmönnunum. Sem stendur hygg jeg, að það mundi reynast allerfitt að koma fram fækkun á kjördæmakosnum þm., og liggur því beinast við að ráðast á þá landskjörnu. Þar sem það er ef til vill ekki svo fljótlegt að sýna fram á tilverurjett landskjörinna þm. á þingi okkar, þá þarf jeg ekki að vera mjög langorður um það, hvers vegna þeir ættu að hverfa þaðan aftur. Þetta eru aðeins vandræðalegar leifar frá fyrri tímum, leifar af konungkjörnum þingmönnum, og má þó segja, að þeir ættu miklu fremur rjett á sjer, voru miklu samfeldari heild í þinginu á sinni tíð. Fæ jeg því ekki sjeð, að landskjörnir þm. skapi neitt það hjer í þinginu, sem kjördæmakosnum þm. væri um megn að gera. Þá skal jeg játa, að ef þeir eru á annað borð, væri máske rjettara, að þeir mynduðu algerðan meiri hluta í Ed, eða þá að Ed. væri skipuð landskjörnum þm. einum. Jeg fæ ekki skilið, að nokkrum manni geti dottið í hug að halda, að þjóðarviljinn komi betur í ljós eða fái betur notið sín við landskjör. Það er síður en svo, því það verða jafnan stjórnmálaklíkurnar í Reykjavík, sem mestu ráða um þær kosningar og oftast skipa mönnum á listana. Vel má og vera, að það álit hafi komið fram, að með þessu móti veldust færustu og bestu menn í þessar trúnaðarstöður þjóðarinnar, en jeg skil þó ekki vel, hvers vegna þeir ættu ekki eins að geta komist að í einhverju kjördæmanna, sem svo eru mjög kostum búnir til þessa. Skal jeg taka það fram nú þegar, að það, sem jeg hefi nú sagt um landskjörnu þm., er aðeins frá almennu sjónarmiði talað, og snertir því á engan hátt núverandi eða fyrv. landskjörna þingmenn sjerstaklega.

Þá kem jeg að hinni aðalbreytingunni, að Alþingi skipi aðeins eina málstofu. Jeg býst við því, að núverandi fyrirkomulag, deildaskiftingin, eigi að vera tryggara fyrirkomulag og trygging fyrir vandlegri meðferð málanna en ella, að fjármálin og önnur þýðingarmikil mál verði á þann hátt rækilegar yfirveguð og fái betri úrlausnir, og er þetta að vísu rjett, að þetta er aðalkostur þessa skipulags. En jeg get heldur ekki fundið neinn annan. Á hinn bóginn er þetta miklu óhægra, bæði hvað snertir kostnaðinn og ýmislegt annað; það er vafningssamara og tímafrekara að miklum mun heldur en það yrði, ef þingið skipaði aðeins eina málsstofu. Væri þingið aðeins ein málstofa, mundi margt sparast á ýmsa lund. Þingtíminn hlyti að styttast, starfmenn þingsins yrðu færri, þingtíðindin styttri o. fl. o. fl. Og jeg álít engu minni tryggingu fyrir því, að málunum verði ekki flaustrað af sem óskapnaði, ef mitt ráð yrði upp tekið um ýms tryggingarákvæði, er í mínum brtt. felast. Þar á meðal eru ákvæði um 4 umræður hvers máls, áður en afgreitt verður, og að ekki megi afgreiða sem lög önnur frv. en þau, er komi ekki síðar fram en viku eftir þingbyrjun, og svo frv. frá fyrri þingum. Undan þessu eru þó skilin öll stjórnarfrumvörp. Jeg er í engum vafa um, að þetta er til stórra bóta, hvort sem þingið er eineða tvískift, og vil því biðja háttv. þm. að athuga þetta atriði vel, áður en þeir vísa því á bug. Þó jeg fyrir mitt leyti telji þetta nægilega tryggingu, þá dettur mjer ekki í hug að ætla, að ekki megi finna fleiri tryggingarákvæði, ef þörf er á, og væri jeg því fús að taka höndum saman við hvern hv. þm. sem er, að vinna að því, sem til bóta horfir þessu máli, og jafnvel vinna eitthvað til samkomulags, ef jeg fyndi áhuga og góðan vilja hjá hv. þm.

Þá eru aðrar brtt., sem jeg hefi gert. Get jeg fyrst nefnt þá breytingu, að numið verði úr 29. gr. stjórnarskrárinnar það ákvæði, að kosningarrjett til Alþingis hafi ekki þeir, er standa í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. Þarf ekki langt mál því til stuðnings, því öðru hverju undanfarið hafa komið fram raddir á þingi, sem fara í þessa átt, og virðist svo, sem þær hafi gott fylgi hjer. Líka liggur nú fyrir þinginu frv. um breytingu á fátækralögunum, þar sem hið sama kemur fram. Má sjá af þessu, að sú stefna er nú svo rík að nema þetta burtu, að sjálfsagt er að ganga hreint að verki og fella það burtu úr stjórnarskránni sjálfri, en vera ekki að fara smátt og smátt í kringum stjórnarskrárákvæðið með einstökum lögum.

Þá er eitt atriði, sem allir hv. þingdeildarmenn hljóta að vera mjer sammála um, en það er kosning varaþingmanna fyrir alla þá þingmenn, sem kosnir eru hlutbundnum kosningum. Háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) hefir áður minst á það hjer í hv. deild, og þarf jeg því ekki um það að ræða nú, enda er þetta sanngirnismál, sem allir háttv. þm. hljóta að vera á einu máli um. Það getur altaf farið svo, að minsti flokkurinn, sem komið hefir manni inn á þing, missi þingmanninn, og myndi þá, ef ekki væri varamaður fyrir hendi, sterkasti flokkurinn koma að manni í hans stað. „Teoretiskt“ sjeð gæti sterkasti flokkurinn náð þannig öllum þingsætunum fyrir kjörtímabilið, en það er einmitt atriðið, sem hlutbundnar kosningar eiga að koma í veg fyrir. Það er ekki síst viðvíkjandi þessu atriði, sem er svo augljós sanngirniskrafa, að segja má, að þeir háttv. nefndarmenn, sem bundist hafa samtökum um að breyta engu, sem frv. fer ekki fram á, hafi bundist samtökum um að taka ekki rökum.

Þá skal jeg snúa mjer að frv. sjálfu og breytingum þeim á stjórnarskránni, sem þar er gert ráð fyrir.

Það er rjett hjá hv. 1. þm. Skagf. (MG), að jeg er á móti því, að þingum verði fækkað. Voru við fyrstu umræðu færð ýms rök gegn því, og vil jeg ekki fara að endurtaka þau nú, en jeg ætla að benda hv. þm. á, að það bæri vott um ærið mikið hverflyndi hjá háttv. þingi, ef það færi nú að breyta þessu atriði, því að það var samþykt hjer á þingunum 1919 og 1920. Kom það þá, sem önnur atriði stjórnarskrárinnar, til umræðu í stjórnarskrárnefnd, og voru þá allir háttv. nefndarmenn sammála um að láta það standa. Ekki gekk þetta þó mótmælalaust gegnum þingið, því brtt. kom í báðum hv. deildum um að hafa þing annaðhvert ár, en þær hlutu svo lítinn byr, að ekki fengust nema 2 atkvæði með brtt. í annari deildinni, en 5 í hinni.

Er það ærið kynlegt, ef þeir hv. þm., sem setið hafa á þingi frá því 1919, og þá greiddu atkvæði með því, að þing væri haft á hverju ári, færu nú að greiða atkv. á móti því. Skil jeg ekki, hvernig þeir fara að skýra þessa framkomu sína fyrir hv. kjósendum sínum, ef þeir hugsa til að bjóða sig fram aftur. Ætla þeir að halda því fram, að helmingur þinga síðan 1919 hafi verið óþarfur, og að þeir hafi ekkert gagn gert á þeim? Eða að nú sje orðið svo bjart yfir þjóðarbúskapnum og atvinnuvegum, að þingin sjeu óþörf, vegna þess, að nú sjeu engin vandamál lengur fyrir hendi? Jeg get ekki hugsað mjer, að hv. þdm. hugsi þannig. Tímarnir hafa ekki breyst svo enn, að minni þörf sje á þingum á hverju ári nú en var 1919. Aftur á móti getur maður hugsað, að sú breyting komist á með tímanum, þegar aðstæður batna, að eigi verði þörf árlegra þinga, og fyrir því hefi jeg sett þá heimild í brtt. mína, að með einföldum lögum megi breyta þessu ákvæði, svo að eigi þurfi að hrófla við stjórnarskránni. Er óþarfi fyrir hv. andstæðinga mína í þessu atriði að setja þetta ákvæði fyrir sig, því strax á næsta þingi má breyta því, ef þörf þykir.

Þegar stjórnarskrárfrumvarpið var lagt fyrir Alþingi 1919, sagði þáverandi forsætisráðherra nokkur orð um þetta atriði, sem sýna glögt, að þá var alment álitið, að óhjákvæmilegt væri að halda þing á hverju ári. Ætla jeg, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp þessi orð. Þau eru svo:

„Þá er eitt atriði, sem jeg býst ekki við að sæti neinum mótmælum, en það er, að Alþingi skuli haldið á hverju ári. Reynslan hefir orðið sú, að mestan hluta þess, sem af er þessari öld, hefir Alþingi verið haldið árlega. Þessa virðist líka full þörf, einkum vegna fjárlaganna, því að ólíkt mun reynast betur að gera fjárhagsáætlun, fyrir aðeins eitt ár í senn.“ Þessi orð eru alveg í samræmi við það, sem haldið hefir verið fram hjer á móti fækkun þinga, og vil jeg benda hv. þdm. á, að þetta eru orð manns, sem við stjórnarstörfin var riðinn, og því ekki lakari dómari í þessu máli en margir þeir, sem nú vilja fækka þingunum.

Það var og rjett, sem hv. 1. þm. Skagf. (MG) sagði um afstöðu mína til fækkunar ráðherra ofan í einn. Jeg álít fullforsvaranlegt að fækka þeim, ef þingum verður ekki fækkað, og að hægt yrði að koma því í framkvæmd síðar, þegar tímar kyrrast, enda mun ráðherrafjölgunin komin á aðallega vegna ófriðarins. Jeg hefi svo ekki miklu við að bæta, en vil geta þess áður en jeg sest niður, að ef einhver hv. þm. hjeldi, að jeg væri hjer á ferð með nýmæli, sem ekki hefðu komið hjer til mála áður, þá nær það engri átt. Það má kalla tilviljun eina, að stjórnarskrárnefndin frá 1919 lagði ekki til, að þingið yrði ein málstofa. Má sjá af gerðabók nefndarinnar, að tillaga hefir komið fram um það innan nefndarinnar, en verið feld með 6: 5 atkv. Vona jeg, að þeir hv. þm., sem þessu hjeldu þá fram í nefndinni, styðji nú þessa tillögu mína.